föstudagur, apríl 03, 2015

Leigubílabugun í Manila

Fjörtíu mínútna tuk-tuk ferðin, tíu mínútna bátsferðin, tveggja tíma rútuferðin og klukkutíma flugferðin gekk alveg eins og í sögu. Þrátt fryrir að hafa verið sótt fjörutíu mínútum of seint af bílstjóranum náðum við fluginu og fengum að innrita töskurnar og allt heila klabbið.

Manila tók á móti okkur eins og við mundum eftir, ringulreið og stress. En við vorum séð og bókuðum hótel í aðeins þriggja kílómetra fjarlægð frá flugvellinum. Það eina var að við þurftum að bíða í hátt í klukkutíma eftir leigubíl. Eftir þetta langa ferðalag langaði okkur ekkert heitar en að hendast upp í rúm og sofna, ef allt færi samkvæmt áætlun yrði sú hending um klukkan níu um kvöld sem var fínt, en daginn eftir myndum við svo hitta Gebbu og Ray og stelpurnar og allir spenntir.

Loksins náðum við leigubíl sem vildi fyrst plata okkur og ekki kveikja á mælinum, sagði að þetta heimilisfang væri langt í burtu. Við skipuðum honum að kveikja á mælinum sem hann samþykkti og spurðum svo hvort hann vissi ekki örugglega hvar þetta væri. Hann játti því en hélt því stöðugu að þetta væri langt í burtu. Viðvörunarbjalla númer eitt hringdi í hausnum á mér en sökum langþreytu var slökkt á henni og Pollýanna tók völdin. Við reyndum á meðan að leigubílstjórinn fussaði og sveiaði yfir umferðinni (eða kannski látunum í okkur) að skoða kort sem við höfðum vistað í símann en allt kom fyrir ekki. Eftir um klukkutíma akstur hringdu viðvörunarbjöllur númer 2 og þrátt fyrir alla umferð í heiminum ættu þrír kílómetrar ekki að taka klukkutíma. Við reyndum hvað við gátum að segja leigubílstjóranum að hann væri að fara vitlaust en hann fullvissaði okkurum að hann vissi hvar hótelið væri og að hann væri að fara rétt. Þá datt mér í hug að kveikja á RunKeeper appinu í símanum bara til að sjá hvort við værum nokkuð að keyra bara í hringi. Klukkutíma seinna sýndi RunKeeper að við værum svo sannarlega ekki að keyra í hringi heldur vorum við komin langt langt í burtu frá flugvellinum og þriðju viðvörunarbjöllurnar hringdu. Þá var Magnus kominn með meira en nóg og skipaði leigubílstjóranum að stoppa næsta leigubíl og spyrja til vegar. Sá leigubíll hló og sagði að þetta heimilsfang væri rétt hjá flugvellinum, um tveimur tímum í burtu. Í þetta skiptið kom reykur út úr eyrunum á Magnusi og hann sagði leigubílstjóranum að hann myndi ekki borga einum pesó meira, að hann skyldi stöðva mælinn og keyra okkur tilbaka med det samme! Þá fór að rjúka úr eyrunum á leigubílstjóranum sem sagðist bara ætla að henda Magnusi þá í lögguna og þar af leiðandi í steininn. Áður en ég næ að átta mig á stöðu mála er leigubílstjórinn búinn að stoppa löggubíl og Magnus mættur út að rökræða við leigubílstjórann með löggu sem dómara...

Ooooo óóó heyrist í Óskari, babú! Og ég krosslegg fingur að Magnusi verði ekki hent í steininn og að við komumst vonandi að sofa einhvern tímann. Dómara-löggan skildi reiði okkar en sagði okkur að borga vesælis leigubílstjóranum sem tók peninginn og hreytti einhverju í nýja leigubílstjórann sem löggan hafði nú fundið fyrir okkur, sem við komumst að seinna að var “svindlaðu nógu mikið á þeim”. Þegar þarna er við sögu komið er klukkan ellefu en nýji bílstjórinn er hinn viðkunnalegasti og afsakaði landa sinn fyrir að koma okkur í svona klandur. Hann ætlaði sko að koma okkur á hótelið á mettíma og í fyrsta skipti þetta kvöld vorum við frekar bjartsýn og Pollýanna náði að reykræsta eyrun á Magnusi og kreista fram smá bros á eiginmanninum.

Eftir um klukkutíma keyrslu sáum við fram á að vera komin upp á herbergi fyrr en ætlað var. Þegar að kom svo að því að finna götuna og hótelið viðurkenndi bílstjórinn að hann hreinlega fyndi ekki götuna og enginn kannaðist við hótelið og við vorum farin að halda að það væri hreinlega ekki til. Það tók tuk-tuk bílstjóra og hverfislögguna en um eittleytið fundum við loksins umrætt hótel og fórum dauðþreytt að sofa. Viðkunnalegi leigubílstjórinn afsakaði sig enn og aftur en ruglingurinn var víst Moonwalk 1 og Moonwalk 2. Okkur var alveg saman, við vorum komin og allir heilir. Við lögðumst upp í rúm dauðþreytt og Pollýanna ætlaði að fara að hlægja að þessu öllu saman, Magnus næstum handtekinn fyrir að svindla á leigubílstjóra, en þá lagðist Magnus í fósturstellinguna og sagði “Ólöf, í fyrsta sinn í ferðinni langar mig bara heim” og þá sprakk ég úr hlátri og sagði “ég get ekki beðið eftir að blogga”.

Næsta morgun var förinni svo heitið í Bonifacio Global City þar sem Ray og fjölskylda beið okkar. Við prentuðum kort, fengum nákvæmar lýsingar á hverfinu og fullvissuðum okkur um að leigubílstjórinn radaði áður en við stigum fæti inn í bílinn. Okkur til mikillar undrunar vissi leigubílstjórinn akkúrat hvert við vorum að fara og kom okkur þangað á mettíma. Við eyddum yndislegum dögum með fótboltastjörnunni og fjölskyldu hans og náðum að sjá einn leik með Global. Það var virkilega gaman að sjá lífið hjá Ray þarna úti en Global City er nútíma borg með háhýsum, veitingastöðum og kaffihúsum og ef einhver er í Manila þá mæli ég með heimsókn þangað.

Síðan kvöddum við og héldum áfram til Palawan þar sem við erum nú en næsta blogg verður tileinkað þessum fallega stað þar sem orðakvótinn er þegar sprunginn.

Afsaka runina og myndaleysið en internet sambandið er mjög stöpult hérna.
Lifið heil!

þriðjudagur, mars 17, 2015

Koh Rong-Sihanoukville-Siem Reap-Manila-Boracay

Litla farþegaskipið sem hefur það hlutverk að ferja sólþyrsta ferðamenn frá meginlandinu á eyjarnar bíður yfirvegað í höfninni. Tíu mínútur í brottför og Magnus hleypur í nærliggjandi apótek til að kaupa bleyjur (já hann er ekki enn hættur með bleyju og harðneitar að fara á klósettið). Við Óskar bíðum róleg við hafnarbakkann ásamt öllum hinum bakpokaferðalöngunum en förum að óttast um ferðir hans þegar að farþegaskipið gerir sig líklegt til brottfarar. Með svitann að vopni nær hann í tæka tíð og vel það, enda gerist ekki allt endilega á slaginu í þessum heimshluta. KLukkutíma bátsferð á milli eyjanna varð að fimm tíma ferðalagi -en fyrst var farið á eina eyju og svo á Koh Rong en þaðan tókum við bát á annan stað á eynni.

Á þessum stað hafa víst Survior þættir verið teknir upp og var aðalgistiaðstaðan lokuð fram í júní vegna þessa. Survivor þátttakendurnir eru fastir á einhverri eyju rétt hjá en þarna voru tæknimenn og sviðsfók í fullu að vinna. Öryggisverðir stóðu vörð á ströndinni en gáfu sér tíma til að taka myndir með ljóshærða Óskari sem fólk virtist ekki skilja að væri strákur (kannski kominn tími á klippingu?). Þar sem við gátum ekki gist á þessu Survivor hóteli gistum við í "bungalow" á ströndinni sem var í rauninni bara kofi úr spýtum með moskítóneti. Þar áttum eyddum við þremur yndislegum dögum og fundum þessa líka krúttlegu hvolpa sem léku við okkur daginn inn og út. Það var svo ekki fyrr en á síðasta degi að við tókum eftir litlum svörtum flugum á feldinum þeirra sem voru sennilega flær... Beint í sturtu og vonað það besta!


Þaðan fórum við svo aftur á Papa Pippo hippagistiheimilið okkar á Otres 1 ströndinni í Sihanoukville í þrjár nætur áður en við flugum til Siem Reap aftur og eyddum einni nótt þar áður en við héldum áfram til Manila. Upphaflegt plan var að fara til Víetnam frá Kambódíu en vegna langvarandi magavesens hjá undirritaðri var hætt við Víetnam og ákveðið að fara bara til Banoue í Filippseyjum og skoða hrísgjrónaakrana. En það ferðalag átti að taka mjög langan tíma, fyrst næturflug frá Siem Reap til Manila, lent 2 um nóttina og taka svo flug klukkan tíu um morguninn og svo skella sér í þriggja tíma rútuferð á áfangastað. Síðasta daginn okkar í Siem Reap ákváðum við að taka því mjög rólega og skelltum okkur bara í bæinn fyrir smá hádegisverð. Ég og Óskar tókum enga sjénsa og fengum okkur pizzu (en Óskar hafði verið gubbandi nokkrum dögum fyrr) en Magnus ákvað að fá sér ástralskan grillrétt þar sem hann fékk að elda matinn sjálfur. Krókódíll, strútur og kengúra. Hrátt kjöt í 36 stiga hita var kannski eftir á að hyggja ávísun á eitthvað ægilega ósniðugt. Ég smakkaði smá af kjötinu en hélt mér mestmegnis við pizzuna.

Klukkan 20 var svo komið að því að skella sér út á flugvöll og var Magnus þá þegar orðinn hvítur í framan. Við þurftum að hleypa nokkrum framfyrir okkur í innrituninni þar sem að Magnus hljóp annars slagið til að skila ástralska kjötinu. Það kom því ekki á óvart að þegar við lentum í Manila var ákveðið að sleppa því að fara til Banoue og finna hótel í staðinn. Eftir fimm til sex tíma svefn á mjög vafasömu hóteli í vafasömu hverfi var ákveðið að fara bara til Boracay í staðinn. Seinniparts flug bókað og í þetta sinn var röðin komin að mér. Með ótrúlegri þrautseigju komst ég á leiðarenda án nokkurra vandræða, en tæpt var það. Það hvarflaði að mér nokkrum sinnum í rútunni að láta bara flakka -svona til að eiga sögu í gott blogg, en skynsemin tók yfir og öll komumst við á leiðarenda í hreinum nærbuxum.
Núna erum við að njóta lífsins hérna á Boracay en strendur þessarar eyju hafa verið valdar þær fallegustu í heimi af virtum ferðablöðum og við því spennt að sjá fegurðina. Hér er jú yndislega fallegt -en grænn þari hvílir yfir sjávarborðinu. Þetta er víst árstíðarbundið og versti tíminn er að sjálfsögðu mars fram í maí og hefur eitthvað að gera með ammóníak úr hreinsuðum niðurföllum sem drepur fiskana sem vanalega borða þarann (ef þú ert vísindamaður og lest þetta þá biðst ég afsökunar og segi bara eins og maður segir -sel það ekki dýrara en ég keypti það!). En maður vaðar bara yfir þörunginn og nýtur lífsins á vindsænginni sem nýlega bættist í safnið hjá okkur.

Boracay er einnig þekkt fyrir litríkt næturlíf og hérna á hippahótelinu okkar sem heitir því skemmtilega nafni Frendz höfum við fengið að kynnast fullt af skemmtilegu fólki á öllum aldri sem segir okkur krassandi djammsögur í hádeginu þegar þau ranka við sér. Heimamennirnir eru eins og mig minnti alveg yndislega gestrisnir, alltaf til í að leika við Óskar og mjög brosmildir.

Hérna ætlum við að vera þar til 20. mars en þá ætlum við að halda í Filippseyja-hefðina okkar og hitta Gebbu, Ray og fjölskyldu og náum að sjá einn leik hjá fótboltamanninum.

Með einlægri kveðju og ósk um að þið fáið nú frí frá lægðum þarna heima,
-Ólöf Daðey.

fimmtudagur, mars 05, 2015

Siem Reap-Angkor Wat-Sihanoukville Kambódía

Óskar situr í gluggasætinu og spyr hvenær flugvélin ætli af stað. Spennan er í hámarki, enda er flugvélin rauð sem skiptir víst öllu máli þegar maður er tveggja ára. Áætlaður flugtími til Siem Reap í Kambódíu er 50 mínútur og því ekki neinu að kvíða. Þegar flugvélin var varla tekin á loft koma flugfreyjurnar fram með þessa líka fínu pappíra fyrir vegabréfsáritunarumsóknina. Ekki ein blaðsíða, ekki tvær, ekki þjrár, heldur heilar 6 blaðsíður til útfyllingar, allt með stórum stöfum. Magnus horfði á mig og ég sá hvernig gleðin í andliti hans dó hægum dauða með hverri útfyllingu. Átján blaðsíðum, 45 mínútum og nokkrum handarkrömpum síðar var Magnus í þann mund að klára þegar að flugfreyjurnar birtust aftur og hófu undirbúning til lendingar. Í stuttu máli og til að vernda sögupersónur gekk þetta allt saman upp en mér var skipað að fá mér penna og aðstoða við næstu útfyllingu ellegar ég yrði skilin eftir.

Kambódía tók vel á móti okkur með brosandi tollvörðum og leigibílstjórum. Klukkan var að ganga tíu að kvöldi til þegar að við komum á Le Meridien hótelið og útgangurinn á okkur kannski ekki alveg í stíl við fínt hótelið. Gestir vorum við engu að síður en þegar að okkur var tjáð að herbergið væri ekki tilbúið út af seinkun hjá flugfreyjunum sem gistu á hótelinu hélt ég að Magnus myndi breytast í rauðu flugvélina sem Óskar saknaði nú sárt. Honum til varnaðar hélt hann sér svo til á mottunni og eftir hálftíma bið í andyrinu fengum við loksins herbergið okkar sem ég vildi helst ekki yfirgefa, slík voru fínheitin. Næstu daga leigðum við okkur svo tuktuk sem keyrði okkur um hofin í Angkor.

Við keyptum okkur þriggja daga passa og byrjuðum á því að skoða elstu hofin og enduðum á Angkor Wat sem er án efa frægasta hofið. Óskari fannst mjög gaman að hlaupa um og leika sér en varð stundum ringlaður þegar hann mátti ekki klifra upp eins hátt og hann gat, en þessi hof voru sum byggð árið 879 og hefði því verið alger synd ef að tveggja ára skæruliði frá Íslandi myndi skemma eitthvað...


Hitinn var um 36 gráður á daginn sem var okkur stundum ofviða en sem betur fer var þessi fína sundlaug á hótelinu sem kældi okkur eftir langan og heitan dag.

Annars slagið kíktum við svo niður í bæ á "Pub Street" og gæddum okkur á bjór sem kostaði hálfan dollar og nutum kambódískrar eldamennsku. Eitt hádegið gekk að mér maður með skilti sem sagði "fórnarlamb jarðsprengju" en hann hafði misst báðar hendurnar í jarðsprengju eins og því miður svo margir hérna í Kambódíu. Hann var að selja bækur og litla hjartað í mér sló hraðar og auðvitað keypti ég bók af manninum eftir að Magnus hafði reynt að prútta niður verðið (ég hélt ég yrði ekki eldri!).

Frá Siem Reap fórum við svo til Sihanoukville sem er við ströndina og höfum haft það mjög gott í aðeins svalara veðri (ekki nema 30-32 gráður). Við erum núna á yndislegu gistiheimili á Otres ströndinni sem heitir Pappa Pippo og er rekið af Ítölum. Það er flottur hippafílingur hérna og síðhærði Óskar og fúlskeggjaði Magnus smellapassa hér inn.

Ég er að velta fyrir mér að henda í mig dreddum eða fylla hendur og fætur af alls kyns armböndum til að passa betur inn. Þar til að sú hugljómun kemur held ég mig við bókina "Children of the Cambodian Killing Fields" sem ég keypti af jarðsprengjufórnarlambinu en þetta eru sögur fólks sem voru börn þegar að kommúistaflokkur Khmer Rouge voru við völd árið 1975 og drápu að er talið 25% þjóðarinnar, upplífgandi ég veit en saga þessa lands finnst mér alveg mögnuð. Eins hræðilegir og þessir svo til nýskeðu atburðir eru þá finnst mér kambódíska fólkið ótrúlega glatt og jákvætt og er mjög hrifin af þessu landi. Á morgun förum við svo á eyju ekki langt frá sem heitir Koh Rong og ætlum að eyða nokkrum dögum þar.

Bestu kveðjur heim í storminn!

Heimsfararnir

miðvikudagur, febrúar 25, 2015

Tæland í einum rykk

Átta tíma bið á Kilimanjaro flugvellinum sem er litlu stærri en Reykjavíkurflugvöllur. Ástæða seinkunar ekki kunn. Við getum okkur til að ekki “náðist í lið” eða það voru fjórar til fimm hræður í fluginu. Okkur er boðið í betri stofuna þar sem við horfðum á tennis og fótbolta og sumir fengu sér frítt viskí. Átta tímarnir flugu hjá og loksins var okkur tjáð að “náðist hafði í lið” og flugvélin færi til Nairobi stuttu seinna. Þá kom annað babb í bátinn. Lítil rella hafði bilað á miðri flugbrautinni og þurfti að bíða eftir bíl til að koma henni í lækningu. Loksins vorum við kölluð út í vél og settumst fegin í fínu Kenya Air vélina sem myndi fljúga með okkur þennan klukkutíma til Nairobi. Enn bíðum við eftir merkjum um að flugvélin fari af stað en allt kemur fyrir ekki. Klukkutíma seinna útskýrir ein flugfreyjan að það sé smá vesen með pappíra fyrir einn flugáhafnarmeðlim en því yrði reddað innan skamms. Magnus og Óskar kippa sér ekkert upp við þetta og sofa pirringinn minn af sér. Eftir eins og hálfs tíma bið fyrir klukktuíma flug tókum við loksins á loft og vorum lent áður en ég gat náð að halla augunum eins og feðgarnir. Ég var því að vonum frekar pirrípú fyrir næsta níu tíma flug til Bangkok og bjóst við all svakalegri nótt. Við tjékkuðum okkur inn við hliðið í Nairobi og fljótlega vorum við kölluð út í vél. Þegar við sýndum passana okkar og flugmiðana kom enn eitt babb í bátinn. Vélin sem skannar miðana pípti og ég hugsaði með mér, hvað nú? “Mr. Oppenheimer we have changed your seats. You have been upgraded”. Ha? Hvað þýðir það? Jú jú, okkur var hent upp í saga class á nýju Dreamliner vélinni sem þýddi bara eitt í mínum huga –sæti sem hægt er að breyta í rúm! Við komum okkur þægilega fyrir í risasætunum, drukkum fordrykkina okkar og reyndum að hundsa illu augnaráð samferðafólks okkar sem eflaust blótaði okkur fyrir að ferðast með tveggja ára gamalt barn á saga class. Níu tíma flugið breyttist í sjö tíma svefn og þrjár indælis máltíðir. Karma?


Bangkok tók á móti okkur með skiltum um ebólu og tilheyrandi læknastússi í kringum það. Við þurftum að fá vottorð á einum stað þar sem við sórum að vera ekki lasin, láta stimpla vottorðið á öðrum stað áður en okkur var hleypt inn. Förinni var heitið á Sheraton hótel við ána þar sem fyrrverandi vinnufélagi Magnusar og konan hans tóku á móti okkur en þau eru á 6 mánaða brúðkaupsferðalagi um heiminn. Bangkok er ótrúlega lifandi og skemmtileg borg og allir voðalega barngóðir. Tuk tuk ferðirnar voru Óskari ofarlega í huga og vildi hann helst ferðast um allt á tuk tuk. Við skoðuðum hofin, borðuðum góðan mat, kíktum á bakpoka geðveikina á Khao San Road, fórum í bátsferðir og borðuðum aðeins meira. Yndisleg borg sem ég mæli með að allir ferðalangar sem fljúga í gegnum Bangkok skoði allavegana í tvær nætur. Það sem mér fannst merkilegast við komuna til Tælands var að sjá hversu þróað Tæland er miðað við Tanzaníu. Hér eru vegir, rennandi vatn og auðveldar samgöngur. Frá Bangkok flugum við svo til Surat Thani þar sem við eyddum tveimur nóttum í Khao Sok þjóðgarðinum. Við gistum við ánna í frumskóginum og vöknuðum á morgnana við apahjörð sem ég get svo svarið fyrir það var að reyna að komast inn til okkar. Óskar hafði fengið góðan fjölnota nestispoka að gjöf um jólin og eitthvað frumskógardýr komst inn til okkar um miðja nótt og borðaði sig í gegnum pokann og át bananann sem var þar tilbúinn fyrir morgunmat daginn eftir. Ekkert við því að gera nema að læra að hafa engan mat nærri í frumskóginum.


Þaðan fórum við svo í “leitina að hinni fullkomnu eyju” en Magnus og Donald eru frægir fyrir að vera kröfuharðir og kalla ekki allt ömmu sína. Fyrsta stoppið var Koh Lanta eyjan, fínn staður en strendurnar þar ekki “nógu hvítar” og sjórinn “ekki nógu grænblár” eins var “allof mikið af svíum þar”.

Þaðan fórum við til Phi Phi bara til að sjá hvort hún kæmist nærri kröfum okkar, fallegur staður en “of mikið af djammandi unglingum með tilheyrandi drasli og sjónmengum” (hefði verið fullkomið fyrir nokkrum hrukkum).

Þaðan fórum við svo til Koh Kradan sem komst ansi nálægt því að vera “fullkomin”, fátt fólk, einstaklega tær sjór og ótrúlegt sjávarlíf. Við gistum í “bungalows” á ströndinni, snorkluðum í tærum sjónum og nutum lífsins með samferðafólki okkar. Á ströndinni hitti Óskar svo Zeno sem er líka tveggja og hálfs árs og urðu þeir vinir á skotstundu sem gerði líf okkar auveldara. Forleldrar Zenno voru líka í “leit að hinni fullkomnu eyju” og eftir dags ferð á Lao Liang eyju var ákveðið að hin fullkomna eyja væri fundin. Því miður héldu Donald og Kataryna áfram leiðar sinnar til Filippseyja og eyddum við síðustu nóttinni í fyrsta skipti “ein” í ferðinni og var ekki frá því að örlítið tómarúm hafði myndast.


Það tómarúm var fljótlega fyllt því Zeno og fjölskylda tóku bát með okkur til Lao Liang eyjunnar en þar eru engin hótel né byggð á svæðinu. Aðeins um 40 tjöld og matur frá eina eldhúsi eyjunnar. Við ætluðum aðeins að gista í tvær nætur en okkur líkaði svo vel að við enduðum á að gista 5 nætur í tjaldinu góða sem innihélt rúmdýnur, rafmagn og viftu. Algjör lúxus miðað við fyrri svefnaðstæður. Maturinn var ýmist grjón, smokkfiskur, kjúklingur, meiri grjón, smokkfiskur og aðeins meiri kjúklingur. Þar sem maturinn var í sterkari kantinum fékk Óskar greyið egg og grjón í flest mál og var hann hinn fegnasti þegar við komum til Ao Nang sex dögum seinna og fengum okkur pizzu.



Ao Nang er lítill strandarstaður tuttugu mínútum frá Krabi með fullt af veitingastöðum og litlum búðum. Eftir eyðieyju-veruna var Ao Nang eins og stórborg og eyddum við tveimur nóttum í “menningunni” og nutum þess að vera með loftkælingu og sjónvarp. Þaðan fórum við svo til Railey þar sem við erum núna en foreldrar vinar okkar eiga hús hérna á ströndinni sem við fengum að eyða tveimur nóttum í. Yndislegt að vera með eigið húsnæði með ísskáp sem þýðir eitt, kaldur bjór fyrir foreldrana og köld kókómjólk fyrir gríslinginn! Sólsetrin hérna eru engu lík og höfum við haft það svo gott. Á morgum förum við svo til Angkor Wat í Kambódíu þar sem við erum búin að panta 4 nætur á lúxushóteli með hótelpunktum mannsefnisins. Held að ég verði bara í heitu baðinu allan tímann…

Afsaka rununa, hef þetta styttra næst.
Hugsa til ykkar heima og þakka lesturinn –knús í hús.

föstudagur, febrúar 20, 2015

Stutt á milli hláturs og gráturs

Að ferðast um heiminn hefur sína kosti og galla. Í dag er einn af þessum galladögum ef svo má kalla. Eftir viku í tjaldi á eyðieyju tókum við bát til Ao Nang sem er stórborg miðað við Lao Liang eyjuna okkar fögru. Eftir nokkra leit fundum við loks hótel sem vildi taka við okkur og hentum töskunum okkar upp á herbergi. Magnus var varla búinn að setja lykilinn í skrána áður en hann var farinn að skoða ipadinn, sjá hverju hann hefði misst af síðustu vikuna án internets. Ég las honum pistilinn og skipaði honum að slappa af með þessa blessðuð internet notkun, en innra með mér fann ég að ég þyrfti að skoða póstinn minn líka. Afi hafði verið í ágætis málum þegar ég fór frá Kradan eyju fyrir viku síðan, en allt gat gerst. Ég hafði eitthvað á tilfinningunni en ákvað að hundsa þær hugsanir og skoða ekki póstinn minn. Töskunum var komið fyrir á sinn stað, allir þurftu að pissa eftir báts og rútuferðirnar og svo var ákveðið að skella sér út á labbið að skoða “borgina”. Svimi svimi svitabað, umferð og allir pirraðir. Inn á næsta pizzastað og drykkir og pizzur á liðið. Magnus tekur símann minn og fer á netið og ég gef honum enn og aftur augað. Eftir að hann sannfærði mig um að við þyrftum nú að láta vita að við værum á lífi kíkti ég á póstinn minn og sá að Erla systir hafði sent mér fallegar myndir af okkur fjölskyldunni og afa. Ég vissi að það væru því miður ekki góðar fréttir. Síðan kíkti ég á facebook, 17 póstar og 35 athugasemdir. Ég sendi mömmu póst um að kíkja kannski á facetime og hálfri mínútu seinna komu fréttirnar, afi hafði dáið á mánudaginn umvafinn fjölskyldu og ást. Á mánudaginn var ég að snorkla á eyðieyjunni minni, grunlaus um það sem var að gerast heima. Augun fylltust af tárum og ég byrjaði að gráta eins og lítið barn þarna innan um allt fólkið á ítalska veitingastaðnum. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hafði grátið á almannafæri (síðan ég varð fullorðin allavegana) og ég var ekki viss hvort ég skammaðist mín meira fyrir að gráta á almannafæri eða það að skammast sín fyrir að gráta á almannafæri. Með kökkinn í hálsinum talaði ég við fólkið mitt heima og fann hlýju fylla tómið sem hafði skapast. Það er eitthvað svo magnað hvað fjölskylda og vinir geta látið mann líða betur. Ég hélt áfram að gráta og fékk samúðarbros frá ítalska pizzugerðarmanninum sem lét mér líka líða betur. Óskar litli hafði aldrei séð mig gráta áður og var duglegur að koma og gefa mömmu sinni knús. Þá opnuðust allar flóðgáttir og glaseygðu augun breyttust í rauðbólgin augu. Það var þá dagurinn að gleyma sólgleraugunum. Labbitúrinn var stuttur þennan daginn og fengum við okkur ís á leiðinni upp á hótel aftur þar sem ég sit í þessum töluðu orðum og reyni að melta þessar fréttir. Ég veit að afa líður mun betur núna og brosir til mín, eða jafnvel hlær af mér fyrir að gleyma sólgleraugunum. Mér heyrist að hann hafi kvatt þennan heim á fallegan hátt umvafinn fólkinu sínu. Þessi magnaða fjölskylda mun standa saman í gegnum þessar erfiðu stundir og ef ég þekki þau rétt þá verður hlegið af hinu og þessu sem gengið hefur á í gegnum tíðina. Það er nefninlega alltaf svo stutt í hláturinn hjá okkur, það er ég mjög þakklát fyrir. Afi var svo magnaður maður, hreinn og beinn eins og nafnið sem hann bar. Áður en ég fór af landi brott kom ég við hjá honum og kvaddi hann með því skilyrði að hann myndi sína mér fallega húsið sitt á Þingeyri í sumar. Hann sagði mér að njóta lífsins sem ég ætla svo sannarlega að gera, en þrátt fyrir að vera stödd á einum af fallegustu stöðum heims finnst mér enginn staður koma nálægt heimahögunum með fólkinu mínu á þessari stundu. Elsku pabbi, Gréta, Palli Jói, Stína, Svanhvít, Sólný og fylgifiskar hugur minn er hjá ykkur núna og ég hlakka til að sjá ykkur öll í sumar –kannski í húsinu góða á Þingeyri. Fyrir ykkur sem voruð að búast við ferðabloggi, það kemur innan skamms en ferðalagið frá Tanzaníu og hingað hefur verið magnað. Allir eru hraustir og heilir og glaðir í hjartanu.

Ég þakka áherynina og lofa minni dramatík næst, ég bara varð að koma þessu frá mér. Enda þetta á myndinni góðu sem Erla sendi mér. Hvíl í friði elsku afi minn.

miðvikudagur, janúar 28, 2015

Af nágrönnum og strandarferðum

Allt í kringum okkur eru Maasai þorp og á daginn heyrum við í krökkunum syngja fyrir geiturnar og lömbin sín. Bjöllurnar í kringum hálsinn á dýrunum hljóma undir sönginn og það er erfitt að skilja hvernig svona ungir krakkar hafa hemil á svona mörgum dýrum. Við Magnús lítum á einn strákinn sem getur ekki verið mikið eldri en Óskar. Þarna stendur hann með Maasai prikið sitt og rekur geiturnar áfram vasklega. Óskar fæst varla til að labba lengra en 50 metra án þess að fá “far” hjá okkur en þarna hleypur barnið upp og niður bratta brekkuna á eftir geitunum án þess að blása úr nös. Eldri strákarnir sýna okkur mikinn áhuga og hlaupa í áttina til okkar. Þeir segja eitthvað á maasai tungumálinu sínu og ég horfi bara á þá og brosi. Svo benda þeir á gleraugun mín og flissa og vilja svo máta þau. Ég leyfi þeim að prófa þau og þeir kafna úr hlátri og þykjast vera ringlaðir. Mér finnst þetta jafn fyndið og þeim og hlæ með þeim. Hver þarf tungumál? Þeir strjúka svo loðnu handleggi Magnúsar og kafna aftur úr hlátri. Ég skil þá vel og kafna úr hlátri líka. Við göngum upp eina brekkuna í átt að öðru þorpi og þar mætir okkur hópur af litlum stelpum sem eru sjúkar í ljóshærða síðhærða víkinginn. Þær strjúka Óskari um hárið og vilja ólmar fá að halda á honum. Hann er ekki alveg á sama máli og lætur þær hafa fyrir því að leika við sig. Eftir nokkurn eltingaleik dettur einni stúlkunni í hug að plata Óskar til sín með því að finna kind uppi í haga og bjóða Óskari að koma á hestbak á kindinni og viti menn, þetta snarvirkaði og Óskar leyfði þeirri stuttu að halda á sér og saman sátu þau á aumingja kindinni með tilheyrandi hlátursköstum hinna barnanna. Ég tók upp símann og festi þetta á “filmu” en þá barst athyglin til mín og ég var beðin að taka myndir af krökkunum sem mér fannst ekki leiðinlegt. Ég tók þessa nýfundnu athygli kannski aðeins of langt þegar mér datt í hug að gera þær feitari með “fatify” appinu mínu. Sumum fannst það fyndið en alls ekki öllum og ég held að ég hafi gert þær dauðhræddar sumar. Ég setti því símann í vasann og sleppti frekari ljósmyndun.

Svona leið vikan, göngutúrar um fallegu hæðirnar hérna í Lengijave en helgin var bókuð í strandarferð. Trausti Pajeroinn hans Elliot var græjaður í tíu tíma ferðalagið til Pangani sem er á norðausturströnd Tanzaníu. Allur tæknibúnaður var vel hlaðinn og nesti pakkað. Ferðalagið gekk furðu vel, enginn bílveikur og það sem heimamanninum fannst best var að við fengum enga sekt á leiðinni. En þannig er það hér að umferðarlögreglan er sýnileg á hverju horni og er þekkt fyrir að stöðva bíla fyrir akkúrat ekki neitt og heimta svo sekt fyrir ótrúlegustu hluti eins og að vera ekki í réttum skóbúnaði við akstur. Lögreglumennirnir eiga víst að safa ákveðnu magni af sektum og skila til yfirmannsins en mega svo eiga restina sjálfir. Það mátti því með sanni segja að það hafi verið kraftaverk að við “mzungo” (hvítingi á swahílí) fengum enga sekt alla leiðina. Okkar beið yndislegt strandhús sem Elliot og Jana konan hans höfðu leigt yfir helgina en þar var beinn aðgangur að ströndinni sem Óskari fannst æðislegt. Þarna svamlaði hann um á bossanum, áhyggjulaus og fjáls. Annars slagið pissaði hann í sandinn, horfði á mig skringilega en hélt svo áfram að leika. Helginni var eytt í það að borða góðan mat, synda í sjónum, spila spil og spjalla við góða vini. Ég hafði mestar áhyggjur af malaríu en þetta svæði er þekkt fyrir þann viðbjóð. Við vorum dugleg að kappklæða okkur á kvöldin með tilheyrandi svita en komum heim með aðeins nokkur bit hver. Nú er að bíða og sjá og vona að fyrirbyggjandi töflurnar virki. Heimleiðin byrjaði svo með því að Óskar fékk svona líka skemmtilega í magann og fékk niðurgang á fínu hvítu flísarnar í húsinu og gubbaði í bílnum. Við höldum að það hafi verið sandátið og saltvatnið sem hafi farið illa í hann en hann er búinn að ná sér og ekkert sem hægt er að kvarta yfir (nema kannski labbi-leti sem er enn að hrjá hann).

Núna erum við komin aftur í Maasai paradísina í Lengijave og í gærkvöldi grilluðum við geitalæri við arineld að hætti Maasai-a sem var virkilega skemmtilegt –ætla að prófa að grilla lambalæri á spýtu yfir arineldi á Íslandi í sumar!


Hef þetta ekki mikið lengra í bili, ok bæ!

þriðjudagur, janúar 13, 2015

Af flugvélum og ljónum

Klukkan hringir. Mér fannst ég ekki hafa sofið neitt. Það er komið að þessu. Flugvöllurinn í Keflavík bíður mín brosandi og vinaleg andlit við innritunina hlýja mér á köldum janúar morgni. Leiðin liggur til Svíþjóðar þar sem ég hitti strákana mína og áfram höldum við þriggja manna fjölskyldan áfram til Amsterdam þar sem enn einn vinalegur flugvöllur bíður okkar en í þetta skipti er flogið til Kilimanjaro. Átta og hálfs tíma flug fyrir einn tveggja ára gutta sem til allra hamingju elskar flugvélar. Með barnaefni og ipad að vopni tekst flugið ágætlega (fyrir utan nokkur skapofsaköst sem vekja athygli samferðafólks okkar). Á móti okkur taka háskólavinir okkar Elliot (innfæddur) og Jamie og Jamal (útlendingar eins og við). Við tekur tveggja tíma keyrsla til Arusha og upp í fjöllin inn á milli Maasai þorpa.

Fyrsta nóttin í Afríku var frekar tíðindalítil og allir þreyttir eftir langt ferðalag. Tímamismunurinn er aðeins 3 tímar þannig að ekki þótti okkur það erfitt að vakna að morgni og gera okkur klár fyrir safarí ferðina. Þrjár nætur, fjórir dagar og margir tímar í safaríbíl með títtnefndu barni.

Leiðin lá í Ngorogoro þjóðgarðinn þar sem við okkur blasti Lion King myndin í allri sinni dýrð. Það er erfitt að lýsa tilfinningunni að keyra um sléttur Afríku með öllum þessum mögnuðu dýrum. Heill dagur í bíl en einhvern veginn fann maður ekkert fyrir því að hafa verið í bíl -en það er ekki á hverjum degi sem maður sér hýönu gæða sér á flóðhesti þrjá metra frá manni.

Frá Ngorogoro fórum við svo til Serengeti þar sem að við gistum í tjöldum með innbyggðum klósettum og sturtum. Eftir langan dag í bílnum leyfðum við Óskari að hlaupa um frjáls til að losa um smá orku. Þá kom einn starfsmaðurinn á svæðinu og bað okkur vinsamlegast ekki um að láta hann einan þar sem að hér byggju ljón og blettatígrar. Við hlupum til hans hið snarasta og vorum ekki í rónni fyrr en hann var kominn í fangið á okkur.

Fyrsta morguninn í tjaldinu vaknaði ég svo fyrir allar aldir við hljóð sem ég hafði aðeins einu sinni heyrt í dýragarði. Jú, passaði. Þetta voru ljón að kalla sín á milli -að leita að hvort öðru. Rétt fyrir utan tjaldið. Við sólarupprás fórum við svo út að finna ljónin og ekki þurftum við að leita langt því við veginn sátu þau þrjú að fá sér að drekka og hvíla sig eftir erfiða nótt (heyrðum líka í einhverju dýri kveðja þennan heim og svöng ljón við matarborðið).

Við tók síðan yndisleg ferð í þessu magnaða landslagi með dassi af Óskara öskrum þegar að hann fékk ekki að öskra á ljónin eða önnur dýr. Þá var gott að eiga ipad til að henda í hann þegar að manni langaði að komast nær blettatígrinum og litlu nýfæddu börnunum hans. Annað kvöldið sátum við til borðs að snæða kvöldverð þegar að kokkurinn stígur út úr eldhúsinu og mætir ljóni, hann stígur varlega aftur inn í eldhúsið og kallaði "Simba" sem er ljón á swahili. Upp með vasaljósin og kveikt á bílunum til að koma þeim frá. Við vorum vinsamlegast beðin um að vera nálægt hvor öðru og alls ekki sleppa litla skæruliðanum. Hljóðin í þeim kallandi á hvort annað voru mjög hávær og dimm. Ekki þótti líklegt að þau myndu ráðast á okkur þar sem að nóg var um dýr fyrir þau en til öryggis fengum við fylgd í tjaldið okkar þar sem við hreyfðum okkur ekki fyrr en við sólarupprás. Þá pökkuðum við saman og kvöddum yndislegu starfsmennina sem bókstaflega hættu lífi sínu svo við myndum nú fá gott að borða. Magnaðasta útilega sem ég hef upplifað! Leiðin heim var svo enn eitt ævintýrið þar sem við sáum fullt af dýrum sem ég hafði aldrei vitað að væru til áður. Toppurinn á heimleiðinni var samt að sjá Sasú fuglinn (en ég kann ekkert heiti á neinum af þessum dýrum og kallaði þau eftir nöfnunum í Lion King, eins og til dæmis Púmba sem var líka mjög gaman að fylgjast með). Læt þetta duga í bili -en planið er að taka því rólega hérna uppi í fjöllunum með Maasai fólkinu næstu daga.
-Lifið heil!