
Svona leið vikan, göngutúrar um fallegu hæðirnar hérna í Lengijave en helgin var bókuð í strandarferð. Trausti Pajeroinn hans Elliot var græjaður í tíu tíma ferðalagið til Pangani sem er á norðausturströnd Tanzaníu. Allur tæknibúnaður var vel hlaðinn og nesti pakkað. Ferðalagið gekk furðu vel, enginn bílveikur og það sem heimamanninum fannst best var að við fengum enga sekt á leiðinni. En þannig er það hér að umferðarlögreglan er sýnileg á hverju horni og er þekkt fyrir að stöðva bíla fyrir akkúrat ekki neitt og heimta svo sekt fyrir ótrúlegustu hluti eins og að vera ekki í réttum skóbúnaði við akstur. Lögreglumennirnir eiga víst að safa ákveðnu magni af sektum og skila til yfirmannsins en mega svo eiga restina sjálfir. Það mátti því með sanni segja að það hafi verið kraftaverk að við “mzungo” (hvítingi á swahílí) fengum enga sekt alla leiðina. Okkar beið yndislegt strandhús sem Elliot og Jana konan hans höfðu leigt yfir helgina en þar var beinn aðgangur að ströndinni sem Óskari fannst æðislegt. Þarna svamlaði hann um á bossanum, áhyggjulaus og fjáls. Annars slagið pissaði hann í sandinn, horfði á mig skringilega en hélt svo áfram að leika. Helginni var eytt í það að borða góðan mat, synda í sjónum, spila spil og spjalla við góða vini. Ég hafði mestar áhyggjur af malaríu en þetta svæði er þekkt fyrir þann viðbjóð. Við vorum dugleg að kappklæða okkur á kvöldin með tilheyrandi svita en komum heim með aðeins nokkur bit hver. Nú er að bíða og sjá og vona að fyrirbyggjandi töflurnar virki. Heimleiðin byrjaði svo með því að Óskar fékk svona líka skemmtilega í magann og fékk niðurgang á fínu hvítu flísarnar í húsinu og gubbaði í bílnum. Við höldum að það hafi verið sandátið og saltvatnið sem hafi farið illa í hann en hann er búinn að ná sér og ekkert sem hægt er að kvarta yfir (nema kannski labbi-leti sem er enn að hrjá hann).
Núna erum við komin aftur í Maasai paradísina í Lengijave og í gærkvöldi grilluðum við geitalæri við arineld að hætti Maasai-a sem var virkilega skemmtilegt –ætla að prófa að grilla lambalæri á spýtu yfir arineldi á Íslandi í sumar!


Hef þetta ekki mikið lengra í bili, ok bæ!