
Kambódía tók vel á móti okkur með brosandi tollvörðum og leigibílstjórum. Klukkan var að ganga tíu að kvöldi til þegar að við komum á Le Meridien hótelið og útgangurinn á okkur kannski ekki alveg í stíl við fínt hótelið. Gestir vorum við engu að síður en þegar að okkur var tjáð að herbergið væri ekki tilbúið út af seinkun hjá flugfreyjunum sem gistu á hótelinu hélt ég að Magnus myndi breytast í rauðu flugvélina sem Óskar saknaði nú sárt. Honum til varnaðar hélt hann sér svo til á mottunni og eftir hálftíma bið í andyrinu fengum við loksins herbergið okkar sem ég vildi helst ekki yfirgefa, slík voru fínheitin. Næstu daga leigðum við okkur svo tuktuk sem keyrði okkur um hofin í Angkor.

Við keyptum okkur þriggja daga passa og byrjuðum á því að skoða elstu hofin og enduðum á Angkor Wat sem er án efa frægasta hofið. Óskari fannst mjög gaman að hlaupa um og leika sér en varð stundum ringlaður þegar hann mátti ekki klifra upp eins hátt og hann gat, en þessi hof voru sum byggð árið 879 og hefði því verið alger synd ef að tveggja ára skæruliði frá Íslandi myndi skemma eitthvað...

Hitinn var um 36 gráður á daginn sem var okkur stundum ofviða en sem betur fer var þessi fína sundlaug á hótelinu sem kældi okkur eftir langan og heitan dag.


Annars slagið kíktum við svo niður í bæ á "Pub Street" og gæddum okkur á bjór sem kostaði hálfan dollar og nutum kambódískrar eldamennsku. Eitt hádegið gekk að mér maður með skilti sem sagði "fórnarlamb jarðsprengju" en hann hafði misst báðar hendurnar í jarðsprengju eins og því miður svo margir hérna í Kambódíu. Hann var að selja bækur og litla hjartað í mér sló hraðar og auðvitað keypti ég bók af manninum eftir að Magnus hafði reynt að prútta niður verðið (ég hélt ég yrði ekki eldri!).

Frá Siem Reap fórum við svo til Sihanoukville sem er við ströndina og höfum haft það mjög gott í aðeins svalara veðri (ekki nema 30-32 gráður). Við erum núna á yndislegu gistiheimili á Otres ströndinni sem heitir Pappa Pippo og er rekið af Ítölum. Það er flottur hippafílingur hérna og síðhærði Óskar og fúlskeggjaði Magnus smellapassa hér inn.

Ég er að velta fyrir mér að henda í mig dreddum eða fylla hendur og fætur af alls kyns armböndum til að passa betur inn. Þar til að sú hugljómun kemur held ég mig við bókina "Children of the Cambodian Killing Fields" sem ég keypti af jarðsprengjufórnarlambinu en þetta eru sögur fólks sem voru börn þegar að kommúistaflokkur Khmer Rouge voru við völd árið 1975 og drápu að er talið 25% þjóðarinnar, upplífgandi ég veit en saga þessa lands finnst mér alveg mögnuð. Eins hræðilegir og þessir svo til nýskeðu atburðir eru þá finnst mér kambódíska fólkið ótrúlega glatt og jákvætt og er mjög hrifin af þessu landi. Á morgun förum við svo á eyju ekki langt frá sem heitir Koh Rong og ætlum að eyða nokkrum dögum þar.
Bestu kveðjur heim í storminn!
Heimsfararnir
Engin ummæli:
Skrifa ummæli