miðvikudagur, október 19, 2011

New York þankar Löfunnar gera út frá Ítalíu að þessu sinni!

Eins og sönnum heimshornaflakkara með atvinnuleysisívafi sæmir þá þýðir ekkert að hanga í New York þegar að sambýlismaðurinn og Inter áhugamanneskjan skellir sér til Ítalíu í vinnuferð. Síðast þegar að ég fann lyklaborðið og skellti nokkrum orðum hérna inn var ég í brúðkaups (ekki hugleiðingum) heldur heimsóknum á vesturströndinni. Eitthvað hlýt ég að hafa gleymt aðgangsorðinu inn á þessa síðu þar sem að ég deildi ekki einu sinni með ykkur eðalheimsókninni sem ég fékk eftir brúðkaupsheimsóknirnar.

Magga, Erla og Bagga komu til mín í húsmæðraorlof þar sem að frúin tók á móti þeim með opnum örmum, kampavíni og frægustu kleinuhringjum Nýju Jórvíkur. Síðan tók hrina veitingahúsaheimsókna, kokteila, verslunarleiðangra, broadwayupplifana, hláturskasta og annara snillingaatriða við og áður en að ég vissi var ég lent á Íslandinu góða. Áður en ég áttaði mig svo á því að ég væri komin á klakann var ég búin að eiga afmæli og sit eftir með 29 ár í súpunni... en súpan er góð engu að síður :)

Þá tók við fótboltaball með tilheyrandi fallslag, fallsigri og fallfrísfagni! Svo mörg voru þau orð og skulum við heita því að á næsta ári skal fótboltaballinu vera breytt í sigurslag, sigri og sigurfagni!

Ítalía tók svo á móti mér með tveggja stiga hitatölum sem ég nýtti mér takmarkað þar sem að það fór eitthvað svo vel um mig á hótelinu góða við Malpensa flugvöll. Stefnan fyrstu helgina var sett á Mónakó þar sem að Magga, Jói og bræður hans voru, en þeir síðarnefndu numu þar land fyrr í sumar og ætla sér að víkingavæða þetta annars velstæða ríki. Maggi setti Íslandsmet í akstri þegar að hann kom okkur á áfangastað á Audi kagganum á tæpum þremur tímum. Eitthvað roðnaði Audíinn okkar við komuna til Mónakó en þar er krökkt af Rolls Royce, Lamboughini og þar fram eftir götunum. Þar sem að Maggi er svo heppinn að vera alltaf að ferðast fær hann svona hótel og flugpunkta í kaupbæti og nýttum við okkur þá og gistum á hinu alræmda Le Meridien þar sem að óstraujaði kjólinn minn skammaði mig pent fyrir að vera ekki betur til höfð.

Þar hittum við fyrir hjónaleysin Möggu og Jóa og Helgason gengið þar sem samverunnar var notið í sandölum og ermalausum bolum. Á laugardagskvöldinu gerði Jóhann nokkur sér lítið fyrir, plataði Möggu í myndatöku fyrir framan Monte Carlo spilavítið og skellt sér á hnén! Margrét var ekki alveg viss hvað á sig stæði veðrið og skammaði Jóa fyrir að vera með svona "mean" brandara en honum var fúlasta alvara og eftir nokkur "neiiii Jói" fékk hann loksins já-ið sitt og munu því vera tvö brúðkaup í vinkonuhópnum á næsta ári!!!

Næsta ævintýri var svo að hitta yndislegu foreldra mína í Feneyjum þar sem að veitingastaðirnir fengu að finna fyrir því með tilheyrandi ævintýrum á milli eyja. Einn fallegasti staður á jarðríki án efa og eyddum við helginni þar með títtnefndum foreldrum, Sigga Fúsa og Sjöfn konu hans. Ekki endaði ævintýrið þar því ég tróð mér með pabba og kó í söluferð til Genoa þar sem að prinsessulífið hélt áfram, gamli bærinn skoðaður, farið í sædýrasafnið og gætt sér á Michelin-stjörnu máltíð þar sem að verðið er ekki einu sinni gefið upp á matseðlinum (sem þýðir vanalega get the f.... out of here).

Nú er ég loksins komin "heim" til Mílanó þar sem að "venjulega" lífið heldur áfram. Klukkan orðin tvö og enginn búinn að færa mér mat. Verð að fara að athuga með þetta. Eins er ekki búið að koma og skipta á rúmunum hjá mér. Það er eitthvað að klikka.

Um helgina er svo planið að eyða tímanum í Mílanó með vini Magga og njóta lífsins, það er jú alltof stutt!

Lafan kveður frá herbergi 1187.