miðvikudagur, ágúst 24, 2011

Klukkan er hálf eitt og ég geng á milli "herbergja" í íbúðinni svona til þess að láta tímann líða þar til að ég átti að mæta í "vinnuna".

Verkefni dagsins er að aðstoða fyrrverandi heimilislaust fólk vinna í ferilskrám sínum og sækja um vinnur. Fyrir algera tilviljun kíki ég á tölvupóstinn minn og sé að ég hef gert þau mistök (sem ég veit að margir hafa gert) að halda að klukkan 13 sé klukkan þrjú... Ég hendi í töskuna því sem ég held að ég þurfi, gúlpa í mig kvöldmati gærdagsins, finn lyklana og neðanjarðarlestarkortið mitt og hleyp út á lestarstöð. Þegar þangað er komið er klukkan korter í eitt og lestin ókomin. Eitthvað hefur hlaupið farið illa í magann eftir hádegismatinn og ég finn svitann, kuldakastið og almennu óþægindin sem fylgja því þegar að maður veit ekki hvort að hlutirnir ætli upp eða niður. Líkaminn ákveður svo loksins að senda þetta upp og ég finn ruslafötu þar sem ég gubba pent litlu matarbitunum sem ég henti í mig nokkrum mínútum áður. Þegar að þannig liggur á manni vill maður ekki vera að bíða eftir lest í neðanjarðarkerfum New York borgar. Þar sést bregða fyrir rottum, illa lyktandi hornum og fólki í alls kyns ástandi. Þar er enga loftræstingu að finna og því er loftið fremur ógeðfellt og líkaminn heldur áfram að svitna og velta fyrir sér hvernig hann geti komið sér úr þessari klípu.

Loksins, eftir fimm mínútur sem virtust heil eilífð, kom F lestin sem tók mig alla leið á vestur 23. götu þar sem hlaupið hélt áfram í leit að húsi númer 115, en þá var klukkan orðin eina mínútu yfir eitt. Það var fyrst þá sem að líkaminn ákvað að geyma þessa magapínu fram að kvöldmat og leyfði mér að halda áfram. Loksins fann ég bygginguna og hentist upp á fimmtu hæð með þessa líku fallegu svitabletti. Þar var vel tekið á móti mér, en mér til mikillar furðu var enginn frá New York Cares mættur. Mér var þá hent í djúpu laugina þar sem ég var eina mætt og stóð ég vaktina og hjálpaði svona tuttugu manns í einu með hitt og þetta tengt tölvum, tölvupóstföngum, atvinnuleit, ferilskrám og meira að segja persónulegri leit að hinni einu réttu (sem var með brjóst á við rassinn á mér). Að sjálfsögðu var lofkælingin biluð akkúrat í þessu herbergi á þessari hæð og því héldu svitanum engin bönd. Verkefnið átti að standa í tvo tíma en ég var til staðar í fimm tíma þar sem að enginn annar frá New York Cares lét sjá sig. Mér var vel þakkað fyrir og þrátt fyrir allt þá held ég að fólk hafi haft not af mér í gegnum allan svitann og stressið.

Á leiðinni tilbaka í neðanjarðarbyrginu bíðandi eftir lestinni varð ég svo vitni af sambandsslitum. Þar var par með svona átta ára gamalt barn. Karlinn fær sms, konan spyr hver þetta er. Karlinn vill ekki svara, verður asnalegur, konan verður brjáluð. Hún rífur símann af karlinum, les skilaboðin og öskarar svo YOU FUCKING CHEATER, I FUCKING HATE YOU, FUCK YOU og þar fram eftir götunum. Á meðan stendur drengurinn á milli þeirra hálf ringlaður þangað til að konan rífur í hann og þau strunsa lengra inn göngin til þess að vera alveg viss um að vera ekki í sama vagni og karlinn. Karlinn stendur eftir algerlega orðlaus og horfir á fjölskyldu sína hverfa inn í fjöldann -og lítur snöggt á mig sem er örugglega með munninn galopinn og tunguna út. Ég þykist fljótt vera að horfa eitthvað annað, en eitthvað segir mér að hann hafi tekið eftir glápinu í mér.

Þegar ég kom svo heim fannst líkamanum tilvalið að halda þessari kveisu áfram og gubba vatninu sem ég náði að drekka í "vinnunni". Svo kíkti ég á í tölvuna og sá tölvupóst frá New York Cares þess efnis að hætt hafi verið við verkefnið á síðustu stundu, vegna "óviðráðanlegra ástæðna". -Alltaf sama heppnin í manni hugsaði ég!

Núna er klukkan hálfníu um kvöld og tælenski maturinn minn ætti að vera á leiðinni. Til allarar hamingju er lystin komin tilbaka og líkaminn tilbúin að bæta um það sem fór fyrir bí í neðanjarðarbyrginu góða.

Á morgun fer ég vonandi á stefnumót með fallegri píu sem er nýflutt hingað og heitir Hildigunnur :)

Lexía dagsins: hættu að glápa eins og eldgömul sápa!

Lafan over and out

þriðjudagur, ágúst 16, 2011

New York er ekki bara Manhattan með stórhýsum, Tímatorginu og gulu leigubílunum. New York er líka Queens, Bronx og Brooklyn, svo einhver hverfi séu nefnd. Það sem mér finnst skemmtilegast við þessa sjálfboðavinnu er að ég fæ að kynnast nýjum hverfum og nýjum verkefnum á hverjum degi. Ég reyni að skrá mig í sem fjölbreyttustu verkefni sem í boði eru og í dag var ég þess heiðurs aðnjótandi að fara til Brooklyn og eyða eftirmiðdeginu með eldri borgunum í gyðingasamkomuhúsi, aðallega innflytjendur frá Austur Evrópu, en sumir þeirra lifðu af helförina.

Verkefnið gekk út á það að elda hádegismat handa 70 manns að gyðingasið (mjólkurvörurnar máttu ekki koma nálægt öðru í eldhúsinu og svo framvegis -ákaflega áhættusamt starf fyrir mig og því sjálfskipaði ég mig í að skera sítrónur í teið, frekar lítil áhætta sem því fylgir, svona trúarlega séð). Boðið var upp á hrásalat, kjúkling og kartöflubrauð, venjulegt brauð, smjör, sultu og te með sítrónu. Þegar að fólkið kom á staðinn tókum við á móti þeim, en þau komu með bílum sem pantaðir voru til þess að sækja þau heiman frá sér. Þar eftir var fólkinu fylgt í sætin og við bárum diskana á borð og þjónuðum eftir þörfum. Sumir voru ákveðnari en aðrir -felst allir vildu bara kjúklingaleggina, ekki kjúklingavængina sem var erfitt þar sem að kjúklingur hefur bara tvo fætur en ekki fjóra eins og við þurftum!. Öðrum fannst teið of sterkt, of veikt, of heitt, of kalt og því þurfti að hlaupa fram og tilbaka með hitt og þetta svo að allir yrðu ánægðir. Á meðan á matnum stóð gengum við á milli borðanna og spjölluðum við þá sem vildu félagsskap. Ég settist hjá einni konu sem var mest áhugasöm um hagi mína, hvað ég væri nú að gera í lífinu, hvað ég væri gömul, spyrjandi mig af hverju ég væri ekki gift, ætti ekki börn og væri ekki í vinnu... -það er víst sama í hvaða heimsálfu maður er, alltaf er maður spurður sömu spurninganna :)

Þegar að matnum lauk tókum við diskana saman, kveikt var á græjunum, tónlistarmaðurinn byrjaði að spila og fólkið sem rétt hafði náð að staulast inn í salinn var mætt í stöðurnar og tilbúið í dans. Sumar konur voru á hælum með varalit og í fallegum, passlega síðum pilsum (en við höfðum fengið tölvupóst um það hvernig við ættum að klæða okkur, hnésíð pils eða buxur, mátti ekki sjást í brjóstaskoru og hendurnar máttu sjást upp að olnboga).

Fyrsti dansinn sem stiginn var hljómaði svona en ég hafði rétt fyrir fengið hraðkennslu í sporunum og dansaði villt og galið með þessu ágætisfólki. Síðan tók við hald-dans með rússnesku ívafi við harmónikkuleik og söng, en þá passaði ég mig að draga mig í hlé og fylgjast með -eins og góðum mannfræðingi sæmir. Síðan skiptist dansinn upp í fyrsta-dansinn, hald dans með rússnesku ívafi, hald-dans a la rúmba, en þegar að one-o'clock, two-o'clock, three-o'clock rock kom á þá troðfylltist dansgólfið og allir tvistuðu af sér rassinn, þar á meðal ég.

Síðan tók meðvitunarkerfið aftur við sér og ég dró mig í hlé. Þá kom annað lag sem ég kannaðist við, en það var the electric slide sem er þekkt línudanslag sem spilað er villt og galið í amerískum brúðkaupum og allir kunna. Hér var engin undantekning og allir sem gátu staðið stóðu upp og tóku þátt í rafmagns-rennslinu. Síðan kom hands up, put your hands up, give me your love give me give me your love... lagið sem allir sungu hástöfum með. Deginum var svo slúttað með God bless America og lag Ísraels þar sem allir stóðu upp og sungu, voðalega hátíðlegt og fallegt eitthvað.

Að lokum fylgdum við þeim út í bílana sem keyrðu þau heim og fengum kossa og knús frá yndislegu fólki sem hafði svo gaman af þessu öllu saman, en þau höfðu örugglega ekki janf gaman af þessu og ég því ég brosi enn í hringi og sing Hava, nagila hava, hava, nagila hava ;)

Á morgun mun ég svo aðstoða heimilislausa menn að finna vinnu á Tímatorginu og á fimmtudag fer ég í leikhúsleiki með 8 ára börnum.

Verð að óska Grindavík til hamingju með sigurinn svona í lokin -lifið heil, lífið er stutt!

laugardagur, ágúst 13, 2011

I'm still I'm still Óöf from the block

Þá er enn einn laugardagurinn genginn í garð hérna á Grandargötu 327 í Nýju Jórvík. Gestirnir voru rétt í þessum töluðu orðum að drösla farangrinum niður allar fimm hæðirnar og hóa sér leigubíl úti á götuhorni. Núna bíð ég spennt frétta hvernig salíbunuferðin upp á flugvöll hafi gengið, en leigubílstjórar í New York eru þekktir fyrir allt annað en að taka því rólega í umferðinni.

Milli þess að versla, skella mér í bíó og á söfn með gestunum hef ég verið að sjálfboðaliðast. Fyrra verkefnið sem ég tók að mér var að aðstoða heimilislausa karlmenn í Harlem við að gera ferilskrár, finna vinnur og sækja um þær. Ég var vel undirbúin fyrir ferðalagið frá Neðra Eystra svæðinu alla leið upp í Harlem og tók mér góðan tíma. Það tók mig tvær lestir og tíu mínútna gang að koma mér á leiðarenda. Að koma í El Barrio var eins og að koma heim til Quito, það var spænskan töluð á hverju götuhorni og fullt af karlmönnum hangandi fyrir framan byggingar bíðandi eftir einhverju sem aldrei kemur. Fékk meira að segja nokkrum sinnum sömu tilfinningu og þegar ég áttaði mig á því að verið væri að ræna okkur Ingibjörgu í denn þar sem að menn ganga hratt að þér sitt hvorum megin við götuna, en til allrar hamingju voru þeir bara að heilsast. Lögreglan var líka sýnileg á hverju götuhorni sem kveikti nokkara viðvörunarbjöllur hjá mér um leið og það vakti með mér öryggistilfinningu.

Ég fann staðinn nokkuð auðveldlega og hringdi bjöllunni fyrir utan heimilið. Þar svaraði elskuleg kona og hleytpi mér inn. Þegar ég var komin inn gekk ég framhjá fullu herbergi af körlum á öllum aldri að spila billjard, spil, að lesa eða að horfa á sjónvarpið. Húsið er svo kallað half-way-house þar sem að menn koma og fá aðstoð við að koma sér af götunni. Þar má ekki neyta vímuefna og mennirnir verða að leggja sitt fram við að fá sér vinnu og þar fram eftir götunum. Við vorum þrjár stelpur mættar og okkar hlutverk var að byrja á því að búa til tölvupóstfang fyrir mennina, skrá þá inn og hefjast handa við gerð ferilskráar. Mennirnir kunnu fæstir á tölvu og því sátum við fyrir framan skjáinn og pikkuðum upplýsingarnar inn fyrir þá. Margir þeirra höfðu ekki lokið grunnskólaprófi og höfu verið á götunni meira og minna allt sitt líf. Þeir gátu ekki gefið upp símanúmer því að þeir áttu engan síma og ekkert heimilisfang. Við skrifin á ferilskránum og við það að sækja um vinnur komu ýmsar upplýsingar um mennina í ljós, eins og að flestir þeirra höfðu setið í fangelsi oftar en einu sinni en frekari upplýsingar um fyrir hvað vildi ég ekki vita og með minni mögnuðu samskiptahæfni náði ég í öllum tilfellunum að tala í kringum það.

Það stakk mig mest hversu beygðir mennirnir voru, hversu lítið álit þeir höfðu á sjálfum sér og hversu margar brýr þeir höfðu brunnið að baki sér. Það sem gladdi mig hins vegar mest var hversu stutt var í húmorinn hjá þeim og hversu þakklátir þeir voru okkur. Þetta verkefni opnaði augu mín fyrir hluta Nýju Jórvíkur sem ekki er seldur í ferðamannabæklingum. Í húsinu bjuggu 98 karlar, og er það einungis brotabrot af þeim sem þurfa aðstoð í öllu fylkinu, og öllu landinu ef því er að skipta.

Hitt verkefnið sem ég tók að mér var að pakka skólavörum fyrir fátæk skólabörn. Við vorum örugglega 50 sjálfboðaliðar sem pökkuðum 6000 bakpokum fulla af skólavörum og bókum fyrir börn sem ekki eiga pening fyrir slíkum kaupum. Það er nú lítið að segja um slík verkefni -en ég var stjarnan í hópnum. Alltof snögg í snúningum fyrir heimavinnandi húsmæðurnar sem kvörtuðu sáran yfir því að bakpokastöðvarnar þeirra væru að fyllast... Enn og aftur kemur reynslan í blóðhreinsuninni í Vísi sér að góðum notum...

Næstu verkefni eru í Brooklyn þar sem að ég mun eyða eftirmiðdeginum á elliheimili fyrir fólk sem lifði af helförina og svo að aðstoða arabískar konur tala ensku fyirr borgararéttinda prófið þeirra. Núna er hins vegar komið að því að hitta næstu gesti, en Kristján frændi og snillingur með meiru er staddur í borginni með sitt hafurtask og er ætlunin að fá sér hádegismat með eðalfólknu og svo kannski elta þau í búðir (ef ég þori....)

Eigið góða helgi
-Lafan

þriðjudagur, ágúst 09, 2011


Héðan úr hitarigninunni í Nýju York er allt besta að frétta. Atvinnulausi sjálfboðaliðinn og vinnandi húsmóðirin fékk kærkomna gesti í hús á föstudaginn þegar að Lovísa og Hilmar komu alla leið frá Íslandi í mekkaferð í borgina frægu. Við skötuhjúin bjuggum um þau á ofurvindsænginni sem hýst hefur frægt fólk eins og Margréti Kristínu, Margréti Alberts, Margréti Ingþórs, Ingu Dís, Kristínu Karls og Dísu Edwards. Ekki gat húsfreyjan hugsað um gesti sína á laugardeginum sökum anna, en þá hófst sjálfboðaævintýrið mitt fyrir alvöru.

Eins og stressaðri manneskju sæmir mætti ég korteri á undan settan tíma í verkefnið mitt sem staðsett var á gömlu hóteli á Times Square sem breytt hafði verið í aðkomuhús fyrir eldri borgara sem ekki áttu heimili eða pening fyrir mat. Mitt fyrsta verkefni var að staðfesta komu mína og velja mér verkefni (það er kosturinn við að mæta of snemma í hluti!). Ég valdi að hreinsa epli, pakka þeim fallega inn í poka og svo að setja mat á diskinn sem kokkurinn í húsinu hafði matreitt. Mér til mikillar skemmtunar var nánast allt starfsfólkið á þessum stað spænskumælandi og hlustaði á salsa í botni á meðan að maturinn var eldaður. Verkefnið tók fjóra tíma og í þrjá klukkutíma stóð ég yfir sjóðandi heitum kjúklingi og svínsrifjum, hrísgrjónum og niðursoðnu grænmeti. Eins og gefur að skilja þá er þetta hjálparstarf og ekki peningar til fyrir loftkælingu. Yfir 30 stiga hiti úti, raki og ég standandi yfir sjóandi heitum mat að metta 250 manns er ekki sérlega falleg sjón þar sem að svitinn fór yfir öll velsæmismörk. Ég náði að redda mér með því að þurrka mér pent annað slagið með pappírsþurrkum, en gúmmíhanskarnir, hárnetið og plastsvuntan voru ekki að vinna með mér í þessari baráttu.

Þegar um hálftími var eftir af verkefninu kom hins vegar babb í bátinn. Eitthvað hafði kokkurinn gleymt sér í heitri salsa tónlistinni því að maturinn kláraðist! Enn áttu 16 manns eftir að fá mat á sinn disk en þá voru góð ráð dýr. Starfsfólkið fór því að öskra hver á annan, enginn vildi taka ábyrgð á klúðrinu og eftir sátu 16 svangir, þreyttir og fátækir eldri borgarar með spurningamerki framan í sér, því jú allt fór þetta fram á spænsku. Í stað þess að grípa eitthvað til og redda aumingja fólkinu var haldið áfram að rífast, kokkurinn stormaði út, konan sem var með mér í að setja á diskinn fór á eftir honum og ég horfði framan í fólkið sem var tilbúið að slást fyrir síðustu matarbitana í húsinu. Loksins eftir miklar rökræður sem smituðust yfir til fólksins sem var orðið mjög svangt, kom yfirmaður hótelsins, skipaði okkur að taka mat úr frystinum og þannig redduðum við þessu fólki, með frosnum ávaxtasafa, frosnu brauði og hnetusmjöri. Þegar að búið var að ganga frá eftir matinn, gekk ég út á Times Square, settist á borð í mannþrönginni og velti fyrir mér hversu misjanft fólk hefur það. Þarna voru milljónir manna hlaupandi á milli búða að kaupandi hvern hlutinn á fætur öðrum, á meðan að sumt fólk slæst um matarbitana...

Það tók mig daginn að jafna mig og á sunnudeginum ákváðum við að lyfta okkur upp og kíkja á Coney Island þar sem að má finna gamaldags tívólí og Rússa. Við Magnús vorum dugleg að draga Lóu og Hilmar með okkur í tækin, þar á meðal þetta hérna sem ég held að Hilmar greyið eigi aldrei eftir að fyrirgefa okkur fyrir...

í gær var svo skellt sér í sund í Central Park og notið blíðskaparveðursins sem geysar hefur á eyjunni góðu undanfarna daga. Í dag kemur svo Cable Guy í öllu sínu veldi og ætlar að stilla sjónvarpið sem nýverið var fjárfest í og gefa okkur fullt fullt af amerískum eðal stöðvum. Hilmar á einnig afmæli í dag og hefur kappinn ákveðið að hann vilji fara á Hard Rock á Times Square til þess að fagna þessum tímamótum, en það er mikið stökk að vera allt í einu orðinn 12 ára ;)

Næsta sjálfboðaverkefni er skráð á fimmtudaginn þar sem að ég mun aðstoða heimilislausa menn í Harlem með atvinnuviðtalstækni og hvernig best sé að klæða sig fyrir slík viðtöl (ég gæti kannski lært eitthvað í leiðinni!)

Með von um að þið hafið það sem allra best út um allan heim
-Lafan

fimmtudagur, ágúst 04, 2011

Góðan daginn gott fólk.

Bloggið er risið upp frá dauðum. Bloggið skal ekki lúta í lægra haldi fyrir tískubólum eins og Twitter og Fésbókarfærlsum. Bloggið skal lifa. Bloggið skal fá notið sinnar fornu frægðar. Í dag hefst nýr bloggkafli, í dag verður New York fyrir barðinu á þöknum Löfunnar.

Eins og alþjóð veit þá er ég atvinnulaus meistari með þrjú tungumál í fartestkinu, lífsreynslu og líkama á við fimmtuga konu en á samt bara einn kærasta og eina heimilisflugu. Við höfum hafið búskap hér á Grandargötu á neðra eystra svæði New York borgar og unum okkur vel í ofurkostnaðarsamri 35-40 fm íbúð þar sem að stofan, svefnherbergið og eldhúsið bindast einu og sama rýminu. Í íbúðinni eru að finna tvær svalarhurðir, einn ískáp, eina eldavél, eldúsinnréttingu sem húsfreyjan notar sem fataskáp (enda fyrirmyndin Carrie úr Beðmálum í Borginni), einn sófa, tvo barstóla (en barborð er hvergi að finna). Í dag var svo fjárfest í sjónvarpi og dvd spilara sem að húsbóndinn fann á lista sem kenndur er við Craig, en þann lista er að finna á internetinu og má finna allt frá spúsu til notaðra hárbursta á eina og sama staðnum.

Sökum atvinnuleysis og almennrar leti hef ég ákveðið að blogga lífið af stað. Í gær tók ég forskot á sæluna og sótti námskeið í því hvernig maður á að vera sjálfboðaliði hér í borg. Námskeiðið stóðst ég með stæl og hef strax tekið að mér feiknaverkefni, að elda mat ofan í heimilislausa á laugardagsmorgun. Sumarið í Vísi kemur hér að góðum notum, en það eldaði ég morgunmat ofan í 50 manns (og þegar að ég segi elda þá meina ég hrindgi í bakaríið og pantaði brauð). Næsta verkefni er að sækja annað námskeið í því hvernig maður getur aðstoðað bandarísk ungmenni við lærdóm fyrir SAT prófin (sem eru eins konar samræmd próf). Þar á eftir skráði ég mig í lista-verkefni með blindum og sjóndöprum börnum.

Húsfreyjan er spennt fyrir komandi tímum með blogginu sínu og ykkur sem viljið fylgjast með ævintýrinu á Manhattan eyju.

Smelli inn línu þegar að ég hef klárað fyrsta sjálfboðaverkefnið mitt, þangað til næst,
Lafan.