þriðjudagur, ágúst 21, 2012

Fer hægt.. sér margt

Einhver sagði eitt sinn að lífið væri ekki endastöðin heldur ferðalagið að henni. Ferðalag okkar frá kílómetra eitt til kílómetra tíu var sársaukafullt, skrýtið, spennandi og gefandi, allt í bland.

Kvöldið fyrir hlaupið góða mætti undirrituð upp í Laugardalshöll ásamt hinum hlaupurunum og sótti númerið sitt. Fréttamenn á staðnum og Lafan upptekin að því að koma sér í mynd. "Verst að barnið þurfi ekki að drekka akkúrat núna, þá yrði pottþétt tekið viðtal við mig. Sé fyrisögnina í anda, mætt í hlaup níu vikum eftir barnsburð..." En allt kom fyrir ekki, barnið vaknaði ekki og ekkert annað sem ég gerði vakti undrun eða aðdáun fréttamannanna á staðnum. "Jæja þá læt ég að mér kveða í hlaupinu" hugsa ég og dröslast framhjá fréttamönnunum.

Næst á dagskrá, næring. Hlauparar tala oft um að byrgja sig upp af ítalska eðalmatnum pasta daginn fyrir hlaup og fylgdi ég þeirri mýtu eftir með því að elda stútfullt eldfast mót af eðalpasta úr Krambúðinni. Getur ekki klikkað.

Svo er það svefninn. "Verð að fara snemma að sofa" hugsaði ég, kom barninu í ró og lagðist upp í fyrr en ella. Fékk nokkur sms á miðnætti frá djammþyrstum vinum, þótti vænt um það að vera ennþá meðlimur í "viltu-koma-á-djammið" hópnum en lagðist svo aftur á koddann. Óskar ákvað að vera þyrstur þetta kvöld, kannski í kaloríusjokki eftir pastasprengjuna, og vaknaði á tveggja tíma fresti. Klukkan fimm ákvað hann að detta í stuð og hló stanslaust frá 5-7. Náði að gleyma mér frá 7-8 en þá hringdi klukkan. Game day.

Bolirnir klárir. Skórnir reimaðir. Stelpurnar mættar. Hlömmum okkur aftast í mannmergðina og bíðum eftir skotinu góða. Af stað. Rauðu bolirnir á undan okkur eru eins og maurar og fólkið á hliðarlínunni virkar eins og eldsneyti. Þvílík stemning. Sælutilfinning líður um æðar og er það ekkert sem ég get ekki gert. Ég kíki á iphoninn en mér til undrunar er rétt rúmur kílómeter liðinn. Vá þetta var langur kílómeter. Næstu þrír kílómetrar eru teknir á adrenalíninu einu saman en á fimmta kílómetra tekur mjöðmin við völdum og hægir allverulega á liðinu. Ég sé stelpurnar í fjarska, þyrstar í að taka fram úr konunni með barnið á bakinu og konunni sem er jafnþung og við allar til samans. Maður á sandölum og skinnpilsi tekur fram úr okkur og ég sé angistarsvipinn á stelpunum.

Svona gekk þetta næstu kílómetra á eftir, en enn og aftur er það fólkið á hliðarlínunni sem spýtir í lófann á mér og hvetur mig áfram. Stelpurnar eru farnar að hingsóla í kringum mig, standa á höndum og gera magaæfingar á meðan ég drattast þetta áfram en endastöðin nálgast og markmiðið að komast í fréttirnar með því að haldast í hendur yfir marklínuna einnig. Ljósmyndarar voru hrifnir af okkur og í hvert sinn sem við sáum slíka var ég-er-að-drepast svipnum breytt í i'm-sexy-and-i-know-it svip.



Þarna er það. Endastöðin. Tíu kílómetrar að baki, fólkið á hliðarlínunni hvetur okkur áfram, við leiðumst hönd í hönd yfir marklínuna við mikinn fögnuð áhorfenda. Þvílík tilfinning. Þvílík sæla.

Við marklínuna biðu okkar fjölskylda og vinir og var enginn fegnari að sjá mig en Óskar Fulvio sem var orðinn ansi þyrstur eftir pastað. Eftir smá teygjur var svo haldið á Þórsgötuna í morgunmat og svo niður í bæ í smá bjór og sólbað.

Í sæluvímunni var ákveðið að hlaupa næsta hlaup. Vestmannaeyjahlaupið og ætla stelpurnar að setja markið á hálfmaraþonið þar. Ég hef ákveðið að taka 5km (enda óendanlega mikið af brekkum þar í bæ...)

Hlaupaferðalaginu er ekki lokið né bloggferðalaginu. Þakka áheyrnina.

P.s. okkur tókst að komast í fréttirnar!

föstudagur, ágúst 17, 2012

Að duga eða drepast...

Minna en sólahringur í hlaupið og þið eruð eflaust að velta því fyrir ykkur hvort ég hafi ekki tekið "æfingu fyrir leik"?

Ég stillti upp mínu sterkasta liði og ákvað taktík fyrir leikdag. Skórnir með bleiku reimunum, hlaupabuxurnar, tónlistin, allt var sett upp eins og á leikdegi. Stefan var sett á 7km því það gefur augaleið að ef ég kemst 7 þá get ég tekið síðustu 3 á þrjóskunni. Þornjörninn nálgast í allri sinni dýrð og ég er þess viss um að þetta geti bara ekki klikkað. Þvílíkur þjálfari sem ég er. Ætti að fara að taka þetta að mér. Hlaup eftir barnsburð? Gefins.

Ég mátti vita það sigurvissa boði aldrei gott. 2km og fæturnir þyngjast. 3km og andardráttur á við stórreykingarmann vel yfir kjörþyngd. Er iphoninn að bila eða missa samband við gervihnöttinn út í heimi... ætlar teljarinn aldrei að ná 4km? Svona gekk þetta þar til að ég náði 5km, þá...þá...þá... HÆTTI ÉG! Gat hreinlega ekki meira og labbaði inn í bæinn skömmustuleg. Hræðilegt að búa í svona litlu samfélagi, það sáu mig allir!

Eftir slíka hörmungaræfingu fyrir leik hef ég algerlega skipt um taktík. Hlaupið verður á gönguhraða, plata kannski einhver til þess að hitta mig á miðri leið með reiðhjól þar sem ég get hjólað kílómetrana sem á ég eftir í stelpurnar. Hoppa svo af hjólinu þegar að 1.5km eru eftir og tek endasprett fram úr öllum hlaupurunum sem komust 7km í æfingahlaupinu sínu.

Hvernig sem þetta fer er ég að þessu út af samviskubiti (Magga borgaði skráningargjaldið og harðneitar að fá endurgreitt) og einnig fyrir góðan málstað, en við hlaupum fyrir Líf og allar mæður og börn í heiminum (þetta verður hluti af peppræðunni minni fyrir "leik" á morgun).

Bjórar og bland í poka eru velkomnir á endalínuna og ef einhver nennir að hjóla með slíkan varning á veiðistöng fyrir framan mig allan tímann þá væri það vel þegið.

Hlakka til að sjá ykkur á Menningarnótt, áfram við!

mánudagur, ágúst 13, 2012

Andlega hliðin

Nei ég er ekki hætt við. Hef bara verið löt að blogga (og þar af leiðandi hlaupa). Þar sem að mjaðmirnar öskra af vaxtaverkjum líkt og þær gerðu þegar að ég tók stökkið úr 167cm í 168cm (en opinberar tölur segja 169) hef ég einungis hlaupið einu sinni síðan að ég hlammaði mér í bloggstólinn síðast. Það hlaup átti sér stað á fimmtudaginn síðasta þar sem að 6 kílómetrar lágu í valnum. Tíminn skal ekki gefinn upp, vil ekki fæla samhlauparana frá mér svona stuttu í mót. Lifði þetta af, en ekki mikið meira en það.

Í öllum íþróttum er mikilvægt að huga að andlegu hliðinni og hef ég einbeitt mér að henni síðustu dagana. Kannanir sýna að þeir sem horfa mikið á fótbolta eru betri í fótbolta en þeir sem gera það ekki. Ég fylgdist því grannt með maraþon keppni karla, andaði að mér visku lýsandans og ímyndaði mér hvernig ég myndi hlaupa. Er að spá í að nota sama hlaupastíl og þessi sem varð í 2.sæti, þessi sem hljóp alltaf heim úr skólanum með bækurnar í hendi, get ímyndað mér að bjórinn sé í hægri hendinni og það má ekki hellast úr honum. Ég ætla líka að passa mig að vera alltaf að stoppa og fá mér vatn og kannski gefa fólkinu high five á leiðinni. Já verð að sýna Ólympíuandann. Eins hef ég heyrt að pasta-át sé gott fyrir svona mót og hefur það verið stundað ákaft. Þarf að sauma hlaupabuxurnar þar sem að saumurinn fór í hlaupinu um daginn. Skil ekkert í því. Ætla að fara í fótabað í hlaupaskónum svo ég fái ekki hælsæri, það gekk alltaf í boltanum í gamla daga. Verð að muna að laga playlistann, það er ekkert eins skemmandi fyrir andlegu hlið hlaupsins en léleg lög, fer hreinlega í fýlu ef að rangt lag kemur upp á fóninn. Ég man hvernig það fór fyrir mér síðast þegar að lag fór í taugarnar á mér á meðan að ég hljóp...

Á meðan að ég hlúi að andlegu hliðinni klára ég leifar sælgætiskaupa helgarinnar, en markmiðið er nammilaus vika og eitt hlaup í viðbót áður en 10km eru farnir.

Hef stofnar styrktarsíðu en er bara komin með 0kr. Hef trú á að ég nái þúsund króna markinu áður en hlaupið hefst.

Ætla að fara að horfa á Rocky, The Miracle og Mighty Ducks. Þær geta ekki klikkað.

föstudagur, ágúst 03, 2012

Íþróttameiðsl

Tilraun 3 í leiðinni að tíu kílómetrunum. Skórnir eru reimaðir á, túnfisksalatið komið nógu langt niður meltingaveginn, sólin skín í heiði og ekkert því til fyrirstöðu að hefja hlaupið. Markmiðið er þrír kílómetrar.

Konan í i-símanum minnir mig reglulega á hvað ég er komin langt og á hvaða hraða ég hleyp. Það eina sem pirrar mig eru gleraugun sem renna reglulega niður smettið á mér og æ oftar eftir því sem ég svitna meira. Heyrnatólin virðast líka ætla að falla í pirringsflokkinn með gleraugunum. Er vinstra eyrað á mér stærra en það hægri? Af hverju haldast þau aldrei vinstra megin? Bubbi er á fóninum með eitthvað væl að vestan. Ennþá meiri pirringur. Konan segir mér að nú hafi ég hlaupið einn kílómeter sem er 0,75 meira en markmiðið sem ég setti í upphafi. Ansk... verð að fara að læra á þetta hlaupaprógram.

Núna renna glaraugun niður, heyrnatólið dettur úr stóra eyranu vinstra megin, Bubbi er að gera mig geðveika og konan í i-símanum hættir ekki að röfla. Ég ætla mér að laga allann pirringinn í einum hendingi. Treð heyrnatólinu í eyrað, laga gleraugun, slekk á konunni og skipti um lag allt á sama tímanum. Það vildi ekki betur til en að hægri ökklinn tók í taumana, beyglaði sig aðeins og henti mér á grjóthart malbikið.


Buguð en ekki sigruð held ég þó áfram hlaupinu og klára 4,5 kílómetra svo til í heilu lagi að undanskildum nokkrum skrámum á líkama og heldur dýpri sárum á stolti.

Frí í dag, enda mjaðmirnar á mér eins og á gamalli konu og sviði í skrámunum. Vá. Langt síðan að ég hef verið með svona íþróttameiðsl. Þetta er gaman!