föstudagur, janúar 18, 2013

Göngutúr

Hef ekki ryksugað í marga daga. Tek upp ryksuguna og læt vaða. Finn dauðan kakkalakka fyrir neðan gluggann, hann lítur út fyrir að hafa orðið fyrir eldingu. Furðulegt.

Ég fer því næst út að labba. Geng 14. götu og sé mann kýla annann mann aftan í hnakkann. Maðurinn fellur á jörðina og fær blóðnasir. Ég geng framhjá en sé að fólk er búið að hringja á sjúkrabíl. Maðurinn lætur öllum illum látum, vill ekki fara upp í sjúkrabílinn en honum er haldið niðri.

Ég held göngu minni áfram og sé hóp frá Universal Studios á Toyotabifreið sem búið er að breyta í ísjaka vera að taka upp eitthvað sem virðist vera auglýsing. Held örlítið áfram og sé fjóra slökkviliðsbíla vera fyrir utan eina bygginguna. Engann eld að sjá svo ég rölti áfram.

Heimilislaus maður biður mig um pening sem ég á en er ekki með á mér og verður til þess að hann bölvar mér í sand og ösku og spyr mig hvað skórnir mínir hafi kostað. Ég fæ samviskubit og íhuga að fara í hraðbanka en man þá hryllingssögur frá Ekvador um rán og hraðbanka. Ég bít á jaxlinn, tek móðgunum hans og held áfram.

Ég er komin á Union Square og þar blasir við mér trúboði með gyllta plastkórónu. Hann varar fólk við þeim ólifnaði að vera ekki frelsaður og hvað bíður þeirra sem ekki ganga að eiga Guð sinn á þann hátt sem hann predikar. Gömlu mennirnir sem spila skák á torginu láta sér fátt um finnast og halda leik sínum áfram. Eldri maður hefur tekið upp á því að spreyja fötin sín og skóna sína gyllta og stendur líkt og stytta. Ég fæ frábæra hugmynd af hrekkjavökubúning og rölti mína leið.

Ég geng niður Broadway og horfi á fólkið eins og maura, allir að flýta sér. Áttavilltir túristar horfa til skiptis á kortin sín og umhverfið en eru engu nær. Ungt par mér við hlið er að rífast. Ég velti fyrir mér hvort það væri ekki hressandi að rífast úti á miðri götu. Ég vildi að ég gæti það. Parið heldur áfram að rífast og kreistist svo fram úr mér. Ég velti fyrir mér hvort þau muni hætta saman. Ég ákveð að koma mér úr geðveikinni og kem mér yfir á sjöundu götu og áleiðis heim.

Geng framhjá Sushi Samba og ímynda mér Carrie Bradshaw að panta sér velvalið sushi. Sé fallegar fatabúðir á milli klámbúðanna á Christopher götu.

Kem heim og skipti á barninu sem er löngu búið að kúka og velti fyrir mér öllum lífsins litum og lögum. Vonandi er maðurinn með höfuðáverkana búinn að ná sér og trúboðinn búinn að finna allavegana tvo áhangendur.