fimmtudagur, mars 21, 2013

Spinnegal

Það er á svona dögum sem ég óska þess að hettan á peysunni minni hafi innbyggða myndavél, í dag og þegar að ég og Sienna Miller vorum að róla með börnin okkar. En eftir andvökunótt ákvað ég að skella mér í spinning. Gat ekkert sofið og taco veisla kvöldsins á undan gaf mér það spark í rassinn sem ég þurfti. Ég mætti mátulega snemma, enda mikil eftirsókn í fitubrennslutíma vorsins. Ég gíraði mig upp á leiðinni yfir götuna með Girl on fire með Aliciu Keys og leigubílstjórinn sem keyrði næstum á mig sá það utan á mér að ég var á leiðinni í spinning.

Ég gekk inn í salinn, valdi mér hjól aftast þar sem að kennarinn myndi örugglega ekki sjá mig svindla. Við mér blasti einkar sérkennileg sjón. Á hjólinu ská á móti mér var eldri kona um sextugt í snípstuttum hjólabuxum, með svitaband og hettueysu. Ég sem hélt að ég væri tilbúin í spinning. Ég var hrár kjúklingur miðað við hana. Kennarinn var hvergi sjáanlegur en hún var farin að hita upp með þvílíkum tilþrifum. Mig langaði mikið til að komast að því hvaða lög hún var að hlusta á því hún hagaði sér eins og rokkstjarna á sviði, beið bara eftir því að hún tæki dýfuna yfir hin hjólin. Annars slagið stoppaði hún, teygði á og rak aðra hendina upp í loftið eins og hún væri að hlusta á uppáhalds hljómsveitina sína á sviði. Loksins kom kennarinn inn og tíminn hófst. Sú gamla bætti um betur, fór úr hettupeysunni og var bara á íþróttatopp svo að öll tattúin hennar sáust. Síðan hófst partýið að nýju og hún gólaði og gargaði vúhú yeaahhhhhh come on allan tímann.

Ég var ekki viss hvort ég ætti að skalla hana eða gefa henni high five. Ég ákvað því að taka milliveginn og hunsa þessa hegðun, enda klukkan ekki orðin sjö! Þegar kom að teygjum og rólegheitum skellti sú gamla ipodnum í eyrun, skutlaðist fram og fór að lyfta. Ég gat ekki annað en dáðst að henni hágráhærðri með tattú yfir sig alla í snípstuttum hjólabuxum og topp með grifflurnar að vopni, hamrandi járnin eins og enginn væri morgundagurinn. Ég leit í spegil. Ég var í síðbuxum, síðum innanundir bol svo að það sæist örugglega ekki í rassinn á mér, hettupeysu rennda upp að hálsi svo að bringan yrði ekki til ama, hárið í tagl og bauga niður á kinnar.

Kannski ég skelli í nokkur tattú, attitude og ný ræktarföt. Ég elska þegar að maður fær hvatningu úr ólíklegustu áttum!