föstudagur, desember 07, 2012

Barnavagn og útigöngumaður

Það er kalt úti og ég er orðin sein í mömmujóga tíma sem ég er búin að bíða eftir lengi. Barnið er óvært og nennir þessu flakki engan veginn en samt er það tilbreyting frá 25 fermetrunum sem það hangir vanalega í. Ég sveiflast áfram götuna, þræði leiðirnar sem síminn minn benti mér á að fara en man ómögulega hvaða leiðir það voru.

Þegar á staðinn er loksins komið blasir við mér þröngt andyri, fullt af samanbrjótanlegum kerrum, stigi upp og ógerlegt að segja til um það hvort að það sé yfir höfuð pláss fyrir mig í tímanum, en andyrið þoldi ekki aðra kerru og ekki var ég að fara að skilja eftir vagninn fyrir utan. Ég gerði því eins og allir hefðu að sjálfsögðu gert, kíkti höfðinu aðeins inn í dyragættina og gekk svo minn veg, alveg jógalaus með grenjandi barn.

Ég gekk því næst inn á samlokustað þar sem að ég sá að var pláss fyrir vagninn góða og smá pláss fyrir brjóstagjöf úti í horni, innpökuð í teppi því ekki má móðga kanann með gerivörtum á matsölustöðum. Eftir matinn vorum við bæði rólegri og skunduðum út glöð i fasi, tilbúin í lífið.

Þegar við nálgumst bygginguna okkar er ég það glöð að ég er farin að ýta vagninum áfram af krafti og hlaupa og ná honum, okkur báðum til mikillar ánægju. Því miður vildi svo til í síðasta "ýtinu" að vagninn fer aðeins of langt áfram með ófyrirséðum afleiðingum.

Svo illa vildi til að vagninn lendir með hægra hjólið að framanverðu á pappakassa á horninu. Ég hugsaði ekki mikið út í það, eitthvað rusl á götuhorni sem vagninn rétt rakst í, en kom á daginn að þetta var hús einhvers herramanns sem hafði búið þar yfir nótt eða jafnvel lengur. Hann rekur upp skaðræðisöskur og byrjar að blóta í sand og ösku. Ég lít við og sé hann storma úr "húsinu" sínu alveg brjálaður að vera truflaður við heimilisstörfin. Ég vissi hreinlega ekki hvernig ég ætti að bregðast við en fór þó að afsaka mig og biðjast innilegrar fyrirgefningar.

Eftir að hafa fengið að heyra lexíu um að virða einkalíf fólks og hvernig á að koma fram við náungann held ég að ég hafi náð að stilla til friðar við heimilismanninn og gekk minn veg heim með lærdóm dagsins á hreinu. Maður ýtir ekki barnavagni inn á heimili útigöngumanna.

Með þetta í huga er ég farin í göngutúr dagsins í þeirri von að útigöngumenn verði ekki fyrir barðinu á mér.