föstudagur, desember 07, 2012

Barnavagn og útigöngumaður

Það er kalt úti og ég er orðin sein í mömmujóga tíma sem ég er búin að bíða eftir lengi. Barnið er óvært og nennir þessu flakki engan veginn en samt er það tilbreyting frá 25 fermetrunum sem það hangir vanalega í. Ég sveiflast áfram götuna, þræði leiðirnar sem síminn minn benti mér á að fara en man ómögulega hvaða leiðir það voru.

Þegar á staðinn er loksins komið blasir við mér þröngt andyri, fullt af samanbrjótanlegum kerrum, stigi upp og ógerlegt að segja til um það hvort að það sé yfir höfuð pláss fyrir mig í tímanum, en andyrið þoldi ekki aðra kerru og ekki var ég að fara að skilja eftir vagninn fyrir utan. Ég gerði því eins og allir hefðu að sjálfsögðu gert, kíkti höfðinu aðeins inn í dyragættina og gekk svo minn veg, alveg jógalaus með grenjandi barn.

Ég gekk því næst inn á samlokustað þar sem að ég sá að var pláss fyrir vagninn góða og smá pláss fyrir brjóstagjöf úti í horni, innpökuð í teppi því ekki má móðga kanann með gerivörtum á matsölustöðum. Eftir matinn vorum við bæði rólegri og skunduðum út glöð i fasi, tilbúin í lífið.

Þegar við nálgumst bygginguna okkar er ég það glöð að ég er farin að ýta vagninum áfram af krafti og hlaupa og ná honum, okkur báðum til mikillar ánægju. Því miður vildi svo til í síðasta "ýtinu" að vagninn fer aðeins of langt áfram með ófyrirséðum afleiðingum.

Svo illa vildi til að vagninn lendir með hægra hjólið að framanverðu á pappakassa á horninu. Ég hugsaði ekki mikið út í það, eitthvað rusl á götuhorni sem vagninn rétt rakst í, en kom á daginn að þetta var hús einhvers herramanns sem hafði búið þar yfir nótt eða jafnvel lengur. Hann rekur upp skaðræðisöskur og byrjar að blóta í sand og ösku. Ég lít við og sé hann storma úr "húsinu" sínu alveg brjálaður að vera truflaður við heimilisstörfin. Ég vissi hreinlega ekki hvernig ég ætti að bregðast við en fór þó að afsaka mig og biðjast innilegrar fyrirgefningar.

Eftir að hafa fengið að heyra lexíu um að virða einkalíf fólks og hvernig á að koma fram við náungann held ég að ég hafi náð að stilla til friðar við heimilismanninn og gekk minn veg heim með lærdóm dagsins á hreinu. Maður ýtir ekki barnavagni inn á heimili útigöngumanna.

Með þetta í huga er ég farin í göngutúr dagsins í þeirri von að útigöngumenn verði ekki fyrir barðinu á mér.

þriðjudagur, nóvember 27, 2012

Gubbandi gestir

Það er tómt í kotinu og frumburðurðinn er gáttaður á hljóðinu í húsinu. Það sést allt í einu í gólfið, en mér fannst fara því betur að hafa ferðatöskur út um allt. Stuttu áður höfðu gestirnir tekið leigubíl á horninu og kvatt borgina með bros á vör.

Það virtist hafa verið í gær sem að fjölskyldan frá Grindavíkurlandi (eins og heiðursgesturinn Helgi Hafsteinn kallaði bæinn sinn í þessari ferð) lenti í Stóra Eplinu til að skoða nýju heimkynni okkar. Borgin skartaði sínu fegursta á meðan á heimsókninni stóð og eins og sönnum New York búa óð ég um allar tryssur með þreyttu ferðalangana sem virtust sýna mér varkárni og kvörtuðu lítið. Þegar að fjölskyldufaðirinn frá sveitabænum Sílastöðum lagðist niður í fósturstellinguna í dótabúðinni á Times Square, lærði ég mína lexíu. Eftir nokkra daga var ég þó búin að sýna þeim Central Park, Hudson River Park, Bryant Park þar sem farið var á skauta, The History Museum, Sex and the City staði eins og Pastis og Magnolia Bakery, Friends húsið, Soho og Macy´s (þar sem að fjölskyldufaðirinn lagðist öðru sinni í fósturstellinguna og heimavinnandi húsmóðirin tapaði réttsvo gleðinni) og síðast en ekki síst Christopher Street þar sem að réttindabarátta samkynhneigðra í Bandaríkjunum byrjaði og íbúðina mína er að finna.

Ég horfi aftur á frumburðinn sem nú er farinn að venjast hljóðinu í húsinu. Ég flokka þvottinn sem virðist ætla að fylla í það minnsta fimm vélar, en svo virðist sem að gubbupest hafi gert vart við sig hjá ferðalöngunum en byrjaði þó hjá okkur heimamönnunum í ferðinni okkar um Vesturströndina.

Ferð, road trip frá San Diego til San Francisco sem vanalega er farin í blæjubíl með fólki sem er yfir 21 árs. Í þetta sinn var leigð mömmu-rútan Dodge Caravan, hún fyllt með þremur börnum, fjórum fullorðnum, töskum, bleyjum og barnastólum. Gisting var ýmist hjá vinum og vandamönnum eða hótel fyrir punkta mannsefnisins sem vinnur við að safna þeim. Téð mannsefni lá fyrstur í valnum, ásamt Margréti sem ældi nokkrum sinnum, tók svo uppáhalds meðalið sitt TUMS og varð góð. Magnús hafði drukkið óheyrilegt magn af viský kvöldinu áður og fékk því enga samúð samferðalanga sinna (og sérstaklega ekki kvenmannsefni síns) þegar að hann byrjaði gubbuna. Honum var sagt að girða í brók og koma okkur til Los Angeles eftir að hafa farið í dýragarðinn og eytt dýrmætum tíma með vinafólki frá háskólaárunum.

Í Los Angeles tóku Norðanmenn á móti okkur og sýndu okkur það sem að glamúr borgin hafði upp á að bjóða. Venice beach, Malibu, Santa Monica og svo mætti lengi telja. Eins og gefur að skilja voru Íslendingarnir æstastir í strönd, sand og sjó en enginn meira en Helgi Hafsteinn sem elti öldurnar og hljóp svo frá þeim tímunum saman.

Næsta fórnarlamb var undirrituð í Santa Barbara (borg sem sveitastrákurinn Jói elskar og mun flytja með fjölskylduna á efri árum) þar sem að annars yndislegi kvöldmaturinn á Svanga Kettinum skilaði sér í einu og öllu. Næstu nótt voru það svo Margrét aftur (en í þetta skipti virkaði töframeðalið ekki) og Óskar Fulvio. Þau ældu til skiptis um nóttina en Óskar hinn ungi hélt áfram fram eftir degi og fram á kvöld við komuna til San Francisco.

Gubbupestin setti því ótvírætt strik í reikninginn í San Francisco en ég náði að koma Jóa einu sinni enn í fósturstellinguna þegar að við skunduðum í gegnum mannmergðina í Fisherman's Wharf eftir að Óskar hafði ælt yfir mig alla út á miðri götu. Eftir góða 18 tíma af ælu hjá litla kút var okkur ekki farið að lítast á blikuna og kíktum með hann á spítalann, svona til öryggis þar sem að við áttum að mæta í flug 10 tímum seinna. Það var ákveðin upplifun að mæta á neyðarmóttöku í Bandaríkjunum, en hann fékk að fara inn strax og var búið að hlúa að honum á 45 mínútum. Það tók hins vegar einn og hálfan tíma að ganga frá pappírum!

Flugið til New York gekk vel, litli kútur ældi bara einu sinni á mig en um nóttina tóku Jói og Kamilla Kristín við.

Nú er búið að flokka þvottinn og gubbuhandklæðin frá litlu dömunni (sem gubbaði bara eins og hún hafði aldrei gert annað, ólíkt frænda sínum sem panikaði í hvert einasta skipti) komin í sértunnu. Skrýtið hvernig ummerki gestanna kalla fram innilegan söknuð hjá mér.

Ferðin sem vissulega var lituð af ælu inn á milli var ógleymanleg og fegurðin sem California hefur upp á að bjóða er endalaus! Næst mun þessi ferð vera farin í blæjubíl, kannski í Mustang með Helga Hafsteini...

Á meðan ég læt mig dreyma um allar strendurnar, góða matinn, reggí-tónlistarmanninn, dodge minivaninn, hitann, sólina, gubbusögurnar, fýlurnar og hlátursköstin legg ég frumburðinn í rúmið og býð góða nótt.

þriðjudagur, nóvember 06, 2012

Hvirfilbylur 1-New York 0

Það er sunnudagur. Fólk er eitthvað órólegt í kringum okkur og vasaljósabirgðir borgarinnar fara óðum minnkandi. Svíinn trúir ekki stórýktum fréttum ljósvakans af yfirvofandi stormi. Yfirleitt er þetta peningaplott og brella til þess að fá fólk til þess að horfa á sjónvarp og kaupa meira. Þá hringir síminn. Fluginu hjá mannsefninu frestað í fyrramálið og þá eru góð ráð dýr. Stálráðstefnuna verður að komast á og því brugðið á það ráð að fara samdægurs á staðinn.

Eftir sit ég ein í kotinu með fjögurra mánaða gamlan soninn sem ekki virðist gera sér grein fyrir alvarleika málsins, ef einhver er. Fréttaflutningur af storminum eykst og borgarstjórinn væntanlegur á skjáinn innan skamms. Ég ákveð að bjalla heim á klakann, enda landsmenn þaulvanir stormum. Þar hafa menn ekki heyrt mikið um storminn og ég ákveð því að hlusta á Bloomberg vin minn -sem virðist alvarlegur í tali. Svæði A alls ekki langt frá íbúðinni góðu, aðeins nokkrir metrar skilja þessi svæði að. Í þann mund sem ég er farin að ímynda mér aðstæður eins og þær gerast verstar, með flæðandi glugga í rafmagnsleysi kemur símtal frá klakanum þar sem mér er sagt að koma mér frá Nýju Jórvík eins og skot. Sama hvað tautar og raular, sama hversu mikið ég þyrfti að borga.

Móðir Wisslers var tilbúin að taka okkur flóttamennina að sér og hófst þá leit að fari til Washington. Rútur hættar að ganga og síðasta flugið farið. Ég næ að kaupa mér lestarmiða með síðustu lestinni frá borginni, pakka því sem ég hef vit á að pakka, hleyp út í leit að leigubíl með barnið í annarri hendi og ferðatösku í hinni. Loks næ ég leigubíl og bruna að lestarstöðinni, finn "hliðið" mitt og sest niður. Lestin er troðfull og Óskar ákveður að hafa gaman alla leiðina með tilheyrandi öskri og látum sem hann er að gera tilraunir á þessa dagana.

Þremur tímum seinna erum við sótt á lestarstöðina í Washington, komin í öruggt skjól Sue og Johns -tilbúin að takast á við storminn saman. Og við biðum og biðum en fundum sem betur ekkert fyrir honum, smá íslenskt rok og rafmagið hélt allan tímann. Sömu sögu var ekki að segja um íbúðina okkar sem var án rafmagns út vikuna. Dvölin í Washington var yndisleg, alveg eins og að vera á hótel mömmu -og hvar er maður öruggari í látum móður náttúru en á herstöð með mönnum sem eru þjálfaðir í að komast af í svipuðum eða verri aðstæðum.

Í gær keyrðum við svo tilbaka til New York en þurftum að fara í gegnum Lincoln göngin þar sem að Holland göngin eru enn lokið almenningi. Á leiðinni keyrðum við í gegnum New Jersey sem var á köflum enn án rafmagns og fólk í neyðarskýlum. Herinn var að deila birgðum og bensínstöðvar voru lokaðar eða bensíni skammtað.

Núna erum við mæðginin mætt í litlu íbúðina okkar og bíðum næsta veðurofsa, sem ætti ekki að vera eins mikill og hvirfilbylurinn Sandy -en samt sem áður ætla ég að kaupa meira vatn og mat, og splæsa í vasaljós ef ske kynni að rafmagnið færi aftur af og eiga nóg af nammi, algerlega nauðsynlegt þegar að manni leiðist.

Vonandi verður allt svo komið í samt lag á föstudaginn en þá mæta Magga, Jói og börn í borgina góðu. Kosningar á morgun -sem betur fer, ég fer alveg að verða búin með þolinmæðiskvótann fyrir pólitískum auglýsingum. Ég er engu nær því sem frambjóðandinn ætlar að gera en ég veit sko alveg hvað mótframbjóðandinn ætlar að gera og það er alveg hræðilegt. Alls ekki kjósa hann, kjóstu frekar mig.

My name is Ólöf and I approve this message.

sunnudagur, október 28, 2012

Hrekkjavaka og hvirfilbylur

Fyrir ári síðan var ég uppáklædd sem skatturinn, í jakkafötum með 37% skattaglasið sem ég bað hrekkjavökugesti að fylla 37% af því sem þeir voru að drekka. Í ár var ég uppáklædd sem sú gamla kona sem ég er orðin. Ég er nú orðin þrítug og tími til kominn að sætta sig við staðreyndir málsins. Við New York fjölskyldan vorum aðeins of íslensk í tímasetningu og fórum á laugardegi á röltið um hrekkjavökubúðir New York borgar. Raðir út um allt og kaupóðir borgarbúar voru ekki að samþykkja íslensk-sænska liðið með kerruna sem tók hálfan ganginn. Við nenntum því ekki að bíða í röðinni þar sem að búningarnir voru seldir heldur fórum beint í fylgihlutaganginn og fundum húfu, smekk, bleiu og snuð -fyrir Magnús og gráa hárkollu fyrir mig. Óskar greyið þurfti að dressa sig upp sem sjóliði enn og aftur þar sem að röðin í barnabúningana var jafn löng.

Við hentum okkur í búningana, skelltum einum gylltum niður og mönuðum okkur í það að fara út og veifa leigubíl. Óskar var í bílstólnum sem Magnús hélt á og spurðu ansi margir okkur hvort að þetta væri alvöru barn...
Við svöruðum með því að ansi margt væri til í New York, en varla barnaleiga. Loks stöðvaði hugrakkur bílstjóri og keyrði okkur á staðinn sem partýið fór fram. Við mættum snemma og fórum snemma en feðgarnir fengu verðskuldaða athygli.
Það sem sló mig mest var hins vegar misskilningur minn um búninga sem slíka. Ég er elltaf að reyna að vera fyndin og gamla konan fannst mér algerlega hitta í mark. Í partýinu var þemað hins vegar #reynumaðgeraalltsemviðgetumtilaðglennast og þegar að stelpan í býflugnamúnderingunni spurði mig hvað ég væri eiginlega var mér hætt að lítast á blikuna. Fleiri spurningum í þá áttina var svo beint að mér þegar að fleiri glennur mættu og fór ég þá í fýlu og vildi fara heim.
Þegar heim var komið spurði einn íbúanna hvort við vissum hvort að byggingin okkar tilheyrði svæði A eða B. Við vissum ekkert um það en spurðum hvers vegna. "Vegna þess að svæði A þarf að rýma fyrir fellibylnum Sandy". Við kveiktum því á fréttunum og viti menn, rýmingaáætlun fyrir svæði A í fullum gangi fyrir Sandy sem er væntanleg á mánudag eða þriðjudag. Í morgun fengum við svo að vita að við erum einni götu frá svæði A, erum sem sagt á svæði B og þurfum ekki að rýma. Magnús þurfti að fara fyrr til Chicago vegna þess að öllum flugum hefur verið aflýst á morgun og því sitjum við mæðgin hér ein og bíðum komu fellibylsins. Við erum búin að vera okkur úti um vatn, mat og annað sem við þurfum ef að við innilokumst í einhvern tíma. Ég á kerti og góða skapið og bý að mikilli reynslu af óveðrum á Íslandinu góða. Nú er bara að bíða og vona a Hudson áin flæði ekki og að niðurföllin geri sitt. Læt nokkrar myndir fljóta af ánni góðu og vona að ég fái tækifæri til að blogga um gang mála.




Guð blessi New York.

þriðjudagur, október 23, 2012

Þvottadagur

Þótt það sé ekkert nýtt fyrir mér að þvo þvott þá tel ég þvottadaginn minn fyrir helgi sem nýja reynslu og þar af leiðandi afsökun fyrir bloggi (þið ykkar sem eruð viðkvæm fyrir upplistun ómerkilegra atburða í lífi annars fólks er bent á x-takkann í horninu).

En eins og þið hafið sennilega ímyndað ykkur og séð í sjónvarpinu þá eru flestar íbúðir hérna í stórborginni þvottavélalausar. Sumar byggingar búa svo vel að vera með þvottahús í kjallara eða farið er með þvottinn í svokallað laundromat eða á þvottahús þar sem þvottinum er skilað inn og hann sóttur seinna þrifinn og brotinn saman. Hérna í byggingu 165 á Christopher götu er þvottahús í kjallaranum, við hliðina á skrifstofu húsvarðarins Fernando. Gegn vægu gjaldi er hægt að koma tveggja vikna þvotti í eina alvöru ameríska þvottavél og þurrka þetta svo allt saman, eitthvað sem móðir mín og ömmur myndu fussa yfir, enda algerlega á skjön við það sem kennt er í Húsó.

Þar sem ég er nú grasekkja megnið af vikunni þarf ég að finna mér frumlegar leiðir til þess að fara niður í kjallara með þvottin og barnið. Ég brá því á það ráð að skella barninu í barna-björninn, þvottinum í vagninn og bruna af stað niður lyftuna inn í þvottahús. Þar mættu mér fjölmörg augu, en skrifstofa Fernando var full af kaffilepjandi karlmönnum. Ekki var mér boðið í kaffi, kannski út af vagninum yfirfullum eða barninu sem hékk framan á mér.

Ég vel mér stærstu vélina og byrja að týna inn í hana litaða þvottinn en enda svo á því að henda öllu inn í hana þar sem að Óskar var farinn að vera órólegur og nokkrir karlmenn frá skrifstofu Fernando farnir að fylgjast með mér. Tveir menn koma svo inn í þvottahús í níðþröngum gallabuxum með sléttað hár og plokkaðar brúnir. Núna var ég farin að skilja hvers vegna mér var ekki boðið í kaffi. Þeir heilsa mér, Oh my gosh what a cutie! Ég gerði ráð fyrir að þeir væru að tala um Óskar Fulvio og leyfði þeim að knúsa á honum kinnarnar. Þeir byrjuðu að týna úr þurrkaranum og brjóta saman þvottinn sinn með slíkum fagmannabrag að ég roðnaði. Mig langaði mest til þess að afsaka mig fyrir að hafa hent öllum þvottinum í eina vél en ég fann að þeir dæmdu mig ekki, heldur fóru að tala um stórsniðuga leið til þess að pressa smá krumpu í fötum án þess að taka upp straujárnið -þú hreinlega hengir flíkina á snaga og notar sléttujárnið þitt! Þeir héldu svo áfram að tala um skemmtilegar lausnir og sögðu ef að þú ert með svitarollonbletti í fötunum þínum þá er hægt að spreyja gamlar sokkabuxur með hárspreyi og nudda því á blettinn, hann ætti að hverfa. Síðasta ráðið sem ég fékk frá þeim var hvernig hægt er að sporna við svitablettum, þú straujar (eða sléttar með sléttujárninu þínu) barnapúðri inn í handakrikann á flíkinni og kabúmm, johnson blettir heyra sögunni til!

Ég fór upp í íbúð glöð og kát með að hafa eignast þvottahúsavini og lært heilmikið í leiðinni. Þegar kom að því að fara aftur niður og henda í þurrkarann var ein bleik flík því miður búin að lita nokkara hvítar flíkur en mér til mikillar lukku voru mennirnir farnir og enginn sá þvottamistök mín, didn´t happen!

Ég þakka áherynina í bili, ég heyri í Fernando ryksuga hérna fyrir utan og eitthvað virðist hann vera í stuði fyrir Florence and the Machine því The dog days are over hefur verið á repeat í tíu mínútur. Ætla að skella mér í göngu og mynda Halloween skreytingar sem verða á vegi mínum.

Þangað til næst, lifið heil!


fimmtudagur, október 18, 2012

Mangolia Bakery

Síðasta bloggsyrpa var tileinkuð hlaupaþjálfun minni sem endaði í skrautlegu Reykjavíkurmaraþoni með Valkyrjunum.

Í þetta sinn ætla ég að setja mér markmið, önnur en leiðindahlaup með tilheyrandi óþægindum. Sem grasekkja og móðir í stóra eplinu verð ég að finna mér leiðir til þess að verða ekki vitstola inni í 25 fermetrunum okkar á Christophergötu á Manhattaneyju.

Ég hef því ákveðið að prófa ýmsa hluti í borginni og blogga um reynsluna. Þið ykkar sem ætlið ykkur að fara í frí til borgarinnar eða eruð að flytja, getið notfært ykkur upplýsingarnar sem ég býð upp á og endilega haft samband!


Í dag var markmiðið að prufa bakaríið á Bleecker götu í West Village sem ber nafnið Mangolia Bakery. Ég hafði heyrt fólk tala um ágæti gotterísins og sé oft röð myndast þar fyrir utan sem vakti óneitanlega áhuga minn. Ég setti barnið í burðapokann (barna-björninn, ekki alvöru burðarpoka), lagði kerrunni pent fyrir framan bakaríið, tók alla verðmuni úr kerrunni með mér inn og tróð mér inn á milli annars fyrirferðaminni viðskiptavina. Bakaríið að innan var ekkert sérstakt en ég ákvað að láta það ekkert á mig fá og pantaði mér sítrónu kökusneið og vanillu ostakökusneið og borgaði fyrir það 13 dollara.


Því miður verð ég að viðurkenna að kökusneiðarnar voru ekki peninganna eða aukakílóanna virði -en sem betur fer er allt morandi í litlum sætum kökubúðum sem ég get borið Mongolian Bakery saman við.

Til þess að bæta mér þetta upp fórum við Óskar á Chipotle mexíkóstaðinn góða sem er að finna um gervöll Bandaríkin og eru eins konar Serrano búrrítur á sterum. Áður en ég veit af verð ég orðin hringlótt í framan, en það verður efni í aðra blogg-seríu, ekki satt?



Til þess að vega upp á móti öllu átinu ætla ég að rölta meðfram Hudson ánni á morgun og kíkja á stemninguna í Chelsea Market.

Í gær hitti ég Tye Diggs í búðinni, hvern hittuð þið í búðinni ykkar?

Þangað til næst, Lafan í New York.

þriðjudagur, ágúst 21, 2012

Fer hægt.. sér margt

Einhver sagði eitt sinn að lífið væri ekki endastöðin heldur ferðalagið að henni. Ferðalag okkar frá kílómetra eitt til kílómetra tíu var sársaukafullt, skrýtið, spennandi og gefandi, allt í bland.

Kvöldið fyrir hlaupið góða mætti undirrituð upp í Laugardalshöll ásamt hinum hlaupurunum og sótti númerið sitt. Fréttamenn á staðnum og Lafan upptekin að því að koma sér í mynd. "Verst að barnið þurfi ekki að drekka akkúrat núna, þá yrði pottþétt tekið viðtal við mig. Sé fyrisögnina í anda, mætt í hlaup níu vikum eftir barnsburð..." En allt kom fyrir ekki, barnið vaknaði ekki og ekkert annað sem ég gerði vakti undrun eða aðdáun fréttamannanna á staðnum. "Jæja þá læt ég að mér kveða í hlaupinu" hugsa ég og dröslast framhjá fréttamönnunum.

Næst á dagskrá, næring. Hlauparar tala oft um að byrgja sig upp af ítalska eðalmatnum pasta daginn fyrir hlaup og fylgdi ég þeirri mýtu eftir með því að elda stútfullt eldfast mót af eðalpasta úr Krambúðinni. Getur ekki klikkað.

Svo er það svefninn. "Verð að fara snemma að sofa" hugsaði ég, kom barninu í ró og lagðist upp í fyrr en ella. Fékk nokkur sms á miðnætti frá djammþyrstum vinum, þótti vænt um það að vera ennþá meðlimur í "viltu-koma-á-djammið" hópnum en lagðist svo aftur á koddann. Óskar ákvað að vera þyrstur þetta kvöld, kannski í kaloríusjokki eftir pastasprengjuna, og vaknaði á tveggja tíma fresti. Klukkan fimm ákvað hann að detta í stuð og hló stanslaust frá 5-7. Náði að gleyma mér frá 7-8 en þá hringdi klukkan. Game day.

Bolirnir klárir. Skórnir reimaðir. Stelpurnar mættar. Hlömmum okkur aftast í mannmergðina og bíðum eftir skotinu góða. Af stað. Rauðu bolirnir á undan okkur eru eins og maurar og fólkið á hliðarlínunni virkar eins og eldsneyti. Þvílík stemning. Sælutilfinning líður um æðar og er það ekkert sem ég get ekki gert. Ég kíki á iphoninn en mér til undrunar er rétt rúmur kílómeter liðinn. Vá þetta var langur kílómeter. Næstu þrír kílómetrar eru teknir á adrenalíninu einu saman en á fimmta kílómetra tekur mjöðmin við völdum og hægir allverulega á liðinu. Ég sé stelpurnar í fjarska, þyrstar í að taka fram úr konunni með barnið á bakinu og konunni sem er jafnþung og við allar til samans. Maður á sandölum og skinnpilsi tekur fram úr okkur og ég sé angistarsvipinn á stelpunum.

Svona gekk þetta næstu kílómetra á eftir, en enn og aftur er það fólkið á hliðarlínunni sem spýtir í lófann á mér og hvetur mig áfram. Stelpurnar eru farnar að hingsóla í kringum mig, standa á höndum og gera magaæfingar á meðan ég drattast þetta áfram en endastöðin nálgast og markmiðið að komast í fréttirnar með því að haldast í hendur yfir marklínuna einnig. Ljósmyndarar voru hrifnir af okkur og í hvert sinn sem við sáum slíka var ég-er-að-drepast svipnum breytt í i'm-sexy-and-i-know-it svip.



Þarna er það. Endastöðin. Tíu kílómetrar að baki, fólkið á hliðarlínunni hvetur okkur áfram, við leiðumst hönd í hönd yfir marklínuna við mikinn fögnuð áhorfenda. Þvílík tilfinning. Þvílík sæla.

Við marklínuna biðu okkar fjölskylda og vinir og var enginn fegnari að sjá mig en Óskar Fulvio sem var orðinn ansi þyrstur eftir pastað. Eftir smá teygjur var svo haldið á Þórsgötuna í morgunmat og svo niður í bæ í smá bjór og sólbað.

Í sæluvímunni var ákveðið að hlaupa næsta hlaup. Vestmannaeyjahlaupið og ætla stelpurnar að setja markið á hálfmaraþonið þar. Ég hef ákveðið að taka 5km (enda óendanlega mikið af brekkum þar í bæ...)

Hlaupaferðalaginu er ekki lokið né bloggferðalaginu. Þakka áheyrnina.

P.s. okkur tókst að komast í fréttirnar!

föstudagur, ágúst 17, 2012

Að duga eða drepast...

Minna en sólahringur í hlaupið og þið eruð eflaust að velta því fyrir ykkur hvort ég hafi ekki tekið "æfingu fyrir leik"?

Ég stillti upp mínu sterkasta liði og ákvað taktík fyrir leikdag. Skórnir með bleiku reimunum, hlaupabuxurnar, tónlistin, allt var sett upp eins og á leikdegi. Stefan var sett á 7km því það gefur augaleið að ef ég kemst 7 þá get ég tekið síðustu 3 á þrjóskunni. Þornjörninn nálgast í allri sinni dýrð og ég er þess viss um að þetta geti bara ekki klikkað. Þvílíkur þjálfari sem ég er. Ætti að fara að taka þetta að mér. Hlaup eftir barnsburð? Gefins.

Ég mátti vita það sigurvissa boði aldrei gott. 2km og fæturnir þyngjast. 3km og andardráttur á við stórreykingarmann vel yfir kjörþyngd. Er iphoninn að bila eða missa samband við gervihnöttinn út í heimi... ætlar teljarinn aldrei að ná 4km? Svona gekk þetta þar til að ég náði 5km, þá...þá...þá... HÆTTI ÉG! Gat hreinlega ekki meira og labbaði inn í bæinn skömmustuleg. Hræðilegt að búa í svona litlu samfélagi, það sáu mig allir!

Eftir slíka hörmungaræfingu fyrir leik hef ég algerlega skipt um taktík. Hlaupið verður á gönguhraða, plata kannski einhver til þess að hitta mig á miðri leið með reiðhjól þar sem ég get hjólað kílómetrana sem á ég eftir í stelpurnar. Hoppa svo af hjólinu þegar að 1.5km eru eftir og tek endasprett fram úr öllum hlaupurunum sem komust 7km í æfingahlaupinu sínu.

Hvernig sem þetta fer er ég að þessu út af samviskubiti (Magga borgaði skráningargjaldið og harðneitar að fá endurgreitt) og einnig fyrir góðan málstað, en við hlaupum fyrir Líf og allar mæður og börn í heiminum (þetta verður hluti af peppræðunni minni fyrir "leik" á morgun).

Bjórar og bland í poka eru velkomnir á endalínuna og ef einhver nennir að hjóla með slíkan varning á veiðistöng fyrir framan mig allan tímann þá væri það vel þegið.

Hlakka til að sjá ykkur á Menningarnótt, áfram við!

mánudagur, ágúst 13, 2012

Andlega hliðin

Nei ég er ekki hætt við. Hef bara verið löt að blogga (og þar af leiðandi hlaupa). Þar sem að mjaðmirnar öskra af vaxtaverkjum líkt og þær gerðu þegar að ég tók stökkið úr 167cm í 168cm (en opinberar tölur segja 169) hef ég einungis hlaupið einu sinni síðan að ég hlammaði mér í bloggstólinn síðast. Það hlaup átti sér stað á fimmtudaginn síðasta þar sem að 6 kílómetrar lágu í valnum. Tíminn skal ekki gefinn upp, vil ekki fæla samhlauparana frá mér svona stuttu í mót. Lifði þetta af, en ekki mikið meira en það.

Í öllum íþróttum er mikilvægt að huga að andlegu hliðinni og hef ég einbeitt mér að henni síðustu dagana. Kannanir sýna að þeir sem horfa mikið á fótbolta eru betri í fótbolta en þeir sem gera það ekki. Ég fylgdist því grannt með maraþon keppni karla, andaði að mér visku lýsandans og ímyndaði mér hvernig ég myndi hlaupa. Er að spá í að nota sama hlaupastíl og þessi sem varð í 2.sæti, þessi sem hljóp alltaf heim úr skólanum með bækurnar í hendi, get ímyndað mér að bjórinn sé í hægri hendinni og það má ekki hellast úr honum. Ég ætla líka að passa mig að vera alltaf að stoppa og fá mér vatn og kannski gefa fólkinu high five á leiðinni. Já verð að sýna Ólympíuandann. Eins hef ég heyrt að pasta-át sé gott fyrir svona mót og hefur það verið stundað ákaft. Þarf að sauma hlaupabuxurnar þar sem að saumurinn fór í hlaupinu um daginn. Skil ekkert í því. Ætla að fara í fótabað í hlaupaskónum svo ég fái ekki hælsæri, það gekk alltaf í boltanum í gamla daga. Verð að muna að laga playlistann, það er ekkert eins skemmandi fyrir andlegu hlið hlaupsins en léleg lög, fer hreinlega í fýlu ef að rangt lag kemur upp á fóninn. Ég man hvernig það fór fyrir mér síðast þegar að lag fór í taugarnar á mér á meðan að ég hljóp...

Á meðan að ég hlúi að andlegu hliðinni klára ég leifar sælgætiskaupa helgarinnar, en markmiðið er nammilaus vika og eitt hlaup í viðbót áður en 10km eru farnir.

Hef stofnar styrktarsíðu en er bara komin með 0kr. Hef trú á að ég nái þúsund króna markinu áður en hlaupið hefst.

Ætla að fara að horfa á Rocky, The Miracle og Mighty Ducks. Þær geta ekki klikkað.

föstudagur, ágúst 03, 2012

Íþróttameiðsl

Tilraun 3 í leiðinni að tíu kílómetrunum. Skórnir eru reimaðir á, túnfisksalatið komið nógu langt niður meltingaveginn, sólin skín í heiði og ekkert því til fyrirstöðu að hefja hlaupið. Markmiðið er þrír kílómetrar.

Konan í i-símanum minnir mig reglulega á hvað ég er komin langt og á hvaða hraða ég hleyp. Það eina sem pirrar mig eru gleraugun sem renna reglulega niður smettið á mér og æ oftar eftir því sem ég svitna meira. Heyrnatólin virðast líka ætla að falla í pirringsflokkinn með gleraugunum. Er vinstra eyrað á mér stærra en það hægri? Af hverju haldast þau aldrei vinstra megin? Bubbi er á fóninum með eitthvað væl að vestan. Ennþá meiri pirringur. Konan segir mér að nú hafi ég hlaupið einn kílómeter sem er 0,75 meira en markmiðið sem ég setti í upphafi. Ansk... verð að fara að læra á þetta hlaupaprógram.

Núna renna glaraugun niður, heyrnatólið dettur úr stóra eyranu vinstra megin, Bubbi er að gera mig geðveika og konan í i-símanum hættir ekki að röfla. Ég ætla mér að laga allann pirringinn í einum hendingi. Treð heyrnatólinu í eyrað, laga gleraugun, slekk á konunni og skipti um lag allt á sama tímanum. Það vildi ekki betur til en að hægri ökklinn tók í taumana, beyglaði sig aðeins og henti mér á grjóthart malbikið.


Buguð en ekki sigruð held ég þó áfram hlaupinu og klára 4,5 kílómetra svo til í heilu lagi að undanskildum nokkrum skrámum á líkama og heldur dýpri sárum á stolti.

Frí í dag, enda mjaðmirnar á mér eins og á gamalli konu og sviði í skrámunum. Vá. Langt síðan að ég hef verið með svona íþróttameiðsl. Þetta er gaman!

sunnudagur, júlí 29, 2012

Leiðin að 10 kílómetrunum

Komið sælir dyggu lesendur Löfunnar.

Eftir bónorð kemur barn, ekki satt? Óskar Fulvio fæddist 15.júní síðastliðinn og heilsast öllum vel. Mamman er kannski ennþá með smá skvabb utan á sér og langar í sælgæti allan liðlangan daginn, en mér er sagt að það sé eðlilegt.

Magga Stína Rokk sem átti sitt annað barn, Kamillu Kristínu, þremur dögum á eftir tvíburasystur sinni líst ekkert á ástand systur sinnar og hefur skráð hana og Gebbu í 10 km hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu. Stúlkan sú var klár að borga brúsann fyrir okkur vinkonurnar og harðneitar að gefa upp reikningsnúmerið sitt svo við getum borgað henni tilbaka og hætt við. Það lítur því allt út fyrir að Lafan verði að taka sig saman í andlitinu, minnka nammiátið -það má alls ekki hætta, verð að halda mjólkinni :) og reyna að koma sér út að hlaupa -en ég get það alls ekki ein. Því hef ég ákveðið að blogga um leiðina að 10 kílómetrunum. Þið fáið að heyra allt um það hvernig gengur í baráttunni við nammið sem og í hlaupunum. Ef að lýsingarnar pirra ykkur þá er stutt í músina og hægt að loka síðunni :)

Fyrsta hlaupið var framkvæmt á fótboltavellinum 27.júlí. Vindhraði var í meðallagi og sólin skein. Markmiðið var að hlaupa í 3 lög án þess að detta niður dauð. Fyrsta lagið var Rihanna með We found love. Lagið tók mig aftur í tímann þegar ég var barnlaus á djamminu. Áður en ég vissi af var lagið búið og Tonight give me everything tonight kom á. Þetta verður ekkert mál hugsaði ég en einhvernveginn náði ekki að detta í djammgírinn aftur. Eymsli í rassinum, eymsli í náranum og sviti. Brjóstin flúgja upp og niður. Verð að fá mér betri íþróttatopp. Lagið búið. Næsta lag Jennifer Lopez og Pitbull. Hringirnir sem ég hleyp syttast óðum og lagið er á enda. Næstu tvö lög eru í móðu en ég klára tuttgu mínútna hlaup án stórvægilegra vandræða.

Annað hlaupið var framkvæmt nokkru áður en þetta er hripað niður. Í þetta sinn var markmiðið að hlaupa 30 mínútur og losna við harðsperrurnar frá fyrra hlaupinu. Því miður er ég ekki með rétta ipotterinn og þarf því að hlusta á lög í símanum mínum sem er samansafn af meðgöngu-jóga lögum og Pöpunum. Annað hvert lag var því hlaupið á sniglahraða og hin á Papa-hraða. Ég passaði mig á því að hlaupa utanbæjar þar sem að ástandið á mér er ekki fólki bjóðandi. Það voru eldri hjón á undan mér á leiðinni og ég náði þeim ekki. Svolítið vonsvikin með það, en vonast til þess að ná í skottið á eldri borgurum í heilsubótargöngu í næsta hlaupi.

Bara búin með eitt Kit Kat í dag og vonast til þess að láta það nægja út daginn. En skúffukökuna frá því í gær verður að klára svo hún skemmist ekki, svo hún telst ekki með.

Ji hvað það er gaman að detta í blogggírinn aftur. Þakka áheyrnina, farin í ísbað.