fimmtudagur, október 18, 2012

Mangolia Bakery

Síðasta bloggsyrpa var tileinkuð hlaupaþjálfun minni sem endaði í skrautlegu Reykjavíkurmaraþoni með Valkyrjunum.

Í þetta sinn ætla ég að setja mér markmið, önnur en leiðindahlaup með tilheyrandi óþægindum. Sem grasekkja og móðir í stóra eplinu verð ég að finna mér leiðir til þess að verða ekki vitstola inni í 25 fermetrunum okkar á Christophergötu á Manhattaneyju.

Ég hef því ákveðið að prófa ýmsa hluti í borginni og blogga um reynsluna. Þið ykkar sem ætlið ykkur að fara í frí til borgarinnar eða eruð að flytja, getið notfært ykkur upplýsingarnar sem ég býð upp á og endilega haft samband!


Í dag var markmiðið að prufa bakaríið á Bleecker götu í West Village sem ber nafnið Mangolia Bakery. Ég hafði heyrt fólk tala um ágæti gotterísins og sé oft röð myndast þar fyrir utan sem vakti óneitanlega áhuga minn. Ég setti barnið í burðapokann (barna-björninn, ekki alvöru burðarpoka), lagði kerrunni pent fyrir framan bakaríið, tók alla verðmuni úr kerrunni með mér inn og tróð mér inn á milli annars fyrirferðaminni viðskiptavina. Bakaríið að innan var ekkert sérstakt en ég ákvað að láta það ekkert á mig fá og pantaði mér sítrónu kökusneið og vanillu ostakökusneið og borgaði fyrir það 13 dollara.


Því miður verð ég að viðurkenna að kökusneiðarnar voru ekki peninganna eða aukakílóanna virði -en sem betur fer er allt morandi í litlum sætum kökubúðum sem ég get borið Mongolian Bakery saman við.

Til þess að bæta mér þetta upp fórum við Óskar á Chipotle mexíkóstaðinn góða sem er að finna um gervöll Bandaríkin og eru eins konar Serrano búrrítur á sterum. Áður en ég veit af verð ég orðin hringlótt í framan, en það verður efni í aðra blogg-seríu, ekki satt?



Til þess að vega upp á móti öllu átinu ætla ég að rölta meðfram Hudson ánni á morgun og kíkja á stemninguna í Chelsea Market.

Í gær hitti ég Tye Diggs í búðinni, hvern hittuð þið í búðinni ykkar?

Þangað til næst, Lafan í New York.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

snilld stelpurnar í vinnunni voru einmitt að tala um chipotle verð að prufa hann :) hef ekki hitt neinn merkilegann í búðinni, ekki ammalegt að sjá tye Diggs....

kv Teddz

Nafnlaus sagði...

Tye Diggs, ertu að djóka, ÉG ELSKA HANN!!!!

Bkv,
Kristín H. H.