þriðjudagur, ágúst 21, 2012

Fer hægt.. sér margt

Einhver sagði eitt sinn að lífið væri ekki endastöðin heldur ferðalagið að henni. Ferðalag okkar frá kílómetra eitt til kílómetra tíu var sársaukafullt, skrýtið, spennandi og gefandi, allt í bland.

Kvöldið fyrir hlaupið góða mætti undirrituð upp í Laugardalshöll ásamt hinum hlaupurunum og sótti númerið sitt. Fréttamenn á staðnum og Lafan upptekin að því að koma sér í mynd. "Verst að barnið þurfi ekki að drekka akkúrat núna, þá yrði pottþétt tekið viðtal við mig. Sé fyrisögnina í anda, mætt í hlaup níu vikum eftir barnsburð..." En allt kom fyrir ekki, barnið vaknaði ekki og ekkert annað sem ég gerði vakti undrun eða aðdáun fréttamannanna á staðnum. "Jæja þá læt ég að mér kveða í hlaupinu" hugsa ég og dröslast framhjá fréttamönnunum.

Næst á dagskrá, næring. Hlauparar tala oft um að byrgja sig upp af ítalska eðalmatnum pasta daginn fyrir hlaup og fylgdi ég þeirri mýtu eftir með því að elda stútfullt eldfast mót af eðalpasta úr Krambúðinni. Getur ekki klikkað.

Svo er það svefninn. "Verð að fara snemma að sofa" hugsaði ég, kom barninu í ró og lagðist upp í fyrr en ella. Fékk nokkur sms á miðnætti frá djammþyrstum vinum, þótti vænt um það að vera ennþá meðlimur í "viltu-koma-á-djammið" hópnum en lagðist svo aftur á koddann. Óskar ákvað að vera þyrstur þetta kvöld, kannski í kaloríusjokki eftir pastasprengjuna, og vaknaði á tveggja tíma fresti. Klukkan fimm ákvað hann að detta í stuð og hló stanslaust frá 5-7. Náði að gleyma mér frá 7-8 en þá hringdi klukkan. Game day.

Bolirnir klárir. Skórnir reimaðir. Stelpurnar mættar. Hlömmum okkur aftast í mannmergðina og bíðum eftir skotinu góða. Af stað. Rauðu bolirnir á undan okkur eru eins og maurar og fólkið á hliðarlínunni virkar eins og eldsneyti. Þvílík stemning. Sælutilfinning líður um æðar og er það ekkert sem ég get ekki gert. Ég kíki á iphoninn en mér til undrunar er rétt rúmur kílómeter liðinn. Vá þetta var langur kílómeter. Næstu þrír kílómetrar eru teknir á adrenalíninu einu saman en á fimmta kílómetra tekur mjöðmin við völdum og hægir allverulega á liðinu. Ég sé stelpurnar í fjarska, þyrstar í að taka fram úr konunni með barnið á bakinu og konunni sem er jafnþung og við allar til samans. Maður á sandölum og skinnpilsi tekur fram úr okkur og ég sé angistarsvipinn á stelpunum.

Svona gekk þetta næstu kílómetra á eftir, en enn og aftur er það fólkið á hliðarlínunni sem spýtir í lófann á mér og hvetur mig áfram. Stelpurnar eru farnar að hingsóla í kringum mig, standa á höndum og gera magaæfingar á meðan ég drattast þetta áfram en endastöðin nálgast og markmiðið að komast í fréttirnar með því að haldast í hendur yfir marklínuna einnig. Ljósmyndarar voru hrifnir af okkur og í hvert sinn sem við sáum slíka var ég-er-að-drepast svipnum breytt í i'm-sexy-and-i-know-it svip.



Þarna er það. Endastöðin. Tíu kílómetrar að baki, fólkið á hliðarlínunni hvetur okkur áfram, við leiðumst hönd í hönd yfir marklínuna við mikinn fögnuð áhorfenda. Þvílík tilfinning. Þvílík sæla.

Við marklínuna biðu okkar fjölskylda og vinir og var enginn fegnari að sjá mig en Óskar Fulvio sem var orðinn ansi þyrstur eftir pastað. Eftir smá teygjur var svo haldið á Þórsgötuna í morgunmat og svo niður í bæ í smá bjór og sólbað.

Í sæluvímunni var ákveðið að hlaupa næsta hlaup. Vestmannaeyjahlaupið og ætla stelpurnar að setja markið á hálfmaraþonið þar. Ég hef ákveðið að taka 5km (enda óendanlega mikið af brekkum þar í bæ...)

Hlaupaferðalaginu er ekki lokið né bloggferðalaginu. Þakka áheyrnina.

P.s. okkur tókst að komast í fréttirnar!

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hahahaha, þetta er æðisleg samantekt á frábæru hlaupi!
Takk fyrir virkilega skemmtilega hlaupasamveru á laugardaginn, YES WE DID!

Vestmanneyjar næst - hvenær er hlaupið?

kv. Kristín María

Nafnlaus sagði...

Haha þu ert fyndin frænka :) skemmtileg lesning!
Kv.Bryndis sighvats

Nafnlaus sagði...

Hahaha ég hló upphátt:) Þú ert snillingur!

Elín H.

Sigríður Etna sagði...

Snilld! Þið eruð frábærar. Sé ykkur alveg fyrir mér;)