föstudagur, ágúst 03, 2012

Íþróttameiðsl

Tilraun 3 í leiðinni að tíu kílómetrunum. Skórnir eru reimaðir á, túnfisksalatið komið nógu langt niður meltingaveginn, sólin skín í heiði og ekkert því til fyrirstöðu að hefja hlaupið. Markmiðið er þrír kílómetrar.

Konan í i-símanum minnir mig reglulega á hvað ég er komin langt og á hvaða hraða ég hleyp. Það eina sem pirrar mig eru gleraugun sem renna reglulega niður smettið á mér og æ oftar eftir því sem ég svitna meira. Heyrnatólin virðast líka ætla að falla í pirringsflokkinn með gleraugunum. Er vinstra eyrað á mér stærra en það hægri? Af hverju haldast þau aldrei vinstra megin? Bubbi er á fóninum með eitthvað væl að vestan. Ennþá meiri pirringur. Konan segir mér að nú hafi ég hlaupið einn kílómeter sem er 0,75 meira en markmiðið sem ég setti í upphafi. Ansk... verð að fara að læra á þetta hlaupaprógram.

Núna renna glaraugun niður, heyrnatólið dettur úr stóra eyranu vinstra megin, Bubbi er að gera mig geðveika og konan í i-símanum hættir ekki að röfla. Ég ætla mér að laga allann pirringinn í einum hendingi. Treð heyrnatólinu í eyrað, laga gleraugun, slekk á konunni og skipti um lag allt á sama tímanum. Það vildi ekki betur til en að hægri ökklinn tók í taumana, beyglaði sig aðeins og henti mér á grjóthart malbikið.


Buguð en ekki sigruð held ég þó áfram hlaupinu og klára 4,5 kílómetra svo til í heilu lagi að undanskildum nokkrum skrámum á líkama og heldur dýpri sárum á stolti.

Frí í dag, enda mjaðmirnar á mér eins og á gamalli konu og sviði í skrámunum. Vá. Langt síðan að ég hef verið með svona íþróttameiðsl. Þetta er gaman!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Lýst ekkert á íþróttameiðslin en þetta hlýtur að lagast :) En hvernig gengur með nammiminnkunina ég hef mestan áhuga á því? :) gangi þér vel og ég er ekki frá því að ég verði farin að hlaupa stuttu eftir fæðingu hjá mér haha þú gefur mér svo mikinn innblástur!! Kv Valgerður