fimmtudagur, maí 30, 2013

Á leiðinni heim

Síðasti dagurinn í New York. Ég byrja daginn á að elda egg í morgunmat og brenna mig á bringunni með pönnunni. Byrja að pakka en átta mig á því að ferðataskan er föst uppi í skáp. Næ henni út með herkjum en það stórsér á töskunni og aumingja hillan fékk útreið líka. Hendi í töskuna og nenni ekki meiru. Skelli mér út í 27 stiga hitann og svitna eins og mér einni er lagið. Geng búða á milli í paniki því ég er að fara. Mig vantar ekkert en samt er ég að leita að öllu. Finn loksins popppoka í Old Navy sem kostar fimm dollara og svalar kaupþörfinni minni. Bíð í röð í tíu mínútur til að kaupa poppið, geng út og opna það. Kemur á daginn að það er óbragð af poppinu, enda fatabúðir ekki þekktar fyrir að framleiða gæðapopp. Ákveð að fara heim, skila kerrunni og skella mér með lestinni á 34 götu því þar eru fleiri búðir sem ég get keypt ekkert.

Í svitakasti komumst við leiðar okkar og náum að kaupa vatn hjá Pretzel sala. Göngum um eins og sardínur í dós, enda brjálæðislega mikið af fólki á þessar þekktu verslunargötu. Eftir heimsóknir í HogM, Forever og Strawberry ákveð ég að vera skynsöm, sleppa því að versla og taka lestina heim. Geng alla leið niður að teinunum þar sem að lest nr 1 fer og kemur þá í ljós að hún hafi farið út af teinunum og því væri seinkun. Fer út úr þessari lestarstöð og borga mig inn aftur hjá B lestinni. Hún er á tíma og ennþá á teinunum og ég skelli mér inn. Sest á tyggjó og er nær föst við sætið enda í óheyrilegu svitakasti. Næ að koma mér út á W4 götu og ég sé að fólk finnur til með mér. Ég bít á jaxlinn og geng heim með tyggjó á rassinum og barnið á maganum.

Kem heim og sé að ég hafi gleymt kúkableyjunni á borðinu í steikjandi hita. Lyktin finnst fram á gang. Ég byrja að þrífa og losna loksin við lyktina eftir skúringar nr 3. Ég baða barnið og kem því í ró. Loka ferðatöskunum og vona að ég hafi tekið mest allt með heim. Slekk ljósin og tel klukkutímana í flugið sem vonandi gengur vel þrátt fyrir eyrnabólgu drengsins.

Mín bíður heil helgi af Síkátum Sjóurum sem taka vel á móti mér þótt ég sé með tyggjó á rassinum og grenjandi barn.

Bless í bili New York, Grindavík þú ert næst!

þriðjudagur, maí 14, 2013

Hinrik

Kamilla skríður eins og hún eigi lífið að leysa, Óskar fylgir fast á eftir henni og nær henni fyrir rest. Skellir einu góðu "aaaaa" á höfuðið á henni en er því miður ekki nógu blíður og prinsessan rekur upp skaðræðisóp. Við það beina allir athyglinni að skæruliðunum og skerast í leikinn. Þegar ég lít tilbaka sé ég bregða fyrir svartri fjórfætlu á fleygiferð meðfram veggnum hjá sjónvarpinu. Ég læt sem ég hafi ekki séð þetta, enda óhugsandi að það sé komin mús í heimsókn svona þegar að gestir eru í heimsókn.

Ég lifi í blekkingu í einn dag enn og ligg á gólfinu með skæruliðunum og reyni að kenna frumburðinum að hætta að pína litlu frænku, sem gengur ekki neitt. Er ég sit með höndina á Kamillu og segi "aaaaa" sé ég fjórfætluna hlaupa þvert yfir íbúðina, bíræfnin í henni! Ég gat ekki leynt þessu lengur og sagði rólega, "það er mús hérna inni". Ég mátti vita betur. Margrét setur Íslandsmet í hástökki, Helgi ákveður að hann sé líka hræddur við mýs og skæruliðarnir skynja hættu. Öskur og aðeins hærri öskur og Margrét og Helgi þeytast út. Dyravörðurinn veit ekki hvað sé eiginlega í gangi og skundar í áttina til okkar. Skæruliðarnir eru skriðnir út og Didda situr ein eftir greyið og reynir að fanga kvikyndið. Dyravörðurinn er nú búinn að hlægja að okkur og segir mér að fara bara niður og sækja nokkar gildur sem ég og geri.

Við gildrum íbúðina í bak og fyrir og bíðum átekta. Ekkert bólar á músinni sem nú hefur fengið nafnið Hinrik, en Helga fannst hún eitthvað Hinriksleg. Dagur er að kveldi kominn og við göngum til hvílu. Allir sofa vært þegar að sérkennileg hljóð berast úr eldhúsinu. Ég vek húsbóndann með þessum orðum, Magnús -það er eitthvað í eldhúsinu. Magnús hrekkur í kút og svarar, ha er einhver í eldhúsinu? Áður en ég veit er hann farinn með símann að vopni í leit að einhverjum í eldhúsinu og vona að hann átti sig á því að hann sé að leita að mús en ekki manneskju...

Hinrik er lítt gefinn fyrir ljós og hættir leik sínum þegar að Magnús lýsir símanum í átt að skápnum sem hljóðið kemur úr. Um leið og það dimmir tekur Hinrik upp leik á ný. Ekki tókst bóndanum að fanga Hinrik í þetta sinn og svona gengur þetta nótt eftir nótt. Hinrik leikur sér hér og þar um íbúðina á nóttunum en sést hvergi nema einu sinni annan hvern dag á daginn. Hann skilur ekki eftir sig skít, enda um mikla heiðursmús að ræða.

Bóndakonan Didda lætur smá mús ekki hafa áhrif á sig, nema hana klægar í puttana að ná helvítinu, eins og hún orðar það. Margrét er hins vegar svefnlaus og mun nýta sér jógatæknina sem felst í sér slökun sem er á við átta tíma svefn. Helgi er fljótur að gleyma og á meðan að Hinrik sé ekki nefndur nær hann svefni og keyrir bílunum um öll gólf.

Nú skellur á nótt númer sex og er smá tilhlökkun í mér að vita hvað Hinrik tekur upp á í nótt.

Með kveðju frá Christopher götu,
Ólöf, Magnús, Óskar, Margrét, Helgi, Didda, Kamilla og nýjasti íbúinn Hinrik.