þriðjudagur, október 15, 2013

Músavaktin

Ég sit á rassinum og horfi á tómt gólfið sem áður hafði hýst ferðatöskur gestanna. Íslenska nammið gjörsamlega búið og kaloríufjöldi síðustu viku -jafnvel mánaða löngu sprunginn. Ákveð að refsa mér í nýju ræktinni sem var að opna á götuhorninu. Eitthvað hefur mér fundist kálfarnir hafa fitnað óvenjulega yfir sumartímann þar sem ég geri balletæfingar á tánum eins og enginn sé morgundagurinn. Fer sátt að sofa um kvöldið enda strengirnir mættir á svæðið og sviðinn er góð tilfinning.

Ég veltist um í rúminu og næ ekki að festa svefn. Sest óvart upp í rúminu og kem auga á músarhelvítið sem hefur strítt okkur síðastliðinn mánuðinn. Þessi mús er klárari en hinar og virðist ekki vilja gildurnar okkar góðu. Ég hristi eiginmanninn þar til hann vaknar og sendi hann í könnunarleiðangur að finna músina kláru. Við sjáum hana hlaupa í eitt hornið og króum hana af. Maggi telur músina hafa komist undan en ég grátbið hann að ýta við hillu í hjarta hornsins. Viti menn, músin stekkur upp með þeim afleiðingum að eiginmaðurinn stekkur lengra upp sem kom þar af leiðandi af stað keðjuverkun sem gerði það að verkum að ég hendist upp í loft og enda í rúminu öskrandi af hræðslu en einnig vegna verkja því í stökkinu virðist sem kálfurinn góði sem fékk að finna fyrir því fyrr um daginn hafi tognað, ef ekki rifnað.

Músin komst undan, eiginmaðurinn hættur að taka þátt í þessari dauðaleit með mér og ég engist um af sársauka. Nokkrum mínútum síðar er Maggi kominn í draumaheim með tilheyrandi hrotum en ég sit eftir í sárum mínum og stari á íbúðina í leit að músarhelvítinu. Rétt fyrir dagsbirtingu heyri ég svo ægileg hljóð inni í eldhúsi. Eitthvað mikið gengur á hjá músinni kláru og ég hunsa beiðni Magga um að leyfa sér að sofa og sendi hann fram í eldhús að athuga nánar. Í þetta skipti sit ég eftir í rúminu þar til hættan er liðin hjá. Kemur á daginn að músin var orðin eitthvað svöng og var byrjuð á Cheerios pakkanum hans Óskars. Sveiattan!

Húsbandið brunaði svo eitthvert út á land til vinnu og ég haltra um Manhattan í leit að tækjum og tólum til hefndar. Mér líður eins og Kevin í Home Alone sem bíður eftir bófunum, yfirvegaður rólegur. Ég er komin með gildru í hvert horn og eitur þar að auki. Mér skal takast að fanga músarhelvítið.

Nú fer ég að slökkva ljós og sjónvarp og bíð átekta.