mánudagur, desember 20, 2010

Þá er komið að því...

...síðasta blogið í ferðalaginu! Í kvöld leggjum við í tuttuguogeitthvað tíma flug frá Sydney til London með smá stoppi í Dubai. Þaðan verður svo farið frá Heathrow til Gatwick og síðan beðið í 13 tíma þar til að við tökum enn aðra flugvél, en í þetta sinn til Svíþjóðar þar sem ég verð í tólf tíma áður en ég kemst loksins heim.

Þetta er að sjálfsögðu planið fyrir ófyrirséðar aðstæður. Það er víst allt í kaos í London vegna snjókomu og ef að ekki er flogið þangað... þá er það hugsanlegt að jólin verði eydd á flugvellinum í Dubai (snökt snökt). En Pollýanna neitar að trúa að veðurguðirnir ætli að stríða henni núna og leggst á bæn að vélin fái að lenda í London og að vélin fari frá London til Stokkhólms!

En ég kveð þennan hluta heimsins með gleði í hjarta, smá gat á veskinu og óteljandi minningar sem eiga svo sannarlega eftir að hlýja mig í myrkrinu í janúar. Þessi helgi hefur einnig verið sérstaklega góð því ég fékk að eyða þremur heilum dögum með henni Ingibjörgu minni alveg alein!

Við sendum strákana til Melbourne á föstudaginn, keyptum osta, súkkulaði og vín og nutum sólarblíðunnar á svölunum þar sem við horfðum á sólina setjast, hituðum upp fyrir Bon Jovi og skypuðum fólk sem nennti að tala við okkur á Íslandi! Á laugardaginn fórum við svo í tvær búðir að máta brúðarkjóla (já við erum gamlar I KNOW!) en ég hélt að ég myndi deyja úr hlátri við að sjá æskuvinkonu mína, sem klæddi sig í stígvél og hallærisleg íþróttaföt með mér í gamla daga, uppáklædda í gullfallegan brúðarkjól, en það sem var svo skrýtið var að það var eins og hún hefði aldrei gert annað en að sýna brúðarkjóla -svo falleg brúður! Eftir það var leitað að jólunum í hjartanu okkar með því að versla jólagjafir og horft á bíómyndir með nammi á kantinum (ef að það öskrar ekki jólin þá veit ég ekki hvað!)

Í gær fórum við svo á tónleikana sem stóðu sko algerlega undir nafni en það er erfitt að lýsa tilfinningunni sem maður upplifir þegar að maður sér stórstjörnu slá í gegn á sviði... reyndi að taka upp vídjó á fullu en er ansi hrædd um að þau verði ekki sett á almennan markað sökum þess að ég er gersamlega öskrandi með öllum lögunum og slíkt skyldi aldrei leggja á fólk!

En núna er ég farin að leita að síðustu jólagjöfunum, fá mér hádegismat og njóta lífsins áður en að flugvallageðveikin gengur í garð.

Þakka áherynina í þessari ferð -ég er pottþétt komin með bloggdelluna upp á nýtt þökk sé ykkur.

Ólöf kveður hinum megin við hnöttinn, sjáumst vonandi fyrir jólin!

fimmtudagur, desember 16, 2010

On the road again...

Enn og aftur er ég komin á nýjan áfangastað, eða réttara sagt gamlan nýjan áfangastað. Já þið gátuð rétt, ég er komin til Sydney til minnar ástkæru Ingibjargar sem mætti eldsnemma á sunnudagsmorgun síðasta upp á flugvöll að sækja okkur. Eins og vaninn er hjá mér, þá fylgir nýjum áfangastöðum nýtt blogg!

Seinna ferðalagið um suðureyju Nýja Sjálands heppnaðist vel í alla staði. Við náðum að tjalda tjaldinu án teljandi vandræða og vöknuðum á réttum tíma til þess að mæta í kayak-kynninguna góðu. Þar lærðum við að stjórna kayaknum sem við ætluðum að leigja í tvo daga, í ólgusjó, hvernig við ættum að komast upp úr honum ef að svo illa vildi til að við myndum velta og hvernig við ætttum að komast ofan í hann aftur og í síðasta lagi ef að það virkaði ekki, hvernig ætti að skjóta upp viðvörunarblysi.

Nú, eins og þið eruð líklega að hugsa þá hringdu nokkrar viðvörunarbjöllur í hausnum á mér eins og gengur og gerist þegar að maður hugsar fram í tímann -einn kayak, einn Íslendingur, einn Svíi, eitt tjald og eitt risastórt haf! Eeeen ég ákvað að vera hugrökk og kveikti á öllum athyglisgáfunum í líkamanum og límdi þessar leiðbeiningar kayak-mannsins inn í kerfið hjá mér. Ferðin byrjaði vel og farið var eftir sjókortinu góða og siglt meðfram firðunum, inn á eyjur að skoða seli og sólað sig á fallegum ströndum. Það var rólegt í sjóinn og sólin skein eins og henni einni er lagið. Sem betur fer var sólarvörnin með í ferð, en því miður týndi ég sólgleraugunum þegar ég var svo spennt að mynda mömmusel með litlu selabörnin sín á einni eyjunni. Um miðjan daginn vorum við svo komin á tjaldsvæðið sem við höfðum bókað deginum áður (en maður þarf víst að bóka fyrirfram til þess að fólkið viti hvort að maður hafi týnst eða ekki!). Þar tjölduðum við, fórum í göngutúr og elduðum okkur forhitað pasta með kartöfluglögum og biðum eftir að sólin settist svo við gætum horft á stjörnurnar.

Það hafði ekki rignt í Abel Tasman í átta vikur, en næsta dag ákváðu veðurguðirnir að stríða okkur kayakfólkinu með hellidembu og roki. Við vöknuðum og pökkuðum saman áður en að veðrið skall á og vorum rétt komin út fyrir fjörðinn þegar að okkur leist ekki á blikuna, háar öldur, rigning og rok. Nú fór allt sem kayak-maðurinn hafði sagt okkur að rifjast upp og ég í smá móðursýkiskasti segi Magga að snúa við á næstu strönd og bíða veðrið af okkur. Magga til mikilla ama (sem öskraði vúhú þegar við klesstum inn í öldurnar og fannst þetta hin besta skemmtun) sneri hann kayaknum við og við rérum áleiðis á ströndina þar sem við biðum í góðan hálftíma áður en við héldum áfram. Svona gekk þetta allan daginn, við rérum smá og hvíldum okkur í næsta skjóli. Ég hef sjaldan verið eins glöð og þegar að vatnaleigubíllinn sótti okkur á endastöðinni og kom okkur í land!

Næsta dag var svo haldið áfram til Blenheim þar sem við leigðum okkur reiðhjól og skoððum vínekrur með tilheyrandi smakki. Ég veit ekki hvort að nýsjálenskir veðurfræðingar fari í sama skóla og þeir íslensku en við bjuggumst við 25 stiga hita og sól en enduðum á því að hjóla um í rigningu og roki, sem gerði stoppin þess heldur áhugaverðari.

Síðasti leggur ferðarinnar var svo í gegnum Kaikoura þar sem við sáum enn fleiri seli og höfrunga að leik. Knox fjölskyldan tók svo á móti okkur í Christchurch þar sem við fengur fullt gott að borða og svona til þess að undirstrika gestrisnina hjá þessu fólki þá vaknaði fjölskyldufaðirinn um miðja nótt til þess eins að skutla okkur ferðalöngunum á flugvöllinn! Malcom, Judy, Sara og Kiwi ef þið lærið einhvern tímann íslensku -takk fyrir okkur!

Nú erum við að njóta síðustu daganna í Sydney áður en við höldum heim fyrir jólin. Ég veit að Ingibjörg verður leið að sjá okkur fara, en ekki eins leið og moskítóflugurnar sem hljóta að vera skilgreindar sem offitusjúklingar eftir að hafað nartað í mig síðustu nætur...

Á morgun fer Maggi til Melbourne með David þar sem þeir eru að fara í þrítugsafmæli vinar hans Davids og á meðan ætlum við Ingibjörg að hafa osta og vínkvöld, fara í fancy-lunch og máta brúðarkjóla, versla jólagjafir, skella okkur út á lífið og... wait for it... FARA Á BON JOVI TÓNLEIKA!

Bið ykkur vel að lifa
Lafan out

sunnudagur, desember 05, 2010

Jæja góðir hálsar... vil biðjast velvirðingar á seinlegum pistli, en það er bara búið að vera of gaman að vera til!

Síðan að ég settist við tölvuborðið síðast hefur margt gerst og ég hef meðal annars fært mig um set til Nýja Sjálands þar sem ég er nú stödd.

Vínsmökkunarferðin í Ástralíu með nýtrúlofaða parinu var sko ekkert slor og eins og sönnum vínaðdáendum sæmir byrjuðum við daginn á því að fá okkur morgunmatsvín í boði hússins og horfðum á kengúrurnar skoppa um á engjunum í morgunsólinni. Síðan voru um 4 vínekrur heimsóttar, óteljandi vín smökkuð og enn fleiri flöskur keyptar. Einhver heppinn fær skemmtilega jólagjöf frá mér þetta árið haha!

Eftir þá skemmtilegu helgi skunduðum við hjónaleysin yfir til Nýja Sjálands þar sem að góðvinur okkar Kiwi Beats tók á móti okkur í Christchurch með bros á vör. Hann byrjaði á því að sýna okkur byggingarnar sem skemmdust í jarðskjálftanum í september, en fyrir þá sem ekki fylgjast með fréttum erlendis frá þá reið yfir jarðskjálfti hér upp á 7.1 á richter skalanum en furðulega fá hús hrundu og enginn slasaðist alvarlega! Eins og við mátti búast af Nýsjálendingnum þá var farið með okkur fyrsta kvöldið á local-pöbbinn og bjórinn smakkaður. Síðan skelltum við okkur til Akaroa sem er 45 mínútur frá Christchurch og fengum okkur fish and chips og röltum um. Á laugardeginum vorum við svo búin að leigja okkur húsbíl hjá fyrirtæki sem heitir Jucy og skelltum við okkur í 5 daga road tripp með landakortið að vopni og sáum meðal annars mörgæsir, seli, albatrossa, fjöll og fyrnindi (byrjuðum að fara til Dunedin að sjá Kiwi keppa í fótbolta, síðan héldum við áleiðis til Milford Sound og þaðan til Queenstown). Ég var enn og aftur plötuð í margra klukkutíma gönguferðir, 4 tíma kayakferðir og hálfs dags hjólaferð (líður stundum eins og ég sé í the biggest looser haha).

Til þess að láta þennan pistil ekki hljóma eins og hina verstu upptalningu þá verð ég að nefna nokkur atriði sem stóðu upp úr þessari húsbílaferð.

-Vegurinn til Milford Sound var eins og klipptur út úr Lord of the Rings (sem var að hluta tekin upp þar)
-Á leiðinni stoppuðum við til þess að fara í smá göngu en þegar við komum til baka var fugl sem kallast Kea fugl og er mjög sérstakur mættur upp á bílinn hjá okkur og var að borða gúmmíið af toppnum örðum ferðamönnum til mikillar ánægju (en sem betur fer tók Jucy húsbílaleigan ekkert eftir því þegar bílnum var skilað!)
-Í kayakferðinni góðu sem við borguðum morðfjár fyrir var grenjandi rigning og þoka þannig að við sáum ekki helminginn af því sem við áttum að sjá, en fengum óvæntan glaðning þegar að selur nokkur tók upp á því að veiða sér kolkrabba rétt hjá okkur og fylgja okkur nánast alla leið niður fjörðinn
-Í Queenstown leigðum við okkur hjól og létum skutla okkur inn í fallegan dal einungis til þess að við gætum hjólað tilbaka. Ég var kokhraust og alsæl með það hversu hátt okkur var skutlað upp og hélt í einfeldni minni að hjólaferðin yrði héðan í frá öll niður brekkur og ég gæti bara slakað á og notið útsýninsins. Allt kom fyrir ekki og annað eins erfiði hef ég ekki upplifað frá því að maður keppti marga leiki í röð á pæjumótunum í denn.
-Það var þó eitt sem hélt gleðinni inni í mér en það var Magnús nokkur Svíi með meiru sem reyndi að vera gríðarlegur töffari og hjóla alla leiðina upp bröttu brekkuna sem ég teymdi bara hjólið. Honum tekst ekki betur til en það að maðurinn prjónar yfir sig og lendir í fjallshlíðinni í miðjum runnanum og litlu mátti muna að hann færi alla leið og hann þurfti hjálparhönd frá mér til þess að losa sig úr þessari klípu sem hann var kominn í. Eins og mér einni sæmir gat ég því miður ekki aðstoðað hann strax vegna þess að ég var í kasti á jörðinni að reyna að ná andanum.
-Eftir hjólaferðina skelltum við okkur í hjólabíla niður fjall sem endaði vel sem betur fer!

Eftir húsbílaferðalagið fórum við svo aftur til Kiwi og co þar sem hugsað var um okkur eins og kóngafólk eins og það á að vera!

Núna erum við stödd í örðu ferðalaginu, núna um norðurhluta suðureyjarinnar og erum í Abel Tasman þjóðgarðinum þar sem við ætlum að tjalda yfir nótt og halda svo áfram inn í þjóðgarðinn á morgun í kayak og vera í eina nótt með kayak og tjald að vopni inni í miðri náttúrunni!

Verð duglegri að blogga næst, farin að tjalda og horfa á sólina setjast.

Knús og kossar heim!