fimmtudagur, desember 16, 2010

On the road again...

Enn og aftur er ég komin á nýjan áfangastað, eða réttara sagt gamlan nýjan áfangastað. Já þið gátuð rétt, ég er komin til Sydney til minnar ástkæru Ingibjargar sem mætti eldsnemma á sunnudagsmorgun síðasta upp á flugvöll að sækja okkur. Eins og vaninn er hjá mér, þá fylgir nýjum áfangastöðum nýtt blogg!

Seinna ferðalagið um suðureyju Nýja Sjálands heppnaðist vel í alla staði. Við náðum að tjalda tjaldinu án teljandi vandræða og vöknuðum á réttum tíma til þess að mæta í kayak-kynninguna góðu. Þar lærðum við að stjórna kayaknum sem við ætluðum að leigja í tvo daga, í ólgusjó, hvernig við ættum að komast upp úr honum ef að svo illa vildi til að við myndum velta og hvernig við ætttum að komast ofan í hann aftur og í síðasta lagi ef að það virkaði ekki, hvernig ætti að skjóta upp viðvörunarblysi.

Nú, eins og þið eruð líklega að hugsa þá hringdu nokkrar viðvörunarbjöllur í hausnum á mér eins og gengur og gerist þegar að maður hugsar fram í tímann -einn kayak, einn Íslendingur, einn Svíi, eitt tjald og eitt risastórt haf! Eeeen ég ákvað að vera hugrökk og kveikti á öllum athyglisgáfunum í líkamanum og límdi þessar leiðbeiningar kayak-mannsins inn í kerfið hjá mér. Ferðin byrjaði vel og farið var eftir sjókortinu góða og siglt meðfram firðunum, inn á eyjur að skoða seli og sólað sig á fallegum ströndum. Það var rólegt í sjóinn og sólin skein eins og henni einni er lagið. Sem betur fer var sólarvörnin með í ferð, en því miður týndi ég sólgleraugunum þegar ég var svo spennt að mynda mömmusel með litlu selabörnin sín á einni eyjunni. Um miðjan daginn vorum við svo komin á tjaldsvæðið sem við höfðum bókað deginum áður (en maður þarf víst að bóka fyrirfram til þess að fólkið viti hvort að maður hafi týnst eða ekki!). Þar tjölduðum við, fórum í göngutúr og elduðum okkur forhitað pasta með kartöfluglögum og biðum eftir að sólin settist svo við gætum horft á stjörnurnar.

Það hafði ekki rignt í Abel Tasman í átta vikur, en næsta dag ákváðu veðurguðirnir að stríða okkur kayakfólkinu með hellidembu og roki. Við vöknuðum og pökkuðum saman áður en að veðrið skall á og vorum rétt komin út fyrir fjörðinn þegar að okkur leist ekki á blikuna, háar öldur, rigning og rok. Nú fór allt sem kayak-maðurinn hafði sagt okkur að rifjast upp og ég í smá móðursýkiskasti segi Magga að snúa við á næstu strönd og bíða veðrið af okkur. Magga til mikilla ama (sem öskraði vúhú þegar við klesstum inn í öldurnar og fannst þetta hin besta skemmtun) sneri hann kayaknum við og við rérum áleiðis á ströndina þar sem við biðum í góðan hálftíma áður en við héldum áfram. Svona gekk þetta allan daginn, við rérum smá og hvíldum okkur í næsta skjóli. Ég hef sjaldan verið eins glöð og þegar að vatnaleigubíllinn sótti okkur á endastöðinni og kom okkur í land!

Næsta dag var svo haldið áfram til Blenheim þar sem við leigðum okkur reiðhjól og skoððum vínekrur með tilheyrandi smakki. Ég veit ekki hvort að nýsjálenskir veðurfræðingar fari í sama skóla og þeir íslensku en við bjuggumst við 25 stiga hita og sól en enduðum á því að hjóla um í rigningu og roki, sem gerði stoppin þess heldur áhugaverðari.

Síðasti leggur ferðarinnar var svo í gegnum Kaikoura þar sem við sáum enn fleiri seli og höfrunga að leik. Knox fjölskyldan tók svo á móti okkur í Christchurch þar sem við fengur fullt gott að borða og svona til þess að undirstrika gestrisnina hjá þessu fólki þá vaknaði fjölskyldufaðirinn um miðja nótt til þess eins að skutla okkur ferðalöngunum á flugvöllinn! Malcom, Judy, Sara og Kiwi ef þið lærið einhvern tímann íslensku -takk fyrir okkur!

Nú erum við að njóta síðustu daganna í Sydney áður en við höldum heim fyrir jólin. Ég veit að Ingibjörg verður leið að sjá okkur fara, en ekki eins leið og moskítóflugurnar sem hljóta að vera skilgreindar sem offitusjúklingar eftir að hafað nartað í mig síðustu nætur...

Á morgun fer Maggi til Melbourne með David þar sem þeir eru að fara í þrítugsafmæli vinar hans Davids og á meðan ætlum við Ingibjörg að hafa osta og vínkvöld, fara í fancy-lunch og máta brúðarkjóla, versla jólagjafir, skella okkur út á lífið og... wait for it... FARA Á BON JOVI TÓNLEIKA!

Bið ykkur vel að lifa
Lafan out

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

...hahaha...vá, þvílíkt ævintýri :D

Ég hefði c.a. farið að hágrenja þarna einhversstaðar á leiðinni og leyft veðurguðunum að eiga mig með húð og hári þarna úti á ólgusjó...haha... :D

Góða skemmtun sætilíngur ;*

Kveðja
Eva Björk

Nafnlaus sagði...

Ó mæ god!!!
Bon Jovi.... viljiði hugsa til mín þegar þeir taka Always... og kannski fella eins og eitt tár..
það sem ég gæfi til að eiga osta-rauðvínskvöld með ykkur!
ást alla leið til ykkar þarna down under :*
dúnus

magga sagði...

nauuuu Bon Jovi??? djöfull verður gaman hjá ykkur ;D Þið verðið að hringja í okkur allar hinar!!