sunnudagur, desember 04, 2011

Bónorð í Borginni

Það var venjulegur föstudagur. Allt gekk sinn gang. Heimasætan vaknaði snemma við vekjaraklukku húsbóndans en sneri sér jafnskjótan við á hina hliðina og hélt fegurðarblundi sínum áfram. Húsbóndinn snaraði sér í jakkafötin, tók lestarkortið sitt, tölvuna sína og gekk út í daginn stóra. Sólargeislarnir héldu áfram að rísa þar til að þeir voru komnir óþægilega nálægt andliti heimasætunnar svo hún neyddist til þess að fara fram úr. Hún staulaðist á fætur og gekk fjögur skref í átt að klósettinu, þurrkaði stírurnar úr augunum og leit á klukkuna, hálf tólf! Hún hafði alls ekki ætlað sér að sofa svona lengi og bölvaði leti sinni. Hún hóf því samviskubitið þrif á íbúðinni sem tók akkúrat tuttugu mínútur sökum stærðar íbúðarinnar. Þvotturinn var tilbúinn, það er að segja að þvottinum hafi verið safnað saman í bláan Ikea poka og var hann tilbúinn til flutnings á kínvesku þvottastöðina. Sökum þess hversu utan við sig heimasætan gat verið setti hún bláa Ikea pokann upp við útidyrahurðina svo hún myndi nú örugglega muna eftir því að taka hann með sér á leiðinni út.

Við þessar pælingar fékk hún skilaboð í símann sinn um að hitta húsbóndann í hádegismat í miðborginni. Við það veðraðist hún öll upp, skellti sér í sturtu, klæddi sig í fínu bleiku hettupeysuna og grænu strigaskóna, fann lestarkortið sitt, klofaði pent yfir Ikea pokann góða og skellti sér í B lestina sem fór á 42.götu þar sem að stefnumótið átti sér stað. Hún elskaði að klæða sig í liti þegar að hún átti leið um þetta jakkafatahverfi, bara svona til þess að nudda því upp í vinnandi fólki að hún ætti frí þennan daginn.

Hún hitti húsbóndann og saman fengu þau sér dýrindis burrítu áður en að hann þurfti aftur til vinnu. Hún hélt ævintýraförinni áfram, skellti sér á Tímatorgið góða þar sem að hún horfði á maurana úr fjarlægð, magnað hvað margir komast fyrir á svona litlu torgi. Algerlega grunlaus skundaði hún heim til sín, bölvaði gleymskunni og Ikea pokanum, hlammaði sér í sófann og rúntaði á milli sjónvarpsstöðva. Húsbóndinn mætti heim, óvenju kátur en heimasætan hélt að það væri bara vegna þess að það væri föstudagur. Hún var varla búin að sjá úrslitin úr Amerísku módelkeppninni þegar að húsbóndinn opnar tvo bjóra, tekur tölvuna sína og stingur upp á því að þau myndu horfa á sólina setjast yfir borginni góðu uppi á húsþaki hjá þeim.

Heimasætan nennir því engan veginn, enda loksins búin að finna stellingu í sófanum en ákveður að skella sér með, vefur teppið utan um sig, hoppar í ullarinniskó húsbóndans og eltir hann upp. Saman horfa þau á sólina syngja sitt síðasta þennan daginn og komast ekki yfir fegurð bogarinnar sem þeim þykir svo vænt um. Húsbóndinn er með sérkennilegan lagalista tilbúinn og heimasætunni þykir tónlistarvalið heldur væmið fyrir ekki stærra tilefni en bjórsopa uppi á þaki en ákveður að vera ekkert að minnast á það.

Er hún lítur yfir borgarljósin kvikna virðist húsbóndinn fá eitthvað í hnéð og hún lítur á hann. Þarna er hann á hnjánum með demantshring í boxi og biður hana að giftast sér. Heimasætan kafnar næstum því í bjórsopanum, heldur um augun á sér og spyr hvort það sé ekki í lagi með hann, hún hlær, hún tárast, hlær aðeins meira og spyr aftur hvað hann sé eiginlega að gera. Nokkrum vandræðalegum andartökum seinna tekur hún utan um hann og hlær ennþá meira. Húsbóndinn bendir henni kruteisislega á að hún hafi ekki gefið honum svar en hún játti því að sjálfsögðu og ennþá magnaðist hláturinn.

Svo var hringt í foreldra og systkyn og þeim færðar fréttirnar áður en að haldið var út að borða. Þaðan fór nýtrúlofaða parið að skála fréttunum með nokkrum vinum áður en að húsbóndinn kom henni enn á óvart með því að bóka hótelnótt á Waldorf Astoria hótelinu á Park Avenu.

Gifting hefur ekki verið ákveðin ennþá en sögur segja að Ísland verði fyrir valinu þarnæsta sumar...