sunnudagur, október 28, 2012

Hrekkjavaka og hvirfilbylur

Fyrir ári síðan var ég uppáklædd sem skatturinn, í jakkafötum með 37% skattaglasið sem ég bað hrekkjavökugesti að fylla 37% af því sem þeir voru að drekka. Í ár var ég uppáklædd sem sú gamla kona sem ég er orðin. Ég er nú orðin þrítug og tími til kominn að sætta sig við staðreyndir málsins. Við New York fjölskyldan vorum aðeins of íslensk í tímasetningu og fórum á laugardegi á röltið um hrekkjavökubúðir New York borgar. Raðir út um allt og kaupóðir borgarbúar voru ekki að samþykkja íslensk-sænska liðið með kerruna sem tók hálfan ganginn. Við nenntum því ekki að bíða í röðinni þar sem að búningarnir voru seldir heldur fórum beint í fylgihlutaganginn og fundum húfu, smekk, bleiu og snuð -fyrir Magnús og gráa hárkollu fyrir mig. Óskar greyið þurfti að dressa sig upp sem sjóliði enn og aftur þar sem að röðin í barnabúningana var jafn löng.

Við hentum okkur í búningana, skelltum einum gylltum niður og mönuðum okkur í það að fara út og veifa leigubíl. Óskar var í bílstólnum sem Magnús hélt á og spurðu ansi margir okkur hvort að þetta væri alvöru barn...
Við svöruðum með því að ansi margt væri til í New York, en varla barnaleiga. Loks stöðvaði hugrakkur bílstjóri og keyrði okkur á staðinn sem partýið fór fram. Við mættum snemma og fórum snemma en feðgarnir fengu verðskuldaða athygli.
Það sem sló mig mest var hins vegar misskilningur minn um búninga sem slíka. Ég er elltaf að reyna að vera fyndin og gamla konan fannst mér algerlega hitta í mark. Í partýinu var þemað hins vegar #reynumaðgeraalltsemviðgetumtilaðglennast og þegar að stelpan í býflugnamúnderingunni spurði mig hvað ég væri eiginlega var mér hætt að lítast á blikuna. Fleiri spurningum í þá áttina var svo beint að mér þegar að fleiri glennur mættu og fór ég þá í fýlu og vildi fara heim.
Þegar heim var komið spurði einn íbúanna hvort við vissum hvort að byggingin okkar tilheyrði svæði A eða B. Við vissum ekkert um það en spurðum hvers vegna. "Vegna þess að svæði A þarf að rýma fyrir fellibylnum Sandy". Við kveiktum því á fréttunum og viti menn, rýmingaáætlun fyrir svæði A í fullum gangi fyrir Sandy sem er væntanleg á mánudag eða þriðjudag. Í morgun fengum við svo að vita að við erum einni götu frá svæði A, erum sem sagt á svæði B og þurfum ekki að rýma. Magnús þurfti að fara fyrr til Chicago vegna þess að öllum flugum hefur verið aflýst á morgun og því sitjum við mæðgin hér ein og bíðum komu fellibylsins. Við erum búin að vera okkur úti um vatn, mat og annað sem við þurfum ef að við innilokumst í einhvern tíma. Ég á kerti og góða skapið og bý að mikilli reynslu af óveðrum á Íslandinu góða. Nú er bara að bíða og vona a Hudson áin flæði ekki og að niðurföllin geri sitt. Læt nokkrar myndir fljóta af ánni góðu og vona að ég fái tækifæri til að blogga um gang mála.




Guð blessi New York.

þriðjudagur, október 23, 2012

Þvottadagur

Þótt það sé ekkert nýtt fyrir mér að þvo þvott þá tel ég þvottadaginn minn fyrir helgi sem nýja reynslu og þar af leiðandi afsökun fyrir bloggi (þið ykkar sem eruð viðkvæm fyrir upplistun ómerkilegra atburða í lífi annars fólks er bent á x-takkann í horninu).

En eins og þið hafið sennilega ímyndað ykkur og séð í sjónvarpinu þá eru flestar íbúðir hérna í stórborginni þvottavélalausar. Sumar byggingar búa svo vel að vera með þvottahús í kjallara eða farið er með þvottinn í svokallað laundromat eða á þvottahús þar sem þvottinum er skilað inn og hann sóttur seinna þrifinn og brotinn saman. Hérna í byggingu 165 á Christopher götu er þvottahús í kjallaranum, við hliðina á skrifstofu húsvarðarins Fernando. Gegn vægu gjaldi er hægt að koma tveggja vikna þvotti í eina alvöru ameríska þvottavél og þurrka þetta svo allt saman, eitthvað sem móðir mín og ömmur myndu fussa yfir, enda algerlega á skjön við það sem kennt er í Húsó.

Þar sem ég er nú grasekkja megnið af vikunni þarf ég að finna mér frumlegar leiðir til þess að fara niður í kjallara með þvottin og barnið. Ég brá því á það ráð að skella barninu í barna-björninn, þvottinum í vagninn og bruna af stað niður lyftuna inn í þvottahús. Þar mættu mér fjölmörg augu, en skrifstofa Fernando var full af kaffilepjandi karlmönnum. Ekki var mér boðið í kaffi, kannski út af vagninum yfirfullum eða barninu sem hékk framan á mér.

Ég vel mér stærstu vélina og byrja að týna inn í hana litaða þvottinn en enda svo á því að henda öllu inn í hana þar sem að Óskar var farinn að vera órólegur og nokkrir karlmenn frá skrifstofu Fernando farnir að fylgjast með mér. Tveir menn koma svo inn í þvottahús í níðþröngum gallabuxum með sléttað hár og plokkaðar brúnir. Núna var ég farin að skilja hvers vegna mér var ekki boðið í kaffi. Þeir heilsa mér, Oh my gosh what a cutie! Ég gerði ráð fyrir að þeir væru að tala um Óskar Fulvio og leyfði þeim að knúsa á honum kinnarnar. Þeir byrjuðu að týna úr þurrkaranum og brjóta saman þvottinn sinn með slíkum fagmannabrag að ég roðnaði. Mig langaði mest til þess að afsaka mig fyrir að hafa hent öllum þvottinum í eina vél en ég fann að þeir dæmdu mig ekki, heldur fóru að tala um stórsniðuga leið til þess að pressa smá krumpu í fötum án þess að taka upp straujárnið -þú hreinlega hengir flíkina á snaga og notar sléttujárnið þitt! Þeir héldu svo áfram að tala um skemmtilegar lausnir og sögðu ef að þú ert með svitarollonbletti í fötunum þínum þá er hægt að spreyja gamlar sokkabuxur með hárspreyi og nudda því á blettinn, hann ætti að hverfa. Síðasta ráðið sem ég fékk frá þeim var hvernig hægt er að sporna við svitablettum, þú straujar (eða sléttar með sléttujárninu þínu) barnapúðri inn í handakrikann á flíkinni og kabúmm, johnson blettir heyra sögunni til!

Ég fór upp í íbúð glöð og kát með að hafa eignast þvottahúsavini og lært heilmikið í leiðinni. Þegar kom að því að fara aftur niður og henda í þurrkarann var ein bleik flík því miður búin að lita nokkara hvítar flíkur en mér til mikillar lukku voru mennirnir farnir og enginn sá þvottamistök mín, didn´t happen!

Ég þakka áherynina í bili, ég heyri í Fernando ryksuga hérna fyrir utan og eitthvað virðist hann vera í stuði fyrir Florence and the Machine því The dog days are over hefur verið á repeat í tíu mínútur. Ætla að skella mér í göngu og mynda Halloween skreytingar sem verða á vegi mínum.

Þangað til næst, lifið heil!


fimmtudagur, október 18, 2012

Mangolia Bakery

Síðasta bloggsyrpa var tileinkuð hlaupaþjálfun minni sem endaði í skrautlegu Reykjavíkurmaraþoni með Valkyrjunum.

Í þetta sinn ætla ég að setja mér markmið, önnur en leiðindahlaup með tilheyrandi óþægindum. Sem grasekkja og móðir í stóra eplinu verð ég að finna mér leiðir til þess að verða ekki vitstola inni í 25 fermetrunum okkar á Christophergötu á Manhattaneyju.

Ég hef því ákveðið að prófa ýmsa hluti í borginni og blogga um reynsluna. Þið ykkar sem ætlið ykkur að fara í frí til borgarinnar eða eruð að flytja, getið notfært ykkur upplýsingarnar sem ég býð upp á og endilega haft samband!


Í dag var markmiðið að prufa bakaríið á Bleecker götu í West Village sem ber nafnið Mangolia Bakery. Ég hafði heyrt fólk tala um ágæti gotterísins og sé oft röð myndast þar fyrir utan sem vakti óneitanlega áhuga minn. Ég setti barnið í burðapokann (barna-björninn, ekki alvöru burðarpoka), lagði kerrunni pent fyrir framan bakaríið, tók alla verðmuni úr kerrunni með mér inn og tróð mér inn á milli annars fyrirferðaminni viðskiptavina. Bakaríið að innan var ekkert sérstakt en ég ákvað að láta það ekkert á mig fá og pantaði mér sítrónu kökusneið og vanillu ostakökusneið og borgaði fyrir það 13 dollara.


Því miður verð ég að viðurkenna að kökusneiðarnar voru ekki peninganna eða aukakílóanna virði -en sem betur fer er allt morandi í litlum sætum kökubúðum sem ég get borið Mongolian Bakery saman við.

Til þess að bæta mér þetta upp fórum við Óskar á Chipotle mexíkóstaðinn góða sem er að finna um gervöll Bandaríkin og eru eins konar Serrano búrrítur á sterum. Áður en ég veit af verð ég orðin hringlótt í framan, en það verður efni í aðra blogg-seríu, ekki satt?



Til þess að vega upp á móti öllu átinu ætla ég að rölta meðfram Hudson ánni á morgun og kíkja á stemninguna í Chelsea Market.

Í gær hitti ég Tye Diggs í búðinni, hvern hittuð þið í búðinni ykkar?

Þangað til næst, Lafan í New York.