sunnudagur, október 28, 2012

Hrekkjavaka og hvirfilbylur

Fyrir ári síðan var ég uppáklædd sem skatturinn, í jakkafötum með 37% skattaglasið sem ég bað hrekkjavökugesti að fylla 37% af því sem þeir voru að drekka. Í ár var ég uppáklædd sem sú gamla kona sem ég er orðin. Ég er nú orðin þrítug og tími til kominn að sætta sig við staðreyndir málsins. Við New York fjölskyldan vorum aðeins of íslensk í tímasetningu og fórum á laugardegi á röltið um hrekkjavökubúðir New York borgar. Raðir út um allt og kaupóðir borgarbúar voru ekki að samþykkja íslensk-sænska liðið með kerruna sem tók hálfan ganginn. Við nenntum því ekki að bíða í röðinni þar sem að búningarnir voru seldir heldur fórum beint í fylgihlutaganginn og fundum húfu, smekk, bleiu og snuð -fyrir Magnús og gráa hárkollu fyrir mig. Óskar greyið þurfti að dressa sig upp sem sjóliði enn og aftur þar sem að röðin í barnabúningana var jafn löng.

Við hentum okkur í búningana, skelltum einum gylltum niður og mönuðum okkur í það að fara út og veifa leigubíl. Óskar var í bílstólnum sem Magnús hélt á og spurðu ansi margir okkur hvort að þetta væri alvöru barn...
Við svöruðum með því að ansi margt væri til í New York, en varla barnaleiga. Loks stöðvaði hugrakkur bílstjóri og keyrði okkur á staðinn sem partýið fór fram. Við mættum snemma og fórum snemma en feðgarnir fengu verðskuldaða athygli.
Það sem sló mig mest var hins vegar misskilningur minn um búninga sem slíka. Ég er elltaf að reyna að vera fyndin og gamla konan fannst mér algerlega hitta í mark. Í partýinu var þemað hins vegar #reynumaðgeraalltsemviðgetumtilaðglennast og þegar að stelpan í býflugnamúnderingunni spurði mig hvað ég væri eiginlega var mér hætt að lítast á blikuna. Fleiri spurningum í þá áttina var svo beint að mér þegar að fleiri glennur mættu og fór ég þá í fýlu og vildi fara heim.
Þegar heim var komið spurði einn íbúanna hvort við vissum hvort að byggingin okkar tilheyrði svæði A eða B. Við vissum ekkert um það en spurðum hvers vegna. "Vegna þess að svæði A þarf að rýma fyrir fellibylnum Sandy". Við kveiktum því á fréttunum og viti menn, rýmingaáætlun fyrir svæði A í fullum gangi fyrir Sandy sem er væntanleg á mánudag eða þriðjudag. Í morgun fengum við svo að vita að við erum einni götu frá svæði A, erum sem sagt á svæði B og þurfum ekki að rýma. Magnús þurfti að fara fyrr til Chicago vegna þess að öllum flugum hefur verið aflýst á morgun og því sitjum við mæðgin hér ein og bíðum komu fellibylsins. Við erum búin að vera okkur úti um vatn, mat og annað sem við þurfum ef að við innilokumst í einhvern tíma. Ég á kerti og góða skapið og bý að mikilli reynslu af óveðrum á Íslandinu góða. Nú er bara að bíða og vona a Hudson áin flæði ekki og að niðurföllin geri sitt. Læt nokkrar myndir fljóta af ánni góðu og vona að ég fái tækifæri til að blogga um gang mála.




Guð blessi New York.

Engin ummæli: