þriðjudagur, nóvember 06, 2012

Hvirfilbylur 1-New York 0

Það er sunnudagur. Fólk er eitthvað órólegt í kringum okkur og vasaljósabirgðir borgarinnar fara óðum minnkandi. Svíinn trúir ekki stórýktum fréttum ljósvakans af yfirvofandi stormi. Yfirleitt er þetta peningaplott og brella til þess að fá fólk til þess að horfa á sjónvarp og kaupa meira. Þá hringir síminn. Fluginu hjá mannsefninu frestað í fyrramálið og þá eru góð ráð dýr. Stálráðstefnuna verður að komast á og því brugðið á það ráð að fara samdægurs á staðinn.

Eftir sit ég ein í kotinu með fjögurra mánaða gamlan soninn sem ekki virðist gera sér grein fyrir alvarleika málsins, ef einhver er. Fréttaflutningur af storminum eykst og borgarstjórinn væntanlegur á skjáinn innan skamms. Ég ákveð að bjalla heim á klakann, enda landsmenn þaulvanir stormum. Þar hafa menn ekki heyrt mikið um storminn og ég ákveð því að hlusta á Bloomberg vin minn -sem virðist alvarlegur í tali. Svæði A alls ekki langt frá íbúðinni góðu, aðeins nokkrir metrar skilja þessi svæði að. Í þann mund sem ég er farin að ímynda mér aðstæður eins og þær gerast verstar, með flæðandi glugga í rafmagnsleysi kemur símtal frá klakanum þar sem mér er sagt að koma mér frá Nýju Jórvík eins og skot. Sama hvað tautar og raular, sama hversu mikið ég þyrfti að borga.

Móðir Wisslers var tilbúin að taka okkur flóttamennina að sér og hófst þá leit að fari til Washington. Rútur hættar að ganga og síðasta flugið farið. Ég næ að kaupa mér lestarmiða með síðustu lestinni frá borginni, pakka því sem ég hef vit á að pakka, hleyp út í leit að leigubíl með barnið í annarri hendi og ferðatösku í hinni. Loks næ ég leigubíl og bruna að lestarstöðinni, finn "hliðið" mitt og sest niður. Lestin er troðfull og Óskar ákveður að hafa gaman alla leiðina með tilheyrandi öskri og látum sem hann er að gera tilraunir á þessa dagana.

Þremur tímum seinna erum við sótt á lestarstöðina í Washington, komin í öruggt skjól Sue og Johns -tilbúin að takast á við storminn saman. Og við biðum og biðum en fundum sem betur ekkert fyrir honum, smá íslenskt rok og rafmagið hélt allan tímann. Sömu sögu var ekki að segja um íbúðina okkar sem var án rafmagns út vikuna. Dvölin í Washington var yndisleg, alveg eins og að vera á hótel mömmu -og hvar er maður öruggari í látum móður náttúru en á herstöð með mönnum sem eru þjálfaðir í að komast af í svipuðum eða verri aðstæðum.

Í gær keyrðum við svo tilbaka til New York en þurftum að fara í gegnum Lincoln göngin þar sem að Holland göngin eru enn lokið almenningi. Á leiðinni keyrðum við í gegnum New Jersey sem var á köflum enn án rafmagns og fólk í neyðarskýlum. Herinn var að deila birgðum og bensínstöðvar voru lokaðar eða bensíni skammtað.

Núna erum við mæðginin mætt í litlu íbúðina okkar og bíðum næsta veðurofsa, sem ætti ekki að vera eins mikill og hvirfilbylurinn Sandy -en samt sem áður ætla ég að kaupa meira vatn og mat, og splæsa í vasaljós ef ske kynni að rafmagnið færi aftur af og eiga nóg af nammi, algerlega nauðsynlegt þegar að manni leiðist.

Vonandi verður allt svo komið í samt lag á föstudaginn en þá mæta Magga, Jói og börn í borgina góðu. Kosningar á morgun -sem betur fer, ég fer alveg að verða búin með þolinmæðiskvótann fyrir pólitískum auglýsingum. Ég er engu nær því sem frambjóðandinn ætlar að gera en ég veit sko alveg hvað mótframbjóðandinn ætlar að gera og það er alveg hræðilegt. Alls ekki kjósa hann, kjóstu frekar mig.

My name is Ólöf and I approve this message.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alltaf hægt að treysta á að pistill frá þér komi skapinu í lag :) Við vorum innilokuð hér í óveðri í 3 daga, held ég hafi aldrei séð jafnmikinn snjó! Kósýbósý eins og Gebban okkar myndi orða það.
Knús á ykkur Nýju-jórvíkur familíuna frá okkur snjósveitalubbunum :*
Dúna og co

Nafnlaus sagði...

Þið eruð flottust:) Gott að þið séuð komin heil heim;) Kristín hafði miklar áhyggjur af ykkur:)

Kveðja Aníta