þriðjudagur, nóvember 27, 2012

Gubbandi gestir

Það er tómt í kotinu og frumburðurðinn er gáttaður á hljóðinu í húsinu. Það sést allt í einu í gólfið, en mér fannst fara því betur að hafa ferðatöskur út um allt. Stuttu áður höfðu gestirnir tekið leigubíl á horninu og kvatt borgina með bros á vör.

Það virtist hafa verið í gær sem að fjölskyldan frá Grindavíkurlandi (eins og heiðursgesturinn Helgi Hafsteinn kallaði bæinn sinn í þessari ferð) lenti í Stóra Eplinu til að skoða nýju heimkynni okkar. Borgin skartaði sínu fegursta á meðan á heimsókninni stóð og eins og sönnum New York búa óð ég um allar tryssur með þreyttu ferðalangana sem virtust sýna mér varkárni og kvörtuðu lítið. Þegar að fjölskyldufaðirinn frá sveitabænum Sílastöðum lagðist niður í fósturstellinguna í dótabúðinni á Times Square, lærði ég mína lexíu. Eftir nokkra daga var ég þó búin að sýna þeim Central Park, Hudson River Park, Bryant Park þar sem farið var á skauta, The History Museum, Sex and the City staði eins og Pastis og Magnolia Bakery, Friends húsið, Soho og Macy´s (þar sem að fjölskyldufaðirinn lagðist öðru sinni í fósturstellinguna og heimavinnandi húsmóðirin tapaði réttsvo gleðinni) og síðast en ekki síst Christopher Street þar sem að réttindabarátta samkynhneigðra í Bandaríkjunum byrjaði og íbúðina mína er að finna.

Ég horfi aftur á frumburðinn sem nú er farinn að venjast hljóðinu í húsinu. Ég flokka þvottinn sem virðist ætla að fylla í það minnsta fimm vélar, en svo virðist sem að gubbupest hafi gert vart við sig hjá ferðalöngunum en byrjaði þó hjá okkur heimamönnunum í ferðinni okkar um Vesturströndina.

Ferð, road trip frá San Diego til San Francisco sem vanalega er farin í blæjubíl með fólki sem er yfir 21 árs. Í þetta sinn var leigð mömmu-rútan Dodge Caravan, hún fyllt með þremur börnum, fjórum fullorðnum, töskum, bleyjum og barnastólum. Gisting var ýmist hjá vinum og vandamönnum eða hótel fyrir punkta mannsefnisins sem vinnur við að safna þeim. Téð mannsefni lá fyrstur í valnum, ásamt Margréti sem ældi nokkrum sinnum, tók svo uppáhalds meðalið sitt TUMS og varð góð. Magnús hafði drukkið óheyrilegt magn af viský kvöldinu áður og fékk því enga samúð samferðalanga sinna (og sérstaklega ekki kvenmannsefni síns) þegar að hann byrjaði gubbuna. Honum var sagt að girða í brók og koma okkur til Los Angeles eftir að hafa farið í dýragarðinn og eytt dýrmætum tíma með vinafólki frá háskólaárunum.

Í Los Angeles tóku Norðanmenn á móti okkur og sýndu okkur það sem að glamúr borgin hafði upp á að bjóða. Venice beach, Malibu, Santa Monica og svo mætti lengi telja. Eins og gefur að skilja voru Íslendingarnir æstastir í strönd, sand og sjó en enginn meira en Helgi Hafsteinn sem elti öldurnar og hljóp svo frá þeim tímunum saman.

Næsta fórnarlamb var undirrituð í Santa Barbara (borg sem sveitastrákurinn Jói elskar og mun flytja með fjölskylduna á efri árum) þar sem að annars yndislegi kvöldmaturinn á Svanga Kettinum skilaði sér í einu og öllu. Næstu nótt voru það svo Margrét aftur (en í þetta skipti virkaði töframeðalið ekki) og Óskar Fulvio. Þau ældu til skiptis um nóttina en Óskar hinn ungi hélt áfram fram eftir degi og fram á kvöld við komuna til San Francisco.

Gubbupestin setti því ótvírætt strik í reikninginn í San Francisco en ég náði að koma Jóa einu sinni enn í fósturstellinguna þegar að við skunduðum í gegnum mannmergðina í Fisherman's Wharf eftir að Óskar hafði ælt yfir mig alla út á miðri götu. Eftir góða 18 tíma af ælu hjá litla kút var okkur ekki farið að lítast á blikuna og kíktum með hann á spítalann, svona til öryggis þar sem að við áttum að mæta í flug 10 tímum seinna. Það var ákveðin upplifun að mæta á neyðarmóttöku í Bandaríkjunum, en hann fékk að fara inn strax og var búið að hlúa að honum á 45 mínútum. Það tók hins vegar einn og hálfan tíma að ganga frá pappírum!

Flugið til New York gekk vel, litli kútur ældi bara einu sinni á mig en um nóttina tóku Jói og Kamilla Kristín við.

Nú er búið að flokka þvottinn og gubbuhandklæðin frá litlu dömunni (sem gubbaði bara eins og hún hafði aldrei gert annað, ólíkt frænda sínum sem panikaði í hvert einasta skipti) komin í sértunnu. Skrýtið hvernig ummerki gestanna kalla fram innilegan söknuð hjá mér.

Ferðin sem vissulega var lituð af ælu inn á milli var ógleymanleg og fegurðin sem California hefur upp á að bjóða er endalaus! Næst mun þessi ferð vera farin í blæjubíl, kannski í Mustang með Helga Hafsteini...

Á meðan ég læt mig dreyma um allar strendurnar, góða matinn, reggí-tónlistarmanninn, dodge minivaninn, hitann, sólina, gubbusögurnar, fýlurnar og hlátursköstin legg ég frumburðinn í rúmið og býð góða nótt.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hehe flottur pistill eins og alltaf þetta hefur verið legendary ferð ;)

kv teddý