miðvikudagur, ágúst 21, 2013

Hjólið

Lífið er eitt stór hjól sem rúllar eftir götunni. Hjólin koma í allavega stærðum, gerðum og litum. Í New York er aragrúi af hjólum, hver öðru ólíkari líkt og við mannfólkið. Ég hef oft spáð í því hvernig manneskjan velur sér hjól. Rannsóknir hafa sýnt að litur á bílum hafi eitthvað að segja með persónuleika manneskjunnar, silfurlitaður bílaeigandi er til að mynda montinn. Eins hafa menn haldið því fram að hundar sem við manneskjurnar föngum að okkur og ölum upp á okkar ólíkan hátt endurspegli sýn manneskjunnar á sér sjálfri og hundurinn þar af leiðandi líkist eiganda sýnum. Konan sem á stóra púðluhundinn innar á ganginum er einmitt með krullað hár líka.

En hjól eru kannski minna rannsakað fyrirbæri. Ég læt langþráðan draum verða að veruleika þegar ég fjárfesti í fyrsta hjólinu mínu hérna í borginni. Hjólið er myntugrænt með beislituðum handföngum og brúnum hnakki. Stýrið er U-laga með körfu að framan, hið fullkomna kvennahjól. Já þessa dagana er ég sú týpa. Að amerískum sið var tryllitækið keypt á netinu og því "shippað" upp að dyrum hjá mér. Flennistór kassi með samanbrotnu hjólinu birtist nokkrum dögum seinna þegar að húsbandið var fjarri vegna vinnu sinnar og húsfreyjunni datt ekki í hug að opna kassann með tryllitækinu þar sem að hún hefur aldrei sett neitt saman annað en Ikea húsgögn. Degi seinna kom barnastóllinn sem var vandlega keyptur af netinu líka og því ekkert til fyrirstöðu en að setja hjólið saman og kanna borgina með afkvæminu á myntugræna hjólinu.

Húsbandið kom heim nokkrum dögum síðar og var álíka spenntur og ég að skella sér í hjólatúr. Brosið á andlitinu breyttist snögglega þegar að kassinn var opnaður. Hjólið var hálf ósamsett og kalla þurfti til liðsauka, verkfærakassans. Í fyrstu tilraun brotnaði skrúfa og brettið á framdekkinu ónýtt. Húsbandið með sína einlægu óþolinmæði gafst upp á verkinu og blótaði netinu í sand og ösku, það ætti nú að taka fram að hjólið kæmi ósamsett í pósti.

Vikan leið og hafði húsbandið safnað þolinmæði til að takast á við verkið. Hjólið skyldi sett saman og farið yrði í hjólatúr þessa helgina. Eftir mikla þraut og raunir og nokkur skapofsaköst var hjólið samsett en þá kom babb í bátinn. Barnastóllinn passar ekki á bögglaberann og því góð ráð dýr. Húsfreyjan fékk þá ljómandi góða hugmynd, að kaupa skyldi nýtt samsett hjól í næstu Target búð. Inn gekk fjölskyldan, fann besta ódýrasta hjólið (sem sýndi allt aðra týpu en myntugræna hjólið) og dröslaði því heim í lestinni, nú orðin heldur óróleg að komast í hjólatúrinn. Húsfreyjan vildi að fagmenn settu barnastólinn á hjólið (vegna skiljanlegra ástæðna) en húsbandið kom tómhent heim úr hjólaverkstæðaferðinni, en kaninn er svo hræddur við lögsóknir að þeir taka ekki að sér að setja barnastóla á hjól. Þá reyndi húsfreyjan að mæta sjálf með bara bögglaberann undin stólinn og þóttist bara þurfa hjálp við að setja hann á hjólið. Hjólaverkstæðisgreyin féllu fyrir þessari brellu en kom á daginn að bögglaberinn væri fyrir minna hjól en það sem keypt hafði verið í Target.

Þessar fréttir urðu til þess að húsbandið tapaði glórunni augnablik, sem varð til þess að húsfreyjan varð glórulaus honum til samlætis, rauk á dyr með hjólið og hjólaði þar til að hún fann hjólabúð sem seldi barnastóla á hjól og keypti eitt stykki og lét setja á hjólið.

Nokkur hundruð dollurum, tveimur hjólum og tveimur barnastólum seinna fór fjölskyldan loksins út að hjóla og hjólaði meðfram Husdon ánni með vindinn í bakið og sólarlagið fyrir augum þar til að afkvæmið tapaði glórunni og lét foreldra sína vita að hann væri ekki mikið fyrir hjálminn sinn og gargaði út í eitt þar til að honum tókst að taka hann af. Þegar það var orðið skýrt að barnið hefði unnið þessa hjólabaráttu komum við heim og litum inn í litlu íbúðina okkar og hlógum, það verður ekkert mál að koma tveimur hjólum fyrir inn á milli kerranna...

Hjólaferðir eru því gott greiningartól um lífið sjálft. Stundum er mikið af hossum og brekkum -en mikið ofsalega er gaman þegar að sólin skín framan í mann og maður horfir á sólina setjast yfir Hudson ánni. Ef maður bara nær að finna hláturinn verður allt léttara og fallegra. Myntugræna hjólið er því fullkomið skraut í stofuna, sem og nýja hjólið sem þarf að klofa yfir til að komast í sokkaskápinn.