föstudagur, apríl 03, 2015

Leigubílabugun í Manila

Fjörtíu mínútna tuk-tuk ferðin, tíu mínútna bátsferðin, tveggja tíma rútuferðin og klukkutíma flugferðin gekk alveg eins og í sögu. Þrátt fryrir að hafa verið sótt fjörutíu mínútum of seint af bílstjóranum náðum við fluginu og fengum að innrita töskurnar og allt heila klabbið.

Manila tók á móti okkur eins og við mundum eftir, ringulreið og stress. En við vorum séð og bókuðum hótel í aðeins þriggja kílómetra fjarlægð frá flugvellinum. Það eina var að við þurftum að bíða í hátt í klukkutíma eftir leigubíl. Eftir þetta langa ferðalag langaði okkur ekkert heitar en að hendast upp í rúm og sofna, ef allt færi samkvæmt áætlun yrði sú hending um klukkan níu um kvöld sem var fínt, en daginn eftir myndum við svo hitta Gebbu og Ray og stelpurnar og allir spenntir.

Loksins náðum við leigubíl sem vildi fyrst plata okkur og ekki kveikja á mælinum, sagði að þetta heimilisfang væri langt í burtu. Við skipuðum honum að kveikja á mælinum sem hann samþykkti og spurðum svo hvort hann vissi ekki örugglega hvar þetta væri. Hann játti því en hélt því stöðugu að þetta væri langt í burtu. Viðvörunarbjalla númer eitt hringdi í hausnum á mér en sökum langþreytu var slökkt á henni og Pollýanna tók völdin. Við reyndum á meðan að leigubílstjórinn fussaði og sveiaði yfir umferðinni (eða kannski látunum í okkur) að skoða kort sem við höfðum vistað í símann en allt kom fyrir ekki. Eftir um klukkutíma akstur hringdu viðvörunarbjöllur númer 2 og þrátt fyrir alla umferð í heiminum ættu þrír kílómetrar ekki að taka klukkutíma. Við reyndum hvað við gátum að segja leigubílstjóranum að hann væri að fara vitlaust en hann fullvissaði okkurum að hann vissi hvar hótelið væri og að hann væri að fara rétt. Þá datt mér í hug að kveikja á RunKeeper appinu í símanum bara til að sjá hvort við værum nokkuð að keyra bara í hringi. Klukkutíma seinna sýndi RunKeeper að við værum svo sannarlega ekki að keyra í hringi heldur vorum við komin langt langt í burtu frá flugvellinum og þriðju viðvörunarbjöllurnar hringdu. Þá var Magnus kominn með meira en nóg og skipaði leigubílstjóranum að stoppa næsta leigubíl og spyrja til vegar. Sá leigubíll hló og sagði að þetta heimilsfang væri rétt hjá flugvellinum, um tveimur tímum í burtu. Í þetta skiptið kom reykur út úr eyrunum á Magnusi og hann sagði leigubílstjóranum að hann myndi ekki borga einum pesó meira, að hann skyldi stöðva mælinn og keyra okkur tilbaka med det samme! Þá fór að rjúka úr eyrunum á leigubílstjóranum sem sagðist bara ætla að henda Magnusi þá í lögguna og þar af leiðandi í steininn. Áður en ég næ að átta mig á stöðu mála er leigubílstjórinn búinn að stoppa löggubíl og Magnus mættur út að rökræða við leigubílstjórann með löggu sem dómara...

Ooooo óóó heyrist í Óskari, babú! Og ég krosslegg fingur að Magnusi verði ekki hent í steininn og að við komumst vonandi að sofa einhvern tímann. Dómara-löggan skildi reiði okkar en sagði okkur að borga vesælis leigubílstjóranum sem tók peninginn og hreytti einhverju í nýja leigubílstjórann sem löggan hafði nú fundið fyrir okkur, sem við komumst að seinna að var “svindlaðu nógu mikið á þeim”. Þegar þarna er við sögu komið er klukkan ellefu en nýji bílstjórinn er hinn viðkunnalegasti og afsakaði landa sinn fyrir að koma okkur í svona klandur. Hann ætlaði sko að koma okkur á hótelið á mettíma og í fyrsta skipti þetta kvöld vorum við frekar bjartsýn og Pollýanna náði að reykræsta eyrun á Magnusi og kreista fram smá bros á eiginmanninum.

Eftir um klukkutíma keyrslu sáum við fram á að vera komin upp á herbergi fyrr en ætlað var. Þegar að kom svo að því að finna götuna og hótelið viðurkenndi bílstjórinn að hann hreinlega fyndi ekki götuna og enginn kannaðist við hótelið og við vorum farin að halda að það væri hreinlega ekki til. Það tók tuk-tuk bílstjóra og hverfislögguna en um eittleytið fundum við loksins umrætt hótel og fórum dauðþreytt að sofa. Viðkunnalegi leigubílstjórinn afsakaði sig enn og aftur en ruglingurinn var víst Moonwalk 1 og Moonwalk 2. Okkur var alveg saman, við vorum komin og allir heilir. Við lögðumst upp í rúm dauðþreytt og Pollýanna ætlaði að fara að hlægja að þessu öllu saman, Magnus næstum handtekinn fyrir að svindla á leigubílstjóra, en þá lagðist Magnus í fósturstellinguna og sagði “Ólöf, í fyrsta sinn í ferðinni langar mig bara heim” og þá sprakk ég úr hlátri og sagði “ég get ekki beðið eftir að blogga”.

Næsta morgun var förinni svo heitið í Bonifacio Global City þar sem Ray og fjölskylda beið okkar. Við prentuðum kort, fengum nákvæmar lýsingar á hverfinu og fullvissuðum okkur um að leigubílstjórinn radaði áður en við stigum fæti inn í bílinn. Okkur til mikillar undrunar vissi leigubílstjórinn akkúrat hvert við vorum að fara og kom okkur þangað á mettíma. Við eyddum yndislegum dögum með fótboltastjörnunni og fjölskyldu hans og náðum að sjá einn leik með Global. Það var virkilega gaman að sjá lífið hjá Ray þarna úti en Global City er nútíma borg með háhýsum, veitingastöðum og kaffihúsum og ef einhver er í Manila þá mæli ég með heimsókn þangað.

Síðan kvöddum við og héldum áfram til Palawan þar sem við erum nú en næsta blogg verður tileinkað þessum fallega stað þar sem orðakvótinn er þegar sprunginn.

Afsaka runina og myndaleysið en internet sambandið er mjög stöpult hérna.
Lifið heil!