föstudagur, október 31, 2014

Dagurinn fyrir Hrekkjavöku...

Ég er hrifnæm, fljótfær, auðtrúa og einstaka tækifærissinni. Þessi flotti kokteill getur verið hættulegur þegar að hrekkjavöku-sælgætis-heilaþvottur Ameríkanans hefst nokkrum vikum fyrir Hrekkjavöku. Ég stóð mig að því að versla gotterí fyrir púkana (einnig nokkrum vikum fyrr) án þess þó að púkar kæmu til mín að sníkja, slíkt er nefninlega bannað í byggingunni minni. Kannski vildi ég bara falla í kramið, vera með. Alls kyns nammitegundir voru prófaðar (fruit flavored tootsie rolls eru bestar fyrir ykkur sem hafið áhuga á nammi) og fleiri tugir poka keyptir.

Í gærkvöld fékk ég svo nóg af þessari tilraun minni að falla í kramið (eða sykurfíkn, dæmi hver fyrir sig). Ég leigði Fed Up heimildarmyndina á iTunes sem í stuttu máli sýnir fram á að sykurvíman sé á við góða kókaínvímu. Til að toppa sjálfshatrið horfði ég svo á Fat, Sick and Nearly Dead á Netflix og fann mig eitrast alla upp. Hvað var í stöðunni annað en að skella sér beint úr bullandi sykurneyslu í tíu daga djús hreinsunarkúr. Ég sofnaði með háan blóðþrýsting vegna sykurneyslu en full af bjartsýni, vegna þess að í dag átti að vera dagurinn sem allt breyttist. Hingað og ekki lengra.

Ég vaknaði í sama bjartsýniskastinu, henti í einn góðan morgundjús úr því sem ég átti inni í ísskáp. Gulrætur, rauðrófur, epli og engifer. Ég svólgra þessu í mig, gef barninu að borða, klæði mig í mitt fínasta púss og skelli mér á róló. Geng framhjá búð sem heitir Organic Avenue og kaupi mér grænasta djúsinn í búllunni, enda mundi ég það frá myndinni að maður á að drekka regnbogann. Búin með einn rauðan, tími fyrir einn grænan. Djúsinn sá var uppfullur af alls konar grænmæti og bætiefnum, kallaðist Medical Green og ekkert gat stöðvað mig.

Eitthvað var sykurneysla síðastliðinna vikna farin að láta á sjá því þegar ég leit í símann við tökur einna "sjálfu" með græna djúsinn gat ég ekki betur séð en ég liti út fyrir að hafa timburmenni. Sveiattan, ég skellti djúsnum í mig og þambaði af lífs og sálar kröftum. Þegar að sopanum hafði verið kyngt áttaði ég mig á því að djúsinn var hræðilega vondur. Ekki nóg með að vera uppfullur af grænkáli þá var í honum hvítlaukur, laukur og eitthvað fleira, en lengra komst ég ekki með innihaldslýsinguna því ég skilaði sopanum í næstu ruslatunnu. Hinar West Village mömmurnar gjóuðu til mín augunum og ég ákvað að láta mig hverfa sem fyrst.

Á þessum tímapunkti var hungrið í lagi, enda ennþá flökurt frá djúsnum. Við ákváðum að skella okkur bara í sund í Battery Park og gekk það stórslysalaust fyrir sig að undanskildu því gríðarstóra smáatriði að eftir sund er hungrið upp á sitt besta. Ég var svo hungurmorða að ég var næstum búin að borða barnið.

Við yfirgefum sundið og áður en ég veit af erum við sest á ítalskan veitingastað, búin að panta pizzu og ég búin að drekka eina kók. Ég froðufelldi alveg örugglega þegar að pizzan kom og át tvo þriðju hennar áður en Óskar var búinn með eina sneið. Þegar ég svo seildist eftir næst síðustu sneiðinni næ ég að reka mig í pönnuna sem pizzan var á með þeim afleiðingum að hún einhvernveginn tók á loft, fór í heljarstökk og lenti flatmagandi á gólfinu og pannan fylgdi á eftir með tilheyrandi látum. Jakkafataklæddu Wall Street bisness mennirnir göptu á mig (ég var örugglega með pizzasósu framan í mér líka) og ég leit á Óskar og reyndi að fá hann til að hlægja með mér en hann sendi mér sama vorkunnar/viðbjóðs augnaráð og bisness mennirnir og mig langaði mest að láta mig hverfa aftur.

Í þetta skipti var það ekki í boði en á meðan að þessar hugsanir fóru um höfuðið kemur vakstjórinn hlaupandi til mín og segir mér að nýja pizzan sé í ofninun, ég þurfi ekkert að óttast. Svo kemur yfirsóparinn askvaðandi og sópar upp pizzuna sem náði að klessast vel við gólfið, gefur mér innilegt bros og heldur áfram sinni vinnu. Ég veit ekki hvort þeir hafi verið svona góðir við mig eða hræddir við mig. Síðan kemur þjónustustúlkan fram með glænýja pizzu sem ég endaði á að þurfa að borða eitthvað af en tók restina með heim.

Klukkan ekki orðin eitt og ég þegar búin að gubba á róló, falla á tíu daga hreinsunarkúrnum og henda niður pizzu fyrir framan mikilvæga viðskiptajötna. Ég borga reikninginn, stend upp og bara svona til að toppa allt, næ að hella heilu vatnsglasi yfir aumingja Óskar sem er auðvitað ekki með auka buxur með sér og ég neyðist því bókstaflega til að hlaupa heim með magann yfirfullan af pizzu og samviskubiti.

Ég kem heim, íhuga það að fara út í búð og kaupa mér nammi en ákveð á fara í jóga í staðinn. Ekki svona jóga sem ég þyrfti virkilega á að halda, heldur jóga fyrir elsku Óskar sem nú var kominn í þurrar buxur. Þegar þangað var komið kom á daginn að hann var eina barnið í jóga og því enn vandræðalegra en ella að syngja OM í klukkutíma.

Á leiðinni heim vogaði ég mér aftur á róló og hitti þar einu mömmuna sem ég vildi ekki hitta, en hún spurði mig að sjálfsögðu hvernig mér liði og hvort ég væri ólétt.

Já svaraði ég, mér líður miklu betur og nei, "it's just a food baby".