þriðjudagur, október 15, 2013

Músavaktin

Ég sit á rassinum og horfi á tómt gólfið sem áður hafði hýst ferðatöskur gestanna. Íslenska nammið gjörsamlega búið og kaloríufjöldi síðustu viku -jafnvel mánaða löngu sprunginn. Ákveð að refsa mér í nýju ræktinni sem var að opna á götuhorninu. Eitthvað hefur mér fundist kálfarnir hafa fitnað óvenjulega yfir sumartímann þar sem ég geri balletæfingar á tánum eins og enginn sé morgundagurinn. Fer sátt að sofa um kvöldið enda strengirnir mættir á svæðið og sviðinn er góð tilfinning.

Ég veltist um í rúminu og næ ekki að festa svefn. Sest óvart upp í rúminu og kem auga á músarhelvítið sem hefur strítt okkur síðastliðinn mánuðinn. Þessi mús er klárari en hinar og virðist ekki vilja gildurnar okkar góðu. Ég hristi eiginmanninn þar til hann vaknar og sendi hann í könnunarleiðangur að finna músina kláru. Við sjáum hana hlaupa í eitt hornið og króum hana af. Maggi telur músina hafa komist undan en ég grátbið hann að ýta við hillu í hjarta hornsins. Viti menn, músin stekkur upp með þeim afleiðingum að eiginmaðurinn stekkur lengra upp sem kom þar af leiðandi af stað keðjuverkun sem gerði það að verkum að ég hendist upp í loft og enda í rúminu öskrandi af hræðslu en einnig vegna verkja því í stökkinu virðist sem kálfurinn góði sem fékk að finna fyrir því fyrr um daginn hafi tognað, ef ekki rifnað.

Músin komst undan, eiginmaðurinn hættur að taka þátt í þessari dauðaleit með mér og ég engist um af sársauka. Nokkrum mínútum síðar er Maggi kominn í draumaheim með tilheyrandi hrotum en ég sit eftir í sárum mínum og stari á íbúðina í leit að músarhelvítinu. Rétt fyrir dagsbirtingu heyri ég svo ægileg hljóð inni í eldhúsi. Eitthvað mikið gengur á hjá músinni kláru og ég hunsa beiðni Magga um að leyfa sér að sofa og sendi hann fram í eldhús að athuga nánar. Í þetta skipti sit ég eftir í rúminu þar til hættan er liðin hjá. Kemur á daginn að músin var orðin eitthvað svöng og var byrjuð á Cheerios pakkanum hans Óskars. Sveiattan!

Húsbandið brunaði svo eitthvert út á land til vinnu og ég haltra um Manhattan í leit að tækjum og tólum til hefndar. Mér líður eins og Kevin í Home Alone sem bíður eftir bófunum, yfirvegaður rólegur. Ég er komin með gildru í hvert horn og eitur þar að auki. Mér skal takast að fanga músarhelvítið.

Nú fer ég að slökkva ljós og sjónvarp og bíð átekta.

miðvikudagur, ágúst 21, 2013

Hjólið

Lífið er eitt stór hjól sem rúllar eftir götunni. Hjólin koma í allavega stærðum, gerðum og litum. Í New York er aragrúi af hjólum, hver öðru ólíkari líkt og við mannfólkið. Ég hef oft spáð í því hvernig manneskjan velur sér hjól. Rannsóknir hafa sýnt að litur á bílum hafi eitthvað að segja með persónuleika manneskjunnar, silfurlitaður bílaeigandi er til að mynda montinn. Eins hafa menn haldið því fram að hundar sem við manneskjurnar föngum að okkur og ölum upp á okkar ólíkan hátt endurspegli sýn manneskjunnar á sér sjálfri og hundurinn þar af leiðandi líkist eiganda sýnum. Konan sem á stóra púðluhundinn innar á ganginum er einmitt með krullað hár líka.

En hjól eru kannski minna rannsakað fyrirbæri. Ég læt langþráðan draum verða að veruleika þegar ég fjárfesti í fyrsta hjólinu mínu hérna í borginni. Hjólið er myntugrænt með beislituðum handföngum og brúnum hnakki. Stýrið er U-laga með körfu að framan, hið fullkomna kvennahjól. Já þessa dagana er ég sú týpa. Að amerískum sið var tryllitækið keypt á netinu og því "shippað" upp að dyrum hjá mér. Flennistór kassi með samanbrotnu hjólinu birtist nokkrum dögum seinna þegar að húsbandið var fjarri vegna vinnu sinnar og húsfreyjunni datt ekki í hug að opna kassann með tryllitækinu þar sem að hún hefur aldrei sett neitt saman annað en Ikea húsgögn. Degi seinna kom barnastóllinn sem var vandlega keyptur af netinu líka og því ekkert til fyrirstöðu en að setja hjólið saman og kanna borgina með afkvæminu á myntugræna hjólinu.

Húsbandið kom heim nokkrum dögum síðar og var álíka spenntur og ég að skella sér í hjólatúr. Brosið á andlitinu breyttist snögglega þegar að kassinn var opnaður. Hjólið var hálf ósamsett og kalla þurfti til liðsauka, verkfærakassans. Í fyrstu tilraun brotnaði skrúfa og brettið á framdekkinu ónýtt. Húsbandið með sína einlægu óþolinmæði gafst upp á verkinu og blótaði netinu í sand og ösku, það ætti nú að taka fram að hjólið kæmi ósamsett í pósti.

Vikan leið og hafði húsbandið safnað þolinmæði til að takast á við verkið. Hjólið skyldi sett saman og farið yrði í hjólatúr þessa helgina. Eftir mikla þraut og raunir og nokkur skapofsaköst var hjólið samsett en þá kom babb í bátinn. Barnastóllinn passar ekki á bögglaberann og því góð ráð dýr. Húsfreyjan fékk þá ljómandi góða hugmynd, að kaupa skyldi nýtt samsett hjól í næstu Target búð. Inn gekk fjölskyldan, fann besta ódýrasta hjólið (sem sýndi allt aðra týpu en myntugræna hjólið) og dröslaði því heim í lestinni, nú orðin heldur óróleg að komast í hjólatúrinn. Húsfreyjan vildi að fagmenn settu barnastólinn á hjólið (vegna skiljanlegra ástæðna) en húsbandið kom tómhent heim úr hjólaverkstæðaferðinni, en kaninn er svo hræddur við lögsóknir að þeir taka ekki að sér að setja barnastóla á hjól. Þá reyndi húsfreyjan að mæta sjálf með bara bögglaberann undin stólinn og þóttist bara þurfa hjálp við að setja hann á hjólið. Hjólaverkstæðisgreyin féllu fyrir þessari brellu en kom á daginn að bögglaberinn væri fyrir minna hjól en það sem keypt hafði verið í Target.

Þessar fréttir urðu til þess að húsbandið tapaði glórunni augnablik, sem varð til þess að húsfreyjan varð glórulaus honum til samlætis, rauk á dyr með hjólið og hjólaði þar til að hún fann hjólabúð sem seldi barnastóla á hjól og keypti eitt stykki og lét setja á hjólið.

Nokkur hundruð dollurum, tveimur hjólum og tveimur barnastólum seinna fór fjölskyldan loksins út að hjóla og hjólaði meðfram Husdon ánni með vindinn í bakið og sólarlagið fyrir augum þar til að afkvæmið tapaði glórunni og lét foreldra sína vita að hann væri ekki mikið fyrir hjálminn sinn og gargaði út í eitt þar til að honum tókst að taka hann af. Þegar það var orðið skýrt að barnið hefði unnið þessa hjólabaráttu komum við heim og litum inn í litlu íbúðina okkar og hlógum, það verður ekkert mál að koma tveimur hjólum fyrir inn á milli kerranna...

Hjólaferðir eru því gott greiningartól um lífið sjálft. Stundum er mikið af hossum og brekkum -en mikið ofsalega er gaman þegar að sólin skín framan í mann og maður horfir á sólina setjast yfir Hudson ánni. Ef maður bara nær að finna hláturinn verður allt léttara og fallegra. Myntugræna hjólið er því fullkomið skraut í stofuna, sem og nýja hjólið sem þarf að klofa yfir til að komast í sokkaskápinn.

fimmtudagur, maí 30, 2013

Á leiðinni heim

Síðasti dagurinn í New York. Ég byrja daginn á að elda egg í morgunmat og brenna mig á bringunni með pönnunni. Byrja að pakka en átta mig á því að ferðataskan er föst uppi í skáp. Næ henni út með herkjum en það stórsér á töskunni og aumingja hillan fékk útreið líka. Hendi í töskuna og nenni ekki meiru. Skelli mér út í 27 stiga hitann og svitna eins og mér einni er lagið. Geng búða á milli í paniki því ég er að fara. Mig vantar ekkert en samt er ég að leita að öllu. Finn loksins popppoka í Old Navy sem kostar fimm dollara og svalar kaupþörfinni minni. Bíð í röð í tíu mínútur til að kaupa poppið, geng út og opna það. Kemur á daginn að það er óbragð af poppinu, enda fatabúðir ekki þekktar fyrir að framleiða gæðapopp. Ákveð að fara heim, skila kerrunni og skella mér með lestinni á 34 götu því þar eru fleiri búðir sem ég get keypt ekkert.

Í svitakasti komumst við leiðar okkar og náum að kaupa vatn hjá Pretzel sala. Göngum um eins og sardínur í dós, enda brjálæðislega mikið af fólki á þessar þekktu verslunargötu. Eftir heimsóknir í HogM, Forever og Strawberry ákveð ég að vera skynsöm, sleppa því að versla og taka lestina heim. Geng alla leið niður að teinunum þar sem að lest nr 1 fer og kemur þá í ljós að hún hafi farið út af teinunum og því væri seinkun. Fer út úr þessari lestarstöð og borga mig inn aftur hjá B lestinni. Hún er á tíma og ennþá á teinunum og ég skelli mér inn. Sest á tyggjó og er nær föst við sætið enda í óheyrilegu svitakasti. Næ að koma mér út á W4 götu og ég sé að fólk finnur til með mér. Ég bít á jaxlinn og geng heim með tyggjó á rassinum og barnið á maganum.

Kem heim og sé að ég hafi gleymt kúkableyjunni á borðinu í steikjandi hita. Lyktin finnst fram á gang. Ég byrja að þrífa og losna loksin við lyktina eftir skúringar nr 3. Ég baða barnið og kem því í ró. Loka ferðatöskunum og vona að ég hafi tekið mest allt með heim. Slekk ljósin og tel klukkutímana í flugið sem vonandi gengur vel þrátt fyrir eyrnabólgu drengsins.

Mín bíður heil helgi af Síkátum Sjóurum sem taka vel á móti mér þótt ég sé með tyggjó á rassinum og grenjandi barn.

Bless í bili New York, Grindavík þú ert næst!

þriðjudagur, maí 14, 2013

Hinrik

Kamilla skríður eins og hún eigi lífið að leysa, Óskar fylgir fast á eftir henni og nær henni fyrir rest. Skellir einu góðu "aaaaa" á höfuðið á henni en er því miður ekki nógu blíður og prinsessan rekur upp skaðræðisóp. Við það beina allir athyglinni að skæruliðunum og skerast í leikinn. Þegar ég lít tilbaka sé ég bregða fyrir svartri fjórfætlu á fleygiferð meðfram veggnum hjá sjónvarpinu. Ég læt sem ég hafi ekki séð þetta, enda óhugsandi að það sé komin mús í heimsókn svona þegar að gestir eru í heimsókn.

Ég lifi í blekkingu í einn dag enn og ligg á gólfinu með skæruliðunum og reyni að kenna frumburðinum að hætta að pína litlu frænku, sem gengur ekki neitt. Er ég sit með höndina á Kamillu og segi "aaaaa" sé ég fjórfætluna hlaupa þvert yfir íbúðina, bíræfnin í henni! Ég gat ekki leynt þessu lengur og sagði rólega, "það er mús hérna inni". Ég mátti vita betur. Margrét setur Íslandsmet í hástökki, Helgi ákveður að hann sé líka hræddur við mýs og skæruliðarnir skynja hættu. Öskur og aðeins hærri öskur og Margrét og Helgi þeytast út. Dyravörðurinn veit ekki hvað sé eiginlega í gangi og skundar í áttina til okkar. Skæruliðarnir eru skriðnir út og Didda situr ein eftir greyið og reynir að fanga kvikyndið. Dyravörðurinn er nú búinn að hlægja að okkur og segir mér að fara bara niður og sækja nokkar gildur sem ég og geri.

Við gildrum íbúðina í bak og fyrir og bíðum átekta. Ekkert bólar á músinni sem nú hefur fengið nafnið Hinrik, en Helga fannst hún eitthvað Hinriksleg. Dagur er að kveldi kominn og við göngum til hvílu. Allir sofa vært þegar að sérkennileg hljóð berast úr eldhúsinu. Ég vek húsbóndann með þessum orðum, Magnús -það er eitthvað í eldhúsinu. Magnús hrekkur í kút og svarar, ha er einhver í eldhúsinu? Áður en ég veit er hann farinn með símann að vopni í leit að einhverjum í eldhúsinu og vona að hann átti sig á því að hann sé að leita að mús en ekki manneskju...

Hinrik er lítt gefinn fyrir ljós og hættir leik sínum þegar að Magnús lýsir símanum í átt að skápnum sem hljóðið kemur úr. Um leið og það dimmir tekur Hinrik upp leik á ný. Ekki tókst bóndanum að fanga Hinrik í þetta sinn og svona gengur þetta nótt eftir nótt. Hinrik leikur sér hér og þar um íbúðina á nóttunum en sést hvergi nema einu sinni annan hvern dag á daginn. Hann skilur ekki eftir sig skít, enda um mikla heiðursmús að ræða.

Bóndakonan Didda lætur smá mús ekki hafa áhrif á sig, nema hana klægar í puttana að ná helvítinu, eins og hún orðar það. Margrét er hins vegar svefnlaus og mun nýta sér jógatæknina sem felst í sér slökun sem er á við átta tíma svefn. Helgi er fljótur að gleyma og á meðan að Hinrik sé ekki nefndur nær hann svefni og keyrir bílunum um öll gólf.

Nú skellur á nótt númer sex og er smá tilhlökkun í mér að vita hvað Hinrik tekur upp á í nótt.

Með kveðju frá Christopher götu,
Ólöf, Magnús, Óskar, Margrét, Helgi, Didda, Kamilla og nýjasti íbúinn Hinrik.



fimmtudagur, mars 21, 2013

Spinnegal

Það er á svona dögum sem ég óska þess að hettan á peysunni minni hafi innbyggða myndavél, í dag og þegar að ég og Sienna Miller vorum að róla með börnin okkar. En eftir andvökunótt ákvað ég að skella mér í spinning. Gat ekkert sofið og taco veisla kvöldsins á undan gaf mér það spark í rassinn sem ég þurfti. Ég mætti mátulega snemma, enda mikil eftirsókn í fitubrennslutíma vorsins. Ég gíraði mig upp á leiðinni yfir götuna með Girl on fire með Aliciu Keys og leigubílstjórinn sem keyrði næstum á mig sá það utan á mér að ég var á leiðinni í spinning.

Ég gekk inn í salinn, valdi mér hjól aftast þar sem að kennarinn myndi örugglega ekki sjá mig svindla. Við mér blasti einkar sérkennileg sjón. Á hjólinu ská á móti mér var eldri kona um sextugt í snípstuttum hjólabuxum, með svitaband og hettueysu. Ég sem hélt að ég væri tilbúin í spinning. Ég var hrár kjúklingur miðað við hana. Kennarinn var hvergi sjáanlegur en hún var farin að hita upp með þvílíkum tilþrifum. Mig langaði mikið til að komast að því hvaða lög hún var að hlusta á því hún hagaði sér eins og rokkstjarna á sviði, beið bara eftir því að hún tæki dýfuna yfir hin hjólin. Annars slagið stoppaði hún, teygði á og rak aðra hendina upp í loftið eins og hún væri að hlusta á uppáhalds hljómsveitina sína á sviði. Loksins kom kennarinn inn og tíminn hófst. Sú gamla bætti um betur, fór úr hettupeysunni og var bara á íþróttatopp svo að öll tattúin hennar sáust. Síðan hófst partýið að nýju og hún gólaði og gargaði vúhú yeaahhhhhh come on allan tímann.

Ég var ekki viss hvort ég ætti að skalla hana eða gefa henni high five. Ég ákvað því að taka milliveginn og hunsa þessa hegðun, enda klukkan ekki orðin sjö! Þegar kom að teygjum og rólegheitum skellti sú gamla ipodnum í eyrun, skutlaðist fram og fór að lyfta. Ég gat ekki annað en dáðst að henni hágráhærðri með tattú yfir sig alla í snípstuttum hjólabuxum og topp með grifflurnar að vopni, hamrandi járnin eins og enginn væri morgundagurinn. Ég leit í spegil. Ég var í síðbuxum, síðum innanundir bol svo að það sæist örugglega ekki í rassinn á mér, hettupeysu rennda upp að hálsi svo að bringan yrði ekki til ama, hárið í tagl og bauga niður á kinnar.

Kannski ég skelli í nokkur tattú, attitude og ný ræktarföt. Ég elska þegar að maður fær hvatningu úr ólíklegustu áttum!

þriðjudagur, febrúar 19, 2013

Woodstock

Hann kemur heim rétt fyrir fjögur og ég hendi töskunum í bílinn. Passa mig að hafa sænska nammið við hendina og bý vel um barnið aftur í. Sólin skín og ég finn fiðringinn í maganum. Við höldum út í helgina full tilhlökkunar, leiðin liggur til Saugerties sem er pínulítill bær við Hudson fljót og í nágrenni við Woodstock. Þar höfðum við leigt hús yfir helgina til að hlaða batteríin fyrir seinni hálfleik vetrarins.

Ég er í þann mund að byrja á nammipokanum þegar að við áttum okkur á stöðu mála. Ógurleg umferð mætir okkur á leið út úr borginni, og til að gera langa sögu stutta þá missti einn aðili gleðina í örstutta stund, hótaði að keyra heim og hætta við þetta allt saman, en hætti við að hætta og fékk sér nammi. Bílferð sem vanalega tekur einn og hálfan tíma tók þrjá klukkutíma en á endanum komust við leiðar okkar.



Það var orðið dimmt og enginn nágranni heima. Engin ljós nema ljósin frá bílnum. Magnús stígur út úr bílnum til að finna lykilinn sem var falinn á bakvið hús samkvæmt leiðbeiningum mannsins sem leigði okkur húsið í gegnum heimasíðu á netinu. Það var freistandi að hugsa um tökustað hryllingsmynda í þessum aðstæðum en ég ýtti þeim hugsunum frá mér jafn óðum. Ekkert bólaði á Magnúsi og allt í einu var Óskar litli farinn að efast um aðstæður líka. Sá hann eitthvað sem ég sá ekki? Barnið öskraði hástöfum og var óhugganlegur. Þegar ég var í þann mund að fara að leita að Magnúsi birtist þessi elska með húslykilill en kvartaði undan ægilegri dimmu.

Við göngum upp að dyrum og með hjálp nútímasímans tekst okkur að opna. Fúkkalykt, brak og brestir. Alveg eins sjarmerandi og ég hafði ímyndað mér. Ekkert sjónvarp og takmörkuð nettenging. Við komum okkur fyrir og fórum snemma í háttinn. Ég náði ekki að festa svefn vegna alls kyns hljóða sem ég heyrði alla nóttina. Einu sinni heyrði ég meira að segja hóst sem ekki kom frá Magnúsi eða Óskari. Loksins kom dagurinn og við enn á lífi. Við Magnús grínuðumst með það að eigandinn gæti hæglega verið raðmorðingi, enginn vissi akkúrat hvar við vorum, fullkominn glæpur.

En allt breyttist í dagsljósi, kofinn varð fallegur og draugar næturinnar flugu burt eins og fuglarnir í trjánum. Saugerties og Woodstock voru allt sem við höfðum vonað og vel það. Nema fyrir utan eitt lítið smáatriði. Woodstock var víst ekki haldið í Woodstock, heldur í Bethel. Tonleikahaldarar fengu víst ekki tilskylin leyfi fyrir hátíðinni í Woodstock en kölluðu hana samt Woodstock, smá brella að mínu mati eeeeen þar sem bærinn er sannur hippabær þar sem að maður fer nokkur ár aftur í tímann er það þeim fyrirgefið.

Næturnar liðu eins, ég með kaldan svita á bakinu að bíða eftir raðmorðingjanum og vera alltaf jafn hissa að vera á lífi þegar að sólin reis. Með hugmynd af nýrri bók í maganum skiluðum við svo okkur aftur heim til New York heil á húfi og ég hef sjaldan verið eins glöð að leggjast á koddann í "herberginu" okkar á Christopher götu í myrkrinu innan um vælandi sjúkrabíla og löggur. Bibið í leigubílunum vakti með mér öryggistilfinningu og ég fann hvað það var gott að eiga tíu milljón nágranna.

Ást og friður!

þriðjudagur, febrúar 05, 2013

Vetrarblús

Vetur í New York er jafn leiðinlegur og sumrin eru skemmtileg. Slydda, gaddi og malbik. Steinsteypa, umferð og mengun. Grindavíkurhjartað slær hratt og eyjaskeggurinn í mér þráir að sjá víðáttu, kannski nokkur dýr. Einhver fésbókarvinur minn dirfist til að birta mynd af bland í poka skál. Það er ekkert sem ég þrái heitar en bland í poka. Ég skunda í sænsku nammibúðina sem er í götunni minni, fylli hann líkt og ég geri jafnan í nammilandi á laugardögum og fer svo að borga. Sænska nammibúðarstúlkan talar sænsku við mig og heilsar Óskari eins og hún þekki hann. Ó nei, hún kannast við mig. Á leiðinni út óskar hún mér velfarnaðar og segir við Óskar, gott að mamma sé búin að fá nammiskammtinn sinn í dag. Ó nei nei nei.

Kannski þarf ég bara að hreyfa mig. Ég klára nammið og skelli mér í spinning tíma þegar mannsefnið skilar sér loksins heim. Síðasta hjólið bíður eftir mér. Kennarinn hlýtur að hafa séð mig í nammibúðinni því hún hendir mér fremst. Kemur á daginn að spinninghjólið er með pedala fyrir spinningskó sem ég á alls ekki. Hún helypur fram, ég tef þar af leiðandi New Yorkarana, en í New York er tíminn peningar og ég var að tapa þeim. Kennarinn kemur tilbaka, hendir pedulunum undir hjólið og ég hefst handa.

Nammið hedur sig í miðjum maganum á milli spretta en skýst upp í háls annars slagið. Pedalinn er ekki alveg fastur á og ég beygla ökklann í miðju ímynduðu klifri upp á ímyndaða hæð. Kennarinn sér þetta, stöðvar tónlistina og hlúir að mér. New Yorkararnir eru löngu orðnir reiðir og ég klára tímann en sleppi teygjum.

Kannski fór nammið ekki heldur vel í Óskar greyið því hann vaknar á 45 mínútna fresti alla nóttina. Fyrsta auglýsingin í morgunsjónvarpinu er auglýsing um vetrarþunglyndi New York búa. Já, ég greini mig á staðnum og fer strax í það að finna lækningu. Búin að bóka sumarbústað í Woodstock þarnæstu helgi og ætla í jóga tíma í kvöld, hvað getur mögulega farið úrskeiðis í jóga?

föstudagur, janúar 18, 2013

Göngutúr

Hef ekki ryksugað í marga daga. Tek upp ryksuguna og læt vaða. Finn dauðan kakkalakka fyrir neðan gluggann, hann lítur út fyrir að hafa orðið fyrir eldingu. Furðulegt.

Ég fer því næst út að labba. Geng 14. götu og sé mann kýla annann mann aftan í hnakkann. Maðurinn fellur á jörðina og fær blóðnasir. Ég geng framhjá en sé að fólk er búið að hringja á sjúkrabíl. Maðurinn lætur öllum illum látum, vill ekki fara upp í sjúkrabílinn en honum er haldið niðri.

Ég held göngu minni áfram og sé hóp frá Universal Studios á Toyotabifreið sem búið er að breyta í ísjaka vera að taka upp eitthvað sem virðist vera auglýsing. Held örlítið áfram og sé fjóra slökkviliðsbíla vera fyrir utan eina bygginguna. Engann eld að sjá svo ég rölti áfram.

Heimilislaus maður biður mig um pening sem ég á en er ekki með á mér og verður til þess að hann bölvar mér í sand og ösku og spyr mig hvað skórnir mínir hafi kostað. Ég fæ samviskubit og íhuga að fara í hraðbanka en man þá hryllingssögur frá Ekvador um rán og hraðbanka. Ég bít á jaxlinn, tek móðgunum hans og held áfram.

Ég er komin á Union Square og þar blasir við mér trúboði með gyllta plastkórónu. Hann varar fólk við þeim ólifnaði að vera ekki frelsaður og hvað bíður þeirra sem ekki ganga að eiga Guð sinn á þann hátt sem hann predikar. Gömlu mennirnir sem spila skák á torginu láta sér fátt um finnast og halda leik sínum áfram. Eldri maður hefur tekið upp á því að spreyja fötin sín og skóna sína gyllta og stendur líkt og stytta. Ég fæ frábæra hugmynd af hrekkjavökubúning og rölti mína leið.

Ég geng niður Broadway og horfi á fólkið eins og maura, allir að flýta sér. Áttavilltir túristar horfa til skiptis á kortin sín og umhverfið en eru engu nær. Ungt par mér við hlið er að rífast. Ég velti fyrir mér hvort það væri ekki hressandi að rífast úti á miðri götu. Ég vildi að ég gæti það. Parið heldur áfram að rífast og kreistist svo fram úr mér. Ég velti fyrir mér hvort þau muni hætta saman. Ég ákveð að koma mér úr geðveikinni og kem mér yfir á sjöundu götu og áleiðis heim.

Geng framhjá Sushi Samba og ímynda mér Carrie Bradshaw að panta sér velvalið sushi. Sé fallegar fatabúðir á milli klámbúðanna á Christopher götu.

Kem heim og skipti á barninu sem er löngu búið að kúka og velti fyrir mér öllum lífsins litum og lögum. Vonandi er maðurinn með höfuðáverkana búinn að ná sér og trúboðinn búinn að finna allavegana tvo áhangendur.