þriðjudagur, október 23, 2012

Þvottadagur

Þótt það sé ekkert nýtt fyrir mér að þvo þvott þá tel ég þvottadaginn minn fyrir helgi sem nýja reynslu og þar af leiðandi afsökun fyrir bloggi (þið ykkar sem eruð viðkvæm fyrir upplistun ómerkilegra atburða í lífi annars fólks er bent á x-takkann í horninu).

En eins og þið hafið sennilega ímyndað ykkur og séð í sjónvarpinu þá eru flestar íbúðir hérna í stórborginni þvottavélalausar. Sumar byggingar búa svo vel að vera með þvottahús í kjallara eða farið er með þvottinn í svokallað laundromat eða á þvottahús þar sem þvottinum er skilað inn og hann sóttur seinna þrifinn og brotinn saman. Hérna í byggingu 165 á Christopher götu er þvottahús í kjallaranum, við hliðina á skrifstofu húsvarðarins Fernando. Gegn vægu gjaldi er hægt að koma tveggja vikna þvotti í eina alvöru ameríska þvottavél og þurrka þetta svo allt saman, eitthvað sem móðir mín og ömmur myndu fussa yfir, enda algerlega á skjön við það sem kennt er í Húsó.

Þar sem ég er nú grasekkja megnið af vikunni þarf ég að finna mér frumlegar leiðir til þess að fara niður í kjallara með þvottin og barnið. Ég brá því á það ráð að skella barninu í barna-björninn, þvottinum í vagninn og bruna af stað niður lyftuna inn í þvottahús. Þar mættu mér fjölmörg augu, en skrifstofa Fernando var full af kaffilepjandi karlmönnum. Ekki var mér boðið í kaffi, kannski út af vagninum yfirfullum eða barninu sem hékk framan á mér.

Ég vel mér stærstu vélina og byrja að týna inn í hana litaða þvottinn en enda svo á því að henda öllu inn í hana þar sem að Óskar var farinn að vera órólegur og nokkrir karlmenn frá skrifstofu Fernando farnir að fylgjast með mér. Tveir menn koma svo inn í þvottahús í níðþröngum gallabuxum með sléttað hár og plokkaðar brúnir. Núna var ég farin að skilja hvers vegna mér var ekki boðið í kaffi. Þeir heilsa mér, Oh my gosh what a cutie! Ég gerði ráð fyrir að þeir væru að tala um Óskar Fulvio og leyfði þeim að knúsa á honum kinnarnar. Þeir byrjuðu að týna úr þurrkaranum og brjóta saman þvottinn sinn með slíkum fagmannabrag að ég roðnaði. Mig langaði mest til þess að afsaka mig fyrir að hafa hent öllum þvottinum í eina vél en ég fann að þeir dæmdu mig ekki, heldur fóru að tala um stórsniðuga leið til þess að pressa smá krumpu í fötum án þess að taka upp straujárnið -þú hreinlega hengir flíkina á snaga og notar sléttujárnið þitt! Þeir héldu svo áfram að tala um skemmtilegar lausnir og sögðu ef að þú ert með svitarollonbletti í fötunum þínum þá er hægt að spreyja gamlar sokkabuxur með hárspreyi og nudda því á blettinn, hann ætti að hverfa. Síðasta ráðið sem ég fékk frá þeim var hvernig hægt er að sporna við svitablettum, þú straujar (eða sléttar með sléttujárninu þínu) barnapúðri inn í handakrikann á flíkinni og kabúmm, johnson blettir heyra sögunni til!

Ég fór upp í íbúð glöð og kát með að hafa eignast þvottahúsavini og lært heilmikið í leiðinni. Þegar kom að því að fara aftur niður og henda í þurrkarann var ein bleik flík því miður búin að lita nokkara hvítar flíkur en mér til mikillar lukku voru mennirnir farnir og enginn sá þvottamistök mín, didn´t happen!

Ég þakka áherynina í bili, ég heyri í Fernando ryksuga hérna fyrir utan og eitthvað virðist hann vera í stuði fyrir Florence and the Machine því The dog days are over hefur verið á repeat í tíu mínútur. Ætla að skella mér í göngu og mynda Halloween skreytingar sem verða á vegi mínum.

Þangað til næst, lifið heil!


4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hahaha þú ert svo mikill snilligur Ólöf, ætla að klárleg að nýta mér þessi ráð fyrir þvottin :)

kv Jenný

Ágústa S. sagði...

Þessi ráð eru ekki kennd í húsó, spurning um að senda þeim mail um að fara að breyta námsefninu ;) Er samt að meta það svoo mikið að þú sért farin að blogga á fullu :) Verðum svo að fara að heyrast á skype er farin að sakna ykkar :/

Valgerður sagði...

Góð ráð ætla að prufa!!!

Nafnlaus sagði...

hehe sé þig alveg fyrir mér, get ekki beðið eftir að kíkja á þig og þá get ég lifað mig enn betur inn í bloggin :)

kv Teddý