mánudagur, ágúst 13, 2012

Andlega hliðin

Nei ég er ekki hætt við. Hef bara verið löt að blogga (og þar af leiðandi hlaupa). Þar sem að mjaðmirnar öskra af vaxtaverkjum líkt og þær gerðu þegar að ég tók stökkið úr 167cm í 168cm (en opinberar tölur segja 169) hef ég einungis hlaupið einu sinni síðan að ég hlammaði mér í bloggstólinn síðast. Það hlaup átti sér stað á fimmtudaginn síðasta þar sem að 6 kílómetrar lágu í valnum. Tíminn skal ekki gefinn upp, vil ekki fæla samhlauparana frá mér svona stuttu í mót. Lifði þetta af, en ekki mikið meira en það.

Í öllum íþróttum er mikilvægt að huga að andlegu hliðinni og hef ég einbeitt mér að henni síðustu dagana. Kannanir sýna að þeir sem horfa mikið á fótbolta eru betri í fótbolta en þeir sem gera það ekki. Ég fylgdist því grannt með maraþon keppni karla, andaði að mér visku lýsandans og ímyndaði mér hvernig ég myndi hlaupa. Er að spá í að nota sama hlaupastíl og þessi sem varð í 2.sæti, þessi sem hljóp alltaf heim úr skólanum með bækurnar í hendi, get ímyndað mér að bjórinn sé í hægri hendinni og það má ekki hellast úr honum. Ég ætla líka að passa mig að vera alltaf að stoppa og fá mér vatn og kannski gefa fólkinu high five á leiðinni. Já verð að sýna Ólympíuandann. Eins hef ég heyrt að pasta-át sé gott fyrir svona mót og hefur það verið stundað ákaft. Þarf að sauma hlaupabuxurnar þar sem að saumurinn fór í hlaupinu um daginn. Skil ekkert í því. Ætla að fara í fótabað í hlaupaskónum svo ég fái ekki hælsæri, það gekk alltaf í boltanum í gamla daga. Verð að muna að laga playlistann, það er ekkert eins skemmandi fyrir andlegu hlið hlaupsins en léleg lög, fer hreinlega í fýlu ef að rangt lag kemur upp á fóninn. Ég man hvernig það fór fyrir mér síðast þegar að lag fór í taugarnar á mér á meðan að ég hljóp...

Á meðan að ég hlúi að andlegu hliðinni klára ég leifar sælgætiskaupa helgarinnar, en markmiðið er nammilaus vika og eitt hlaup í viðbót áður en 10km eru farnir.

Hef stofnar styrktarsíðu en er bara komin með 0kr. Hef trú á að ég nái þúsund króna markinu áður en hlaupið hefst.

Ætla að fara að horfa á Rocky, The Miracle og Mighty Ducks. Þær geta ekki klikkað.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

go Lafa go!!! Þú ert náttúrulega bara snillingur! Finnst það mikið afrek að hoppa beint úr barneignum í maraþon! Var einmitt að jútjúba inspirational running, þar kom margt sniðugt í ljós :Þ
Lilja Hrönn

Nafnlaus sagði...

Hlaupagikkurinn minn!
Búin að senda sms og hjálpa þér að ná þúsund króna markmiðinu :)
Hlauptu eins og vindurinn...
Dúna