þriðjudagur, ágúst 16, 2011

New York er ekki bara Manhattan með stórhýsum, Tímatorginu og gulu leigubílunum. New York er líka Queens, Bronx og Brooklyn, svo einhver hverfi séu nefnd. Það sem mér finnst skemmtilegast við þessa sjálfboðavinnu er að ég fæ að kynnast nýjum hverfum og nýjum verkefnum á hverjum degi. Ég reyni að skrá mig í sem fjölbreyttustu verkefni sem í boði eru og í dag var ég þess heiðurs aðnjótandi að fara til Brooklyn og eyða eftirmiðdeginu með eldri borgunum í gyðingasamkomuhúsi, aðallega innflytjendur frá Austur Evrópu, en sumir þeirra lifðu af helförina.

Verkefnið gekk út á það að elda hádegismat handa 70 manns að gyðingasið (mjólkurvörurnar máttu ekki koma nálægt öðru í eldhúsinu og svo framvegis -ákaflega áhættusamt starf fyrir mig og því sjálfskipaði ég mig í að skera sítrónur í teið, frekar lítil áhætta sem því fylgir, svona trúarlega séð). Boðið var upp á hrásalat, kjúkling og kartöflubrauð, venjulegt brauð, smjör, sultu og te með sítrónu. Þegar að fólkið kom á staðinn tókum við á móti þeim, en þau komu með bílum sem pantaðir voru til þess að sækja þau heiman frá sér. Þar eftir var fólkinu fylgt í sætin og við bárum diskana á borð og þjónuðum eftir þörfum. Sumir voru ákveðnari en aðrir -felst allir vildu bara kjúklingaleggina, ekki kjúklingavængina sem var erfitt þar sem að kjúklingur hefur bara tvo fætur en ekki fjóra eins og við þurftum!. Öðrum fannst teið of sterkt, of veikt, of heitt, of kalt og því þurfti að hlaupa fram og tilbaka með hitt og þetta svo að allir yrðu ánægðir. Á meðan á matnum stóð gengum við á milli borðanna og spjölluðum við þá sem vildu félagsskap. Ég settist hjá einni konu sem var mest áhugasöm um hagi mína, hvað ég væri nú að gera í lífinu, hvað ég væri gömul, spyrjandi mig af hverju ég væri ekki gift, ætti ekki börn og væri ekki í vinnu... -það er víst sama í hvaða heimsálfu maður er, alltaf er maður spurður sömu spurninganna :)

Þegar að matnum lauk tókum við diskana saman, kveikt var á græjunum, tónlistarmaðurinn byrjaði að spila og fólkið sem rétt hafði náð að staulast inn í salinn var mætt í stöðurnar og tilbúið í dans. Sumar konur voru á hælum með varalit og í fallegum, passlega síðum pilsum (en við höfðum fengið tölvupóst um það hvernig við ættum að klæða okkur, hnésíð pils eða buxur, mátti ekki sjást í brjóstaskoru og hendurnar máttu sjást upp að olnboga).

Fyrsti dansinn sem stiginn var hljómaði svona en ég hafði rétt fyrir fengið hraðkennslu í sporunum og dansaði villt og galið með þessu ágætisfólki. Síðan tók við hald-dans með rússnesku ívafi við harmónikkuleik og söng, en þá passaði ég mig að draga mig í hlé og fylgjast með -eins og góðum mannfræðingi sæmir. Síðan skiptist dansinn upp í fyrsta-dansinn, hald dans með rússnesku ívafi, hald-dans a la rúmba, en þegar að one-o'clock, two-o'clock, three-o'clock rock kom á þá troðfylltist dansgólfið og allir tvistuðu af sér rassinn, þar á meðal ég.

Síðan tók meðvitunarkerfið aftur við sér og ég dró mig í hlé. Þá kom annað lag sem ég kannaðist við, en það var the electric slide sem er þekkt línudanslag sem spilað er villt og galið í amerískum brúðkaupum og allir kunna. Hér var engin undantekning og allir sem gátu staðið stóðu upp og tóku þátt í rafmagns-rennslinu. Síðan kom hands up, put your hands up, give me your love give me give me your love... lagið sem allir sungu hástöfum með. Deginum var svo slúttað með God bless America og lag Ísraels þar sem allir stóðu upp og sungu, voðalega hátíðlegt og fallegt eitthvað.

Að lokum fylgdum við þeim út í bílana sem keyrðu þau heim og fengum kossa og knús frá yndislegu fólki sem hafði svo gaman af þessu öllu saman, en þau höfðu örugglega ekki janf gaman af þessu og ég því ég brosi enn í hringi og sing Hava, nagila hava, hava, nagila hava ;)

Á morgun mun ég svo aðstoða heimilislausa menn að finna vinnu á Tímatorginu og á fimmtudag fer ég í leikhúsleiki með 8 ára börnum.

Verð að óska Grindavík til hamingju með sigurinn svona í lokin -lifið heil, lífið er stutt!

4 ummæli:

Ágústa S. sagði...

Hahah sé alveg fyrir mér gamalt fólk koma inn með göngugrindur og svo henda þeim út í horn þegar tónlistin byrjar (Er ég að ímynda mér of mikið) hahah

Lafan sagði...

haha nei! þetta var nákvæmlega þannig! endalaust fyndið!!

Nafnlaus sagði...

Hjómar of skemmtilega :D
kv magga

Nafnlaus sagði...

Hjómar of skemmtilega :D
kv magga