laugardagur, ágúst 13, 2011

I'm still I'm still Óöf from the block

Þá er enn einn laugardagurinn genginn í garð hérna á Grandargötu 327 í Nýju Jórvík. Gestirnir voru rétt í þessum töluðu orðum að drösla farangrinum niður allar fimm hæðirnar og hóa sér leigubíl úti á götuhorni. Núna bíð ég spennt frétta hvernig salíbunuferðin upp á flugvöll hafi gengið, en leigubílstjórar í New York eru þekktir fyrir allt annað en að taka því rólega í umferðinni.

Milli þess að versla, skella mér í bíó og á söfn með gestunum hef ég verið að sjálfboðaliðast. Fyrra verkefnið sem ég tók að mér var að aðstoða heimilislausa karlmenn í Harlem við að gera ferilskrár, finna vinnur og sækja um þær. Ég var vel undirbúin fyrir ferðalagið frá Neðra Eystra svæðinu alla leið upp í Harlem og tók mér góðan tíma. Það tók mig tvær lestir og tíu mínútna gang að koma mér á leiðarenda. Að koma í El Barrio var eins og að koma heim til Quito, það var spænskan töluð á hverju götuhorni og fullt af karlmönnum hangandi fyrir framan byggingar bíðandi eftir einhverju sem aldrei kemur. Fékk meira að segja nokkrum sinnum sömu tilfinningu og þegar ég áttaði mig á því að verið væri að ræna okkur Ingibjörgu í denn þar sem að menn ganga hratt að þér sitt hvorum megin við götuna, en til allrar hamingju voru þeir bara að heilsast. Lögreglan var líka sýnileg á hverju götuhorni sem kveikti nokkara viðvörunarbjöllur hjá mér um leið og það vakti með mér öryggistilfinningu.

Ég fann staðinn nokkuð auðveldlega og hringdi bjöllunni fyrir utan heimilið. Þar svaraði elskuleg kona og hleytpi mér inn. Þegar ég var komin inn gekk ég framhjá fullu herbergi af körlum á öllum aldri að spila billjard, spil, að lesa eða að horfa á sjónvarpið. Húsið er svo kallað half-way-house þar sem að menn koma og fá aðstoð við að koma sér af götunni. Þar má ekki neyta vímuefna og mennirnir verða að leggja sitt fram við að fá sér vinnu og þar fram eftir götunum. Við vorum þrjár stelpur mættar og okkar hlutverk var að byrja á því að búa til tölvupóstfang fyrir mennina, skrá þá inn og hefjast handa við gerð ferilskráar. Mennirnir kunnu fæstir á tölvu og því sátum við fyrir framan skjáinn og pikkuðum upplýsingarnar inn fyrir þá. Margir þeirra höfðu ekki lokið grunnskólaprófi og höfu verið á götunni meira og minna allt sitt líf. Þeir gátu ekki gefið upp símanúmer því að þeir áttu engan síma og ekkert heimilisfang. Við skrifin á ferilskránum og við það að sækja um vinnur komu ýmsar upplýsingar um mennina í ljós, eins og að flestir þeirra höfðu setið í fangelsi oftar en einu sinni en frekari upplýsingar um fyrir hvað vildi ég ekki vita og með minni mögnuðu samskiptahæfni náði ég í öllum tilfellunum að tala í kringum það.

Það stakk mig mest hversu beygðir mennirnir voru, hversu lítið álit þeir höfðu á sjálfum sér og hversu margar brýr þeir höfðu brunnið að baki sér. Það sem gladdi mig hins vegar mest var hversu stutt var í húmorinn hjá þeim og hversu þakklátir þeir voru okkur. Þetta verkefni opnaði augu mín fyrir hluta Nýju Jórvíkur sem ekki er seldur í ferðamannabæklingum. Í húsinu bjuggu 98 karlar, og er það einungis brotabrot af þeim sem þurfa aðstoð í öllu fylkinu, og öllu landinu ef því er að skipta.

Hitt verkefnið sem ég tók að mér var að pakka skólavörum fyrir fátæk skólabörn. Við vorum örugglega 50 sjálfboðaliðar sem pökkuðum 6000 bakpokum fulla af skólavörum og bókum fyrir börn sem ekki eiga pening fyrir slíkum kaupum. Það er nú lítið að segja um slík verkefni -en ég var stjarnan í hópnum. Alltof snögg í snúningum fyrir heimavinnandi húsmæðurnar sem kvörtuðu sáran yfir því að bakpokastöðvarnar þeirra væru að fyllast... Enn og aftur kemur reynslan í blóðhreinsuninni í Vísi sér að góðum notum...

Næstu verkefni eru í Brooklyn þar sem að ég mun eyða eftirmiðdeginum á elliheimili fyrir fólk sem lifði af helförina og svo að aðstoða arabískar konur tala ensku fyirr borgararéttinda prófið þeirra. Núna er hins vegar komið að því að hitta næstu gesti, en Kristján frændi og snillingur með meiru er staddur í borginni með sitt hafurtask og er ætlunin að fá sér hádegismat með eðalfólknu og svo kannski elta þau í búðir (ef ég þori....)

Eigið góða helgi
-Lafan

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá þetta heyrist vera rosalega gefandi vinna sem þú ert búin að koma þér í! Snillingur!
p.s Ég kem eftir 3 vikur og 6 daga !!Hopefully
lov magga

Nafnlaus sagði...

Ekker smá spennandi nóg að gera sem sagt í New York!! Góða skemmtun í búðunum :)
Kveðja Valgerður