fimmtudagur, ágúst 04, 2011

Góðan daginn gott fólk.

Bloggið er risið upp frá dauðum. Bloggið skal ekki lúta í lægra haldi fyrir tískubólum eins og Twitter og Fésbókarfærlsum. Bloggið skal lifa. Bloggið skal fá notið sinnar fornu frægðar. Í dag hefst nýr bloggkafli, í dag verður New York fyrir barðinu á þöknum Löfunnar.

Eins og alþjóð veit þá er ég atvinnulaus meistari með þrjú tungumál í fartestkinu, lífsreynslu og líkama á við fimmtuga konu en á samt bara einn kærasta og eina heimilisflugu. Við höfum hafið búskap hér á Grandargötu á neðra eystra svæði New York borgar og unum okkur vel í ofurkostnaðarsamri 35-40 fm íbúð þar sem að stofan, svefnherbergið og eldhúsið bindast einu og sama rýminu. Í íbúðinni eru að finna tvær svalarhurðir, einn ískáp, eina eldavél, eldúsinnréttingu sem húsfreyjan notar sem fataskáp (enda fyrirmyndin Carrie úr Beðmálum í Borginni), einn sófa, tvo barstóla (en barborð er hvergi að finna). Í dag var svo fjárfest í sjónvarpi og dvd spilara sem að húsbóndinn fann á lista sem kenndur er við Craig, en þann lista er að finna á internetinu og má finna allt frá spúsu til notaðra hárbursta á eina og sama staðnum.

Sökum atvinnuleysis og almennrar leti hef ég ákveðið að blogga lífið af stað. Í gær tók ég forskot á sæluna og sótti námskeið í því hvernig maður á að vera sjálfboðaliði hér í borg. Námskeiðið stóðst ég með stæl og hef strax tekið að mér feiknaverkefni, að elda mat ofan í heimilislausa á laugardagsmorgun. Sumarið í Vísi kemur hér að góðum notum, en það eldaði ég morgunmat ofan í 50 manns (og þegar að ég segi elda þá meina ég hrindgi í bakaríið og pantaði brauð). Næsta verkefni er að sækja annað námskeið í því hvernig maður getur aðstoðað bandarísk ungmenni við lærdóm fyrir SAT prófin (sem eru eins konar samræmd próf). Þar á eftir skráði ég mig í lista-verkefni með blindum og sjóndöprum börnum.

Húsfreyjan er spennt fyrir komandi tímum með blogginu sínu og ykkur sem viljið fylgjast með ævintýrinu á Manhattan eyju.

Smelli inn línu þegar að ég hef klárað fyrsta sjálfboðaverkefnið mitt, þangað til næst,
Lafan.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alltaf gaman að fylgjast með þér mín kæra! Bíð spennt eftir næsta bloggi. Þetta lofar bara góðu þarna hjá þér í NYC. Hafðu það súper!

kv. Kristín María

Ágústa S. sagði...

Váá hvað ég er glöð yfir því að þú sért byrjuð að blogga :) og nýja útlitið er ekkert smá flott. En heilislausafólkið með iphone gæti bara ekki verið heppnar með kokk og tala ég af reynslu við að fá að borða hjá þér í vísi í sumar ;) Hlakka til að lesa meira :D

Elín Tinna sagði...

Alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt! Keep up the good work;)

Nafnlaus sagði...

Frábært að þú sért farin að blogga aftur. Gaman að lesa það sem þú ert að bralla:)
Knús í hús
Guðrún Erla

Lilja Hrönn sagði...

geggjað að geta lesið aðeins um þig og öllu því sem þú kemur þér út í þarna í NYC. Hvað er annars Vísir? Sumarið í Vísi? fatta ekki alveg????

Nafnlaus sagði...

líst vel á þetta synd að svona góður penni eins og þú ert fái ekki að njóta sín ;) bloggið stendur alltaf fyrir sínu... bíð spennt eftir næstu færslu, þar sem maður hefur allann heimsins tíma því snúllan sefur bara út í eitt ;)

Nafnlaus sagði...

kv Teddý gleymdi að setja það inn :)

Lafan sagði...

Takk takk -commentin eru framar vonum og gefa mér byr undir báða vængi að halda áfram á bloggbrautinni :)

og Lilja, Vísir er útgerðarfyrirtæki í Grindavík þar sem að ég vann sem aðalkokkur í sumar, ættir að skella þér í kaffi þangað við tækifæri hehe

Nafnlaus sagði...

Stórt Whooooppp fyrir meistarabloggaranum!!! Las eldavél fyrst sem saumavél, sá það ekki alveg fyrir mér ;) Knús í hús til ykkar Magga..
Duggöndin.