þriðjudagur, ágúst 09, 2011


Héðan úr hitarigninunni í Nýju York er allt besta að frétta. Atvinnulausi sjálfboðaliðinn og vinnandi húsmóðirin fékk kærkomna gesti í hús á föstudaginn þegar að Lovísa og Hilmar komu alla leið frá Íslandi í mekkaferð í borgina frægu. Við skötuhjúin bjuggum um þau á ofurvindsænginni sem hýst hefur frægt fólk eins og Margréti Kristínu, Margréti Alberts, Margréti Ingþórs, Ingu Dís, Kristínu Karls og Dísu Edwards. Ekki gat húsfreyjan hugsað um gesti sína á laugardeginum sökum anna, en þá hófst sjálfboðaævintýrið mitt fyrir alvöru.

Eins og stressaðri manneskju sæmir mætti ég korteri á undan settan tíma í verkefnið mitt sem staðsett var á gömlu hóteli á Times Square sem breytt hafði verið í aðkomuhús fyrir eldri borgara sem ekki áttu heimili eða pening fyrir mat. Mitt fyrsta verkefni var að staðfesta komu mína og velja mér verkefni (það er kosturinn við að mæta of snemma í hluti!). Ég valdi að hreinsa epli, pakka þeim fallega inn í poka og svo að setja mat á diskinn sem kokkurinn í húsinu hafði matreitt. Mér til mikillar skemmtunar var nánast allt starfsfólkið á þessum stað spænskumælandi og hlustaði á salsa í botni á meðan að maturinn var eldaður. Verkefnið tók fjóra tíma og í þrjá klukkutíma stóð ég yfir sjóðandi heitum kjúklingi og svínsrifjum, hrísgrjónum og niðursoðnu grænmeti. Eins og gefur að skilja þá er þetta hjálparstarf og ekki peningar til fyrir loftkælingu. Yfir 30 stiga hiti úti, raki og ég standandi yfir sjóandi heitum mat að metta 250 manns er ekki sérlega falleg sjón þar sem að svitinn fór yfir öll velsæmismörk. Ég náði að redda mér með því að þurrka mér pent annað slagið með pappírsþurrkum, en gúmmíhanskarnir, hárnetið og plastsvuntan voru ekki að vinna með mér í þessari baráttu.

Þegar um hálftími var eftir af verkefninu kom hins vegar babb í bátinn. Eitthvað hafði kokkurinn gleymt sér í heitri salsa tónlistinni því að maturinn kláraðist! Enn áttu 16 manns eftir að fá mat á sinn disk en þá voru góð ráð dýr. Starfsfólkið fór því að öskra hver á annan, enginn vildi taka ábyrgð á klúðrinu og eftir sátu 16 svangir, þreyttir og fátækir eldri borgarar með spurningamerki framan í sér, því jú allt fór þetta fram á spænsku. Í stað þess að grípa eitthvað til og redda aumingja fólkinu var haldið áfram að rífast, kokkurinn stormaði út, konan sem var með mér í að setja á diskinn fór á eftir honum og ég horfði framan í fólkið sem var tilbúið að slást fyrir síðustu matarbitana í húsinu. Loksins eftir miklar rökræður sem smituðust yfir til fólksins sem var orðið mjög svangt, kom yfirmaður hótelsins, skipaði okkur að taka mat úr frystinum og þannig redduðum við þessu fólki, með frosnum ávaxtasafa, frosnu brauði og hnetusmjöri. Þegar að búið var að ganga frá eftir matinn, gekk ég út á Times Square, settist á borð í mannþrönginni og velti fyrir mér hversu misjanft fólk hefur það. Þarna voru milljónir manna hlaupandi á milli búða að kaupandi hvern hlutinn á fætur öðrum, á meðan að sumt fólk slæst um matarbitana...

Það tók mig daginn að jafna mig og á sunnudeginum ákváðum við að lyfta okkur upp og kíkja á Coney Island þar sem að má finna gamaldags tívólí og Rússa. Við Magnús vorum dugleg að draga Lóu og Hilmar með okkur í tækin, þar á meðal þetta hérna sem ég held að Hilmar greyið eigi aldrei eftir að fyrirgefa okkur fyrir...

í gær var svo skellt sér í sund í Central Park og notið blíðskaparveðursins sem geysar hefur á eyjunni góðu undanfarna daga. Í dag kemur svo Cable Guy í öllu sínu veldi og ætlar að stilla sjónvarpið sem nýverið var fjárfest í og gefa okkur fullt fullt af amerískum eðal stöðvum. Hilmar á einnig afmæli í dag og hefur kappinn ákveðið að hann vilji fara á Hard Rock á Times Square til þess að fagna þessum tímamótum, en það er mikið stökk að vera allt í einu orðinn 12 ára ;)

Næsta sjálfboðaverkefni er skráð á fimmtudaginn þar sem að ég mun aðstoða heimilislausa menn í Harlem með atvinnuviðtalstækni og hvernig best sé að klæða sig fyrir slík viðtöl (ég gæti kannski lært eitthvað í leiðinni!)

Með von um að þið hafið það sem allra best út um allan heim
-Lafan

5 ummæli:

kolla sagði...

úff sorglegt að hugsa útí allt þetta fólk sem þarf að fá þessa hjálp. en þú ert endalaust dugleg =)
Hafið það gott :*

HIldigunnur Engilbertsdottir sagði...

Djöfull ertu öflug! Sérstaklega að vera að sumri til í New York inni í heitu eldhúsi án loftkælingar!!! You're one tough cookie.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir annað snilldarblogg! Og það er gott að vita til þess að frábært fólk eins og þú er að hjálpa fólki sem á ekkert :)
-erla systir

Ágústa S. sagði...

Bara að kvitta fyrir að ég sé búin að lesa ;) annars sé ég þig alveg fyrir mér þarna í eldhúsinu haha :)

Nafnlaus sagði...

Þú ert mögnuð!
kv. magga