þriðjudagur, febrúar 05, 2013

Vetrarblús

Vetur í New York er jafn leiðinlegur og sumrin eru skemmtileg. Slydda, gaddi og malbik. Steinsteypa, umferð og mengun. Grindavíkurhjartað slær hratt og eyjaskeggurinn í mér þráir að sjá víðáttu, kannski nokkur dýr. Einhver fésbókarvinur minn dirfist til að birta mynd af bland í poka skál. Það er ekkert sem ég þrái heitar en bland í poka. Ég skunda í sænsku nammibúðina sem er í götunni minni, fylli hann líkt og ég geri jafnan í nammilandi á laugardögum og fer svo að borga. Sænska nammibúðarstúlkan talar sænsku við mig og heilsar Óskari eins og hún þekki hann. Ó nei, hún kannast við mig. Á leiðinni út óskar hún mér velfarnaðar og segir við Óskar, gott að mamma sé búin að fá nammiskammtinn sinn í dag. Ó nei nei nei.

Kannski þarf ég bara að hreyfa mig. Ég klára nammið og skelli mér í spinning tíma þegar mannsefnið skilar sér loksins heim. Síðasta hjólið bíður eftir mér. Kennarinn hlýtur að hafa séð mig í nammibúðinni því hún hendir mér fremst. Kemur á daginn að spinninghjólið er með pedala fyrir spinningskó sem ég á alls ekki. Hún helypur fram, ég tef þar af leiðandi New Yorkarana, en í New York er tíminn peningar og ég var að tapa þeim. Kennarinn kemur tilbaka, hendir pedulunum undir hjólið og ég hefst handa.

Nammið hedur sig í miðjum maganum á milli spretta en skýst upp í háls annars slagið. Pedalinn er ekki alveg fastur á og ég beygla ökklann í miðju ímynduðu klifri upp á ímyndaða hæð. Kennarinn sér þetta, stöðvar tónlistina og hlúir að mér. New Yorkararnir eru löngu orðnir reiðir og ég klára tímann en sleppi teygjum.

Kannski fór nammið ekki heldur vel í Óskar greyið því hann vaknar á 45 mínútna fresti alla nóttina. Fyrsta auglýsingin í morgunsjónvarpinu er auglýsing um vetrarþunglyndi New York búa. Já, ég greini mig á staðnum og fer strax í það að finna lækningu. Búin að bóka sumarbústað í Woodstock þarnæstu helgi og ætla í jóga tíma í kvöld, hvað getur mögulega farið úrskeiðis í jóga?

1 ummæli:

Sigrún sagði...

En æðislega frábært blogg! Ótrúlega skemmtileg og hnyttin skrif en samt svo alveg í raunveruleikanum :)