þriðjudagur, febrúar 19, 2013

Woodstock

Hann kemur heim rétt fyrir fjögur og ég hendi töskunum í bílinn. Passa mig að hafa sænska nammið við hendina og bý vel um barnið aftur í. Sólin skín og ég finn fiðringinn í maganum. Við höldum út í helgina full tilhlökkunar, leiðin liggur til Saugerties sem er pínulítill bær við Hudson fljót og í nágrenni við Woodstock. Þar höfðum við leigt hús yfir helgina til að hlaða batteríin fyrir seinni hálfleik vetrarins.

Ég er í þann mund að byrja á nammipokanum þegar að við áttum okkur á stöðu mála. Ógurleg umferð mætir okkur á leið út úr borginni, og til að gera langa sögu stutta þá missti einn aðili gleðina í örstutta stund, hótaði að keyra heim og hætta við þetta allt saman, en hætti við að hætta og fékk sér nammi. Bílferð sem vanalega tekur einn og hálfan tíma tók þrjá klukkutíma en á endanum komust við leiðar okkar.



Það var orðið dimmt og enginn nágranni heima. Engin ljós nema ljósin frá bílnum. Magnús stígur út úr bílnum til að finna lykilinn sem var falinn á bakvið hús samkvæmt leiðbeiningum mannsins sem leigði okkur húsið í gegnum heimasíðu á netinu. Það var freistandi að hugsa um tökustað hryllingsmynda í þessum aðstæðum en ég ýtti þeim hugsunum frá mér jafn óðum. Ekkert bólaði á Magnúsi og allt í einu var Óskar litli farinn að efast um aðstæður líka. Sá hann eitthvað sem ég sá ekki? Barnið öskraði hástöfum og var óhugganlegur. Þegar ég var í þann mund að fara að leita að Magnúsi birtist þessi elska með húslykilill en kvartaði undan ægilegri dimmu.

Við göngum upp að dyrum og með hjálp nútímasímans tekst okkur að opna. Fúkkalykt, brak og brestir. Alveg eins sjarmerandi og ég hafði ímyndað mér. Ekkert sjónvarp og takmörkuð nettenging. Við komum okkur fyrir og fórum snemma í háttinn. Ég náði ekki að festa svefn vegna alls kyns hljóða sem ég heyrði alla nóttina. Einu sinni heyrði ég meira að segja hóst sem ekki kom frá Magnúsi eða Óskari. Loksins kom dagurinn og við enn á lífi. Við Magnús grínuðumst með það að eigandinn gæti hæglega verið raðmorðingi, enginn vissi akkúrat hvar við vorum, fullkominn glæpur.

En allt breyttist í dagsljósi, kofinn varð fallegur og draugar næturinnar flugu burt eins og fuglarnir í trjánum. Saugerties og Woodstock voru allt sem við höfðum vonað og vel það. Nema fyrir utan eitt lítið smáatriði. Woodstock var víst ekki haldið í Woodstock, heldur í Bethel. Tonleikahaldarar fengu víst ekki tilskylin leyfi fyrir hátíðinni í Woodstock en kölluðu hana samt Woodstock, smá brella að mínu mati eeeeen þar sem bærinn er sannur hippabær þar sem að maður fer nokkur ár aftur í tímann er það þeim fyrirgefið.

Næturnar liðu eins, ég með kaldan svita á bakinu að bíða eftir raðmorðingjanum og vera alltaf jafn hissa að vera á lífi þegar að sólin reis. Með hugmynd af nýrri bók í maganum skiluðum við svo okkur aftur heim til New York heil á húfi og ég hef sjaldan verið eins glöð að leggjast á koddann í "herberginu" okkar á Christopher götu í myrkrinu innan um vælandi sjúkrabíla og löggur. Bibið í leigubílunum vakti með mér öryggistilfinningu og ég fann hvað það var gott að eiga tíu milljón nágranna.

Ást og friður!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flott hjá ykkur að drífa ykkur til Woodstock. Það er víst annað Woodstock í Virginíu, þar sem er víst ekkert verið að leiðrétta ringlaða túrista og gerir út á að vera "the real thing". Frekar magnað! Annars er ég nú ansi fegin að það var enginn raðmorðingi á eftir ykkur úti í sveit!
Hafið það rosa gott, Lilja Hrönn

Nafnlaus sagði...

Bara skemmtileg þessi skrif þín :)
Bíð spennt eftir nýju bókinni ....
Kveðja frá nafla alheimsins (þar sem ég á bara 2.950 nágranna :)
Petra Rós

Nafnlaus sagði...

Frábær skrif... Segi eins og fyrri ummælandi; bíð spennt eftir bókinni! :O)
Kv.Fríða