fimmtudagur, maí 30, 2013

Á leiðinni heim

Síðasti dagurinn í New York. Ég byrja daginn á að elda egg í morgunmat og brenna mig á bringunni með pönnunni. Byrja að pakka en átta mig á því að ferðataskan er föst uppi í skáp. Næ henni út með herkjum en það stórsér á töskunni og aumingja hillan fékk útreið líka. Hendi í töskuna og nenni ekki meiru. Skelli mér út í 27 stiga hitann og svitna eins og mér einni er lagið. Geng búða á milli í paniki því ég er að fara. Mig vantar ekkert en samt er ég að leita að öllu. Finn loksins popppoka í Old Navy sem kostar fimm dollara og svalar kaupþörfinni minni. Bíð í röð í tíu mínútur til að kaupa poppið, geng út og opna það. Kemur á daginn að það er óbragð af poppinu, enda fatabúðir ekki þekktar fyrir að framleiða gæðapopp. Ákveð að fara heim, skila kerrunni og skella mér með lestinni á 34 götu því þar eru fleiri búðir sem ég get keypt ekkert.

Í svitakasti komumst við leiðar okkar og náum að kaupa vatn hjá Pretzel sala. Göngum um eins og sardínur í dós, enda brjálæðislega mikið af fólki á þessar þekktu verslunargötu. Eftir heimsóknir í HogM, Forever og Strawberry ákveð ég að vera skynsöm, sleppa því að versla og taka lestina heim. Geng alla leið niður að teinunum þar sem að lest nr 1 fer og kemur þá í ljós að hún hafi farið út af teinunum og því væri seinkun. Fer út úr þessari lestarstöð og borga mig inn aftur hjá B lestinni. Hún er á tíma og ennþá á teinunum og ég skelli mér inn. Sest á tyggjó og er nær föst við sætið enda í óheyrilegu svitakasti. Næ að koma mér út á W4 götu og ég sé að fólk finnur til með mér. Ég bít á jaxlinn og geng heim með tyggjó á rassinum og barnið á maganum.

Kem heim og sé að ég hafi gleymt kúkableyjunni á borðinu í steikjandi hita. Lyktin finnst fram á gang. Ég byrja að þrífa og losna loksin við lyktina eftir skúringar nr 3. Ég baða barnið og kem því í ró. Loka ferðatöskunum og vona að ég hafi tekið mest allt með heim. Slekk ljósin og tel klukkutímana í flugið sem vonandi gengur vel þrátt fyrir eyrnabólgu drengsins.

Mín bíður heil helgi af Síkátum Sjóurum sem taka vel á móti mér þótt ég sé með tyggjó á rassinum og grenjandi barn.

Bless í bili New York, Grindavík þú ert næst!

1 ummæli:

Unknown sagði...

haha snillingur :)