þriðjudagur, maí 14, 2013

Hinrik

Kamilla skríður eins og hún eigi lífið að leysa, Óskar fylgir fast á eftir henni og nær henni fyrir rest. Skellir einu góðu "aaaaa" á höfuðið á henni en er því miður ekki nógu blíður og prinsessan rekur upp skaðræðisóp. Við það beina allir athyglinni að skæruliðunum og skerast í leikinn. Þegar ég lít tilbaka sé ég bregða fyrir svartri fjórfætlu á fleygiferð meðfram veggnum hjá sjónvarpinu. Ég læt sem ég hafi ekki séð þetta, enda óhugsandi að það sé komin mús í heimsókn svona þegar að gestir eru í heimsókn.

Ég lifi í blekkingu í einn dag enn og ligg á gólfinu með skæruliðunum og reyni að kenna frumburðinum að hætta að pína litlu frænku, sem gengur ekki neitt. Er ég sit með höndina á Kamillu og segi "aaaaa" sé ég fjórfætluna hlaupa þvert yfir íbúðina, bíræfnin í henni! Ég gat ekki leynt þessu lengur og sagði rólega, "það er mús hérna inni". Ég mátti vita betur. Margrét setur Íslandsmet í hástökki, Helgi ákveður að hann sé líka hræddur við mýs og skæruliðarnir skynja hættu. Öskur og aðeins hærri öskur og Margrét og Helgi þeytast út. Dyravörðurinn veit ekki hvað sé eiginlega í gangi og skundar í áttina til okkar. Skæruliðarnir eru skriðnir út og Didda situr ein eftir greyið og reynir að fanga kvikyndið. Dyravörðurinn er nú búinn að hlægja að okkur og segir mér að fara bara niður og sækja nokkar gildur sem ég og geri.

Við gildrum íbúðina í bak og fyrir og bíðum átekta. Ekkert bólar á músinni sem nú hefur fengið nafnið Hinrik, en Helga fannst hún eitthvað Hinriksleg. Dagur er að kveldi kominn og við göngum til hvílu. Allir sofa vært þegar að sérkennileg hljóð berast úr eldhúsinu. Ég vek húsbóndann með þessum orðum, Magnús -það er eitthvað í eldhúsinu. Magnús hrekkur í kút og svarar, ha er einhver í eldhúsinu? Áður en ég veit er hann farinn með símann að vopni í leit að einhverjum í eldhúsinu og vona að hann átti sig á því að hann sé að leita að mús en ekki manneskju...

Hinrik er lítt gefinn fyrir ljós og hættir leik sínum þegar að Magnús lýsir símanum í átt að skápnum sem hljóðið kemur úr. Um leið og það dimmir tekur Hinrik upp leik á ný. Ekki tókst bóndanum að fanga Hinrik í þetta sinn og svona gengur þetta nótt eftir nótt. Hinrik leikur sér hér og þar um íbúðina á nóttunum en sést hvergi nema einu sinni annan hvern dag á daginn. Hann skilur ekki eftir sig skít, enda um mikla heiðursmús að ræða.

Bóndakonan Didda lætur smá mús ekki hafa áhrif á sig, nema hana klægar í puttana að ná helvítinu, eins og hún orðar það. Margrét er hins vegar svefnlaus og mun nýta sér jógatæknina sem felst í sér slökun sem er á við átta tíma svefn. Helgi er fljótur að gleyma og á meðan að Hinrik sé ekki nefndur nær hann svefni og keyrir bílunum um öll gólf.

Nú skellur á nótt númer sex og er smá tilhlökkun í mér að vita hvað Hinrik tekur upp á í nótt.

Með kveðju frá Christopher götu,
Ólöf, Magnús, Óskar, Margrét, Helgi, Didda, Kamilla og nýjasti íbúinn Hinrik.



2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sé þetta allt saman ljóslifandi fyrir mér!
Bið að heilsa Hinriki :)
Kveðja Dúna

Nafnlaus sagði...

After download and installation, the software is installed, it opens to Quick Start window that will instruct
you on the prowl for keylogger programs? Family-Friendly Refog
Keylogger is running background? There are over 500+
companies selling this stuff and many are making a fortune.
Some of them even go far as to steal company secrets and not allowing sensitive information leak out to the outside world.


Here is my site; free keylogger