þriðjudagur, mars 17, 2015

Koh Rong-Sihanoukville-Siem Reap-Manila-Boracay

Litla farþegaskipið sem hefur það hlutverk að ferja sólþyrsta ferðamenn frá meginlandinu á eyjarnar bíður yfirvegað í höfninni. Tíu mínútur í brottför og Magnus hleypur í nærliggjandi apótek til að kaupa bleyjur (já hann er ekki enn hættur með bleyju og harðneitar að fara á klósettið). Við Óskar bíðum róleg við hafnarbakkann ásamt öllum hinum bakpokaferðalöngunum en förum að óttast um ferðir hans þegar að farþegaskipið gerir sig líklegt til brottfarar. Með svitann að vopni nær hann í tæka tíð og vel það, enda gerist ekki allt endilega á slaginu í þessum heimshluta. KLukkutíma bátsferð á milli eyjanna varð að fimm tíma ferðalagi -en fyrst var farið á eina eyju og svo á Koh Rong en þaðan tókum við bát á annan stað á eynni.

Á þessum stað hafa víst Survior þættir verið teknir upp og var aðalgistiaðstaðan lokuð fram í júní vegna þessa. Survivor þátttakendurnir eru fastir á einhverri eyju rétt hjá en þarna voru tæknimenn og sviðsfók í fullu að vinna. Öryggisverðir stóðu vörð á ströndinni en gáfu sér tíma til að taka myndir með ljóshærða Óskari sem fólk virtist ekki skilja að væri strákur (kannski kominn tími á klippingu?). Þar sem við gátum ekki gist á þessu Survivor hóteli gistum við í "bungalow" á ströndinni sem var í rauninni bara kofi úr spýtum með moskítóneti. Þar áttum eyddum við þremur yndislegum dögum og fundum þessa líka krúttlegu hvolpa sem léku við okkur daginn inn og út. Það var svo ekki fyrr en á síðasta degi að við tókum eftir litlum svörtum flugum á feldinum þeirra sem voru sennilega flær... Beint í sturtu og vonað það besta!


Þaðan fórum við svo aftur á Papa Pippo hippagistiheimilið okkar á Otres 1 ströndinni í Sihanoukville í þrjár nætur áður en við flugum til Siem Reap aftur og eyddum einni nótt þar áður en við héldum áfram til Manila. Upphaflegt plan var að fara til Víetnam frá Kambódíu en vegna langvarandi magavesens hjá undirritaðri var hætt við Víetnam og ákveðið að fara bara til Banoue í Filippseyjum og skoða hrísgjrónaakrana. En það ferðalag átti að taka mjög langan tíma, fyrst næturflug frá Siem Reap til Manila, lent 2 um nóttina og taka svo flug klukkan tíu um morguninn og svo skella sér í þriggja tíma rútuferð á áfangastað. Síðasta daginn okkar í Siem Reap ákváðum við að taka því mjög rólega og skelltum okkur bara í bæinn fyrir smá hádegisverð. Ég og Óskar tókum enga sjénsa og fengum okkur pizzu (en Óskar hafði verið gubbandi nokkrum dögum fyrr) en Magnus ákvað að fá sér ástralskan grillrétt þar sem hann fékk að elda matinn sjálfur. Krókódíll, strútur og kengúra. Hrátt kjöt í 36 stiga hita var kannski eftir á að hyggja ávísun á eitthvað ægilega ósniðugt. Ég smakkaði smá af kjötinu en hélt mér mestmegnis við pizzuna.

Klukkan 20 var svo komið að því að skella sér út á flugvöll og var Magnus þá þegar orðinn hvítur í framan. Við þurftum að hleypa nokkrum framfyrir okkur í innrituninni þar sem að Magnus hljóp annars slagið til að skila ástralska kjötinu. Það kom því ekki á óvart að þegar við lentum í Manila var ákveðið að sleppa því að fara til Banoue og finna hótel í staðinn. Eftir fimm til sex tíma svefn á mjög vafasömu hóteli í vafasömu hverfi var ákveðið að fara bara til Boracay í staðinn. Seinniparts flug bókað og í þetta sinn var röðin komin að mér. Með ótrúlegri þrautseigju komst ég á leiðarenda án nokkurra vandræða, en tæpt var það. Það hvarflaði að mér nokkrum sinnum í rútunni að láta bara flakka -svona til að eiga sögu í gott blogg, en skynsemin tók yfir og öll komumst við á leiðarenda í hreinum nærbuxum.
Núna erum við að njóta lífsins hérna á Boracay en strendur þessarar eyju hafa verið valdar þær fallegustu í heimi af virtum ferðablöðum og við því spennt að sjá fegurðina. Hér er jú yndislega fallegt -en grænn þari hvílir yfir sjávarborðinu. Þetta er víst árstíðarbundið og versti tíminn er að sjálfsögðu mars fram í maí og hefur eitthvað að gera með ammóníak úr hreinsuðum niðurföllum sem drepur fiskana sem vanalega borða þarann (ef þú ert vísindamaður og lest þetta þá biðst ég afsökunar og segi bara eins og maður segir -sel það ekki dýrara en ég keypti það!). En maður vaðar bara yfir þörunginn og nýtur lífsins á vindsænginni sem nýlega bættist í safnið hjá okkur.

Boracay er einnig þekkt fyrir litríkt næturlíf og hérna á hippahótelinu okkar sem heitir því skemmtilega nafni Frendz höfum við fengið að kynnast fullt af skemmtilegu fólki á öllum aldri sem segir okkur krassandi djammsögur í hádeginu þegar þau ranka við sér. Heimamennirnir eru eins og mig minnti alveg yndislega gestrisnir, alltaf til í að leika við Óskar og mjög brosmildir.

Hérna ætlum við að vera þar til 20. mars en þá ætlum við að halda í Filippseyja-hefðina okkar og hitta Gebbu, Ray og fjölskyldu og náum að sjá einn leik hjá fótboltamanninum.

Með einlægri kveðju og ósk um að þið fáið nú frí frá lægðum þarna heima,
-Ólöf Daðey.

Engin ummæli: