þriðjudagur, janúar 13, 2015

Af flugvélum og ljónum

Klukkan hringir. Mér fannst ég ekki hafa sofið neitt. Það er komið að þessu. Flugvöllurinn í Keflavík bíður mín brosandi og vinaleg andlit við innritunina hlýja mér á köldum janúar morgni. Leiðin liggur til Svíþjóðar þar sem ég hitti strákana mína og áfram höldum við þriggja manna fjölskyldan áfram til Amsterdam þar sem enn einn vinalegur flugvöllur bíður okkar en í þetta skipti er flogið til Kilimanjaro. Átta og hálfs tíma flug fyrir einn tveggja ára gutta sem til allra hamingju elskar flugvélar. Með barnaefni og ipad að vopni tekst flugið ágætlega (fyrir utan nokkur skapofsaköst sem vekja athygli samferðafólks okkar). Á móti okkur taka háskólavinir okkar Elliot (innfæddur) og Jamie og Jamal (útlendingar eins og við). Við tekur tveggja tíma keyrsla til Arusha og upp í fjöllin inn á milli Maasai þorpa.

Fyrsta nóttin í Afríku var frekar tíðindalítil og allir þreyttir eftir langt ferðalag. Tímamismunurinn er aðeins 3 tímar þannig að ekki þótti okkur það erfitt að vakna að morgni og gera okkur klár fyrir safarí ferðina. Þrjár nætur, fjórir dagar og margir tímar í safaríbíl með títtnefndu barni.

Leiðin lá í Ngorogoro þjóðgarðinn þar sem við okkur blasti Lion King myndin í allri sinni dýrð. Það er erfitt að lýsa tilfinningunni að keyra um sléttur Afríku með öllum þessum mögnuðu dýrum. Heill dagur í bíl en einhvern veginn fann maður ekkert fyrir því að hafa verið í bíl -en það er ekki á hverjum degi sem maður sér hýönu gæða sér á flóðhesti þrjá metra frá manni.

Frá Ngorogoro fórum við svo til Serengeti þar sem að við gistum í tjöldum með innbyggðum klósettum og sturtum. Eftir langan dag í bílnum leyfðum við Óskari að hlaupa um frjáls til að losa um smá orku. Þá kom einn starfsmaðurinn á svæðinu og bað okkur vinsamlegast ekki um að láta hann einan þar sem að hér byggju ljón og blettatígrar. Við hlupum til hans hið snarasta og vorum ekki í rónni fyrr en hann var kominn í fangið á okkur.

Fyrsta morguninn í tjaldinu vaknaði ég svo fyrir allar aldir við hljóð sem ég hafði aðeins einu sinni heyrt í dýragarði. Jú, passaði. Þetta voru ljón að kalla sín á milli -að leita að hvort öðru. Rétt fyrir utan tjaldið. Við sólarupprás fórum við svo út að finna ljónin og ekki þurftum við að leita langt því við veginn sátu þau þrjú að fá sér að drekka og hvíla sig eftir erfiða nótt (heyrðum líka í einhverju dýri kveðja þennan heim og svöng ljón við matarborðið).

Við tók síðan yndisleg ferð í þessu magnaða landslagi með dassi af Óskara öskrum þegar að hann fékk ekki að öskra á ljónin eða önnur dýr. Þá var gott að eiga ipad til að henda í hann þegar að manni langaði að komast nær blettatígrinum og litlu nýfæddu börnunum hans. Annað kvöldið sátum við til borðs að snæða kvöldverð þegar að kokkurinn stígur út úr eldhúsinu og mætir ljóni, hann stígur varlega aftur inn í eldhúsið og kallaði "Simba" sem er ljón á swahili. Upp með vasaljósin og kveikt á bílunum til að koma þeim frá. Við vorum vinsamlegast beðin um að vera nálægt hvor öðru og alls ekki sleppa litla skæruliðanum. Hljóðin í þeim kallandi á hvort annað voru mjög hávær og dimm. Ekki þótti líklegt að þau myndu ráðast á okkur þar sem að nóg var um dýr fyrir þau en til öryggis fengum við fylgd í tjaldið okkar þar sem við hreyfðum okkur ekki fyrr en við sólarupprás. Þá pökkuðum við saman og kvöddum yndislegu starfsmennina sem bókstaflega hættu lífi sínu svo við myndum nú fá gott að borða. Magnaðasta útilega sem ég hef upplifað! Leiðin heim var svo enn eitt ævintýrið þar sem við sáum fullt af dýrum sem ég hafði aldrei vitað að væru til áður. Toppurinn á heimleiðinni var samt að sjá Sasú fuglinn (en ég kann ekkert heiti á neinum af þessum dýrum og kallaði þau eftir nöfnunum í Lion King, eins og til dæmis Púmba sem var líka mjög gaman að fylgjast með). Læt þetta duga í bili -en planið er að taka því rólega hérna uppi í fjöllunum með Maasai fólkinu næstu daga.
-Lifið heil!

Engin ummæli: