miðvikudagur, janúar 28, 2015

Af nágrönnum og strandarferðum

Allt í kringum okkur eru Maasai þorp og á daginn heyrum við í krökkunum syngja fyrir geiturnar og lömbin sín. Bjöllurnar í kringum hálsinn á dýrunum hljóma undir sönginn og það er erfitt að skilja hvernig svona ungir krakkar hafa hemil á svona mörgum dýrum. Við Magnús lítum á einn strákinn sem getur ekki verið mikið eldri en Óskar. Þarna stendur hann með Maasai prikið sitt og rekur geiturnar áfram vasklega. Óskar fæst varla til að labba lengra en 50 metra án þess að fá “far” hjá okkur en þarna hleypur barnið upp og niður bratta brekkuna á eftir geitunum án þess að blása úr nös. Eldri strákarnir sýna okkur mikinn áhuga og hlaupa í áttina til okkar. Þeir segja eitthvað á maasai tungumálinu sínu og ég horfi bara á þá og brosi. Svo benda þeir á gleraugun mín og flissa og vilja svo máta þau. Ég leyfi þeim að prófa þau og þeir kafna úr hlátri og þykjast vera ringlaðir. Mér finnst þetta jafn fyndið og þeim og hlæ með þeim. Hver þarf tungumál? Þeir strjúka svo loðnu handleggi Magnúsar og kafna aftur úr hlátri. Ég skil þá vel og kafna úr hlátri líka. Við göngum upp eina brekkuna í átt að öðru þorpi og þar mætir okkur hópur af litlum stelpum sem eru sjúkar í ljóshærða síðhærða víkinginn. Þær strjúka Óskari um hárið og vilja ólmar fá að halda á honum. Hann er ekki alveg á sama máli og lætur þær hafa fyrir því að leika við sig. Eftir nokkurn eltingaleik dettur einni stúlkunni í hug að plata Óskar til sín með því að finna kind uppi í haga og bjóða Óskari að koma á hestbak á kindinni og viti menn, þetta snarvirkaði og Óskar leyfði þeirri stuttu að halda á sér og saman sátu þau á aumingja kindinni með tilheyrandi hlátursköstum hinna barnanna. Ég tók upp símann og festi þetta á “filmu” en þá barst athyglin til mín og ég var beðin að taka myndir af krökkunum sem mér fannst ekki leiðinlegt. Ég tók þessa nýfundnu athygli kannski aðeins of langt þegar mér datt í hug að gera þær feitari með “fatify” appinu mínu. Sumum fannst það fyndið en alls ekki öllum og ég held að ég hafi gert þær dauðhræddar sumar. Ég setti því símann í vasann og sleppti frekari ljósmyndun.

Svona leið vikan, göngutúrar um fallegu hæðirnar hérna í Lengijave en helgin var bókuð í strandarferð. Trausti Pajeroinn hans Elliot var græjaður í tíu tíma ferðalagið til Pangani sem er á norðausturströnd Tanzaníu. Allur tæknibúnaður var vel hlaðinn og nesti pakkað. Ferðalagið gekk furðu vel, enginn bílveikur og það sem heimamanninum fannst best var að við fengum enga sekt á leiðinni. En þannig er það hér að umferðarlögreglan er sýnileg á hverju horni og er þekkt fyrir að stöðva bíla fyrir akkúrat ekki neitt og heimta svo sekt fyrir ótrúlegustu hluti eins og að vera ekki í réttum skóbúnaði við akstur. Lögreglumennirnir eiga víst að safa ákveðnu magni af sektum og skila til yfirmannsins en mega svo eiga restina sjálfir. Það mátti því með sanni segja að það hafi verið kraftaverk að við “mzungo” (hvítingi á swahílí) fengum enga sekt alla leiðina. Okkar beið yndislegt strandhús sem Elliot og Jana konan hans höfðu leigt yfir helgina en þar var beinn aðgangur að ströndinni sem Óskari fannst æðislegt. Þarna svamlaði hann um á bossanum, áhyggjulaus og fjáls. Annars slagið pissaði hann í sandinn, horfði á mig skringilega en hélt svo áfram að leika. Helginni var eytt í það að borða góðan mat, synda í sjónum, spila spil og spjalla við góða vini. Ég hafði mestar áhyggjur af malaríu en þetta svæði er þekkt fyrir þann viðbjóð. Við vorum dugleg að kappklæða okkur á kvöldin með tilheyrandi svita en komum heim með aðeins nokkur bit hver. Nú er að bíða og sjá og vona að fyrirbyggjandi töflurnar virki. Heimleiðin byrjaði svo með því að Óskar fékk svona líka skemmtilega í magann og fékk niðurgang á fínu hvítu flísarnar í húsinu og gubbaði í bílnum. Við höldum að það hafi verið sandátið og saltvatnið sem hafi farið illa í hann en hann er búinn að ná sér og ekkert sem hægt er að kvarta yfir (nema kannski labbi-leti sem er enn að hrjá hann).

Núna erum við komin aftur í Maasai paradísina í Lengijave og í gærkvöldi grilluðum við geitalæri við arineld að hætti Maasai-a sem var virkilega skemmtilegt –ætla að prófa að grilla lambalæri á spýtu yfir arineldi á Íslandi í sumar!


Hef þetta ekki mikið lengra í bili, ok bæ!

Engin ummæli: