föstudagur, febrúar 20, 2015

Stutt á milli hláturs og gráturs

Að ferðast um heiminn hefur sína kosti og galla. Í dag er einn af þessum galladögum ef svo má kalla. Eftir viku í tjaldi á eyðieyju tókum við bát til Ao Nang sem er stórborg miðað við Lao Liang eyjuna okkar fögru. Eftir nokkra leit fundum við loks hótel sem vildi taka við okkur og hentum töskunum okkar upp á herbergi. Magnus var varla búinn að setja lykilinn í skrána áður en hann var farinn að skoða ipadinn, sjá hverju hann hefði misst af síðustu vikuna án internets. Ég las honum pistilinn og skipaði honum að slappa af með þessa blessðuð internet notkun, en innra með mér fann ég að ég þyrfti að skoða póstinn minn líka. Afi hafði verið í ágætis málum þegar ég fór frá Kradan eyju fyrir viku síðan, en allt gat gerst. Ég hafði eitthvað á tilfinningunni en ákvað að hundsa þær hugsanir og skoða ekki póstinn minn. Töskunum var komið fyrir á sinn stað, allir þurftu að pissa eftir báts og rútuferðirnar og svo var ákveðið að skella sér út á labbið að skoða “borgina”. Svimi svimi svitabað, umferð og allir pirraðir. Inn á næsta pizzastað og drykkir og pizzur á liðið. Magnus tekur símann minn og fer á netið og ég gef honum enn og aftur augað. Eftir að hann sannfærði mig um að við þyrftum nú að láta vita að við værum á lífi kíkti ég á póstinn minn og sá að Erla systir hafði sent mér fallegar myndir af okkur fjölskyldunni og afa. Ég vissi að það væru því miður ekki góðar fréttir. Síðan kíkti ég á facebook, 17 póstar og 35 athugasemdir. Ég sendi mömmu póst um að kíkja kannski á facetime og hálfri mínútu seinna komu fréttirnar, afi hafði dáið á mánudaginn umvafinn fjölskyldu og ást. Á mánudaginn var ég að snorkla á eyðieyjunni minni, grunlaus um það sem var að gerast heima. Augun fylltust af tárum og ég byrjaði að gráta eins og lítið barn þarna innan um allt fólkið á ítalska veitingastaðnum. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hafði grátið á almannafæri (síðan ég varð fullorðin allavegana) og ég var ekki viss hvort ég skammaðist mín meira fyrir að gráta á almannafæri eða það að skammast sín fyrir að gráta á almannafæri. Með kökkinn í hálsinum talaði ég við fólkið mitt heima og fann hlýju fylla tómið sem hafði skapast. Það er eitthvað svo magnað hvað fjölskylda og vinir geta látið mann líða betur. Ég hélt áfram að gráta og fékk samúðarbros frá ítalska pizzugerðarmanninum sem lét mér líka líða betur. Óskar litli hafði aldrei séð mig gráta áður og var duglegur að koma og gefa mömmu sinni knús. Þá opnuðust allar flóðgáttir og glaseygðu augun breyttust í rauðbólgin augu. Það var þá dagurinn að gleyma sólgleraugunum. Labbitúrinn var stuttur þennan daginn og fengum við okkur ís á leiðinni upp á hótel aftur þar sem ég sit í þessum töluðu orðum og reyni að melta þessar fréttir. Ég veit að afa líður mun betur núna og brosir til mín, eða jafnvel hlær af mér fyrir að gleyma sólgleraugunum. Mér heyrist að hann hafi kvatt þennan heim á fallegan hátt umvafinn fólkinu sínu. Þessi magnaða fjölskylda mun standa saman í gegnum þessar erfiðu stundir og ef ég þekki þau rétt þá verður hlegið af hinu og þessu sem gengið hefur á í gegnum tíðina. Það er nefninlega alltaf svo stutt í hláturinn hjá okkur, það er ég mjög þakklát fyrir. Afi var svo magnaður maður, hreinn og beinn eins og nafnið sem hann bar. Áður en ég fór af landi brott kom ég við hjá honum og kvaddi hann með því skilyrði að hann myndi sína mér fallega húsið sitt á Þingeyri í sumar. Hann sagði mér að njóta lífsins sem ég ætla svo sannarlega að gera, en þrátt fyrir að vera stödd á einum af fallegustu stöðum heims finnst mér enginn staður koma nálægt heimahögunum með fólkinu mínu á þessari stundu. Elsku pabbi, Gréta, Palli Jói, Stína, Svanhvít, Sólný og fylgifiskar hugur minn er hjá ykkur núna og ég hlakka til að sjá ykkur öll í sumar –kannski í húsinu góða á Þingeyri. Fyrir ykkur sem voruð að búast við ferðabloggi, það kemur innan skamms en ferðalagið frá Tanzaníu og hingað hefur verið magnað. Allir eru hraustir og heilir og glaðir í hjartanu.

Ég þakka áherynina og lofa minni dramatík næst, ég bara varð að koma þessu frá mér. Enda þetta á myndinni góðu sem Erla sendi mér. Hvíl í friði elsku afi minn.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gott að "heyra" í þér :) ég felldi nokkur tár við lesturinn. Við söknum þín líka mikið núna. Haltu áfram að lifa lífinu til fulls með strákunum þínum. Hlakka til að sjá þig í sumar og hugsa til þín. Kveðja Valgerður

Nafnlaus sagði...

Elsku hjartans yndið mitt! Það er gott að gráta ekki skammast þín fyrir það. Afar eru ómetanlegir og þeir passa upp á okkur, litlu stelpurnar :) Knús til þín elsku vinkona �� Þín Dúna