miðvikudagur, febrúar 25, 2015

Tæland í einum rykk

Átta tíma bið á Kilimanjaro flugvellinum sem er litlu stærri en Reykjavíkurflugvöllur. Ástæða seinkunar ekki kunn. Við getum okkur til að ekki “náðist í lið” eða það voru fjórar til fimm hræður í fluginu. Okkur er boðið í betri stofuna þar sem við horfðum á tennis og fótbolta og sumir fengu sér frítt viskí. Átta tímarnir flugu hjá og loksins var okkur tjáð að “náðist hafði í lið” og flugvélin færi til Nairobi stuttu seinna. Þá kom annað babb í bátinn. Lítil rella hafði bilað á miðri flugbrautinni og þurfti að bíða eftir bíl til að koma henni í lækningu. Loksins vorum við kölluð út í vél og settumst fegin í fínu Kenya Air vélina sem myndi fljúga með okkur þennan klukkutíma til Nairobi. Enn bíðum við eftir merkjum um að flugvélin fari af stað en allt kemur fyrir ekki. Klukkutíma seinna útskýrir ein flugfreyjan að það sé smá vesen með pappíra fyrir einn flugáhafnarmeðlim en því yrði reddað innan skamms. Magnus og Óskar kippa sér ekkert upp við þetta og sofa pirringinn minn af sér. Eftir eins og hálfs tíma bið fyrir klukktuíma flug tókum við loksins á loft og vorum lent áður en ég gat náð að halla augunum eins og feðgarnir. Ég var því að vonum frekar pirrípú fyrir næsta níu tíma flug til Bangkok og bjóst við all svakalegri nótt. Við tjékkuðum okkur inn við hliðið í Nairobi og fljótlega vorum við kölluð út í vél. Þegar við sýndum passana okkar og flugmiðana kom enn eitt babb í bátinn. Vélin sem skannar miðana pípti og ég hugsaði með mér, hvað nú? “Mr. Oppenheimer we have changed your seats. You have been upgraded”. Ha? Hvað þýðir það? Jú jú, okkur var hent upp í saga class á nýju Dreamliner vélinni sem þýddi bara eitt í mínum huga –sæti sem hægt er að breyta í rúm! Við komum okkur þægilega fyrir í risasætunum, drukkum fordrykkina okkar og reyndum að hundsa illu augnaráð samferðafólks okkar sem eflaust blótaði okkur fyrir að ferðast með tveggja ára gamalt barn á saga class. Níu tíma flugið breyttist í sjö tíma svefn og þrjár indælis máltíðir. Karma?


Bangkok tók á móti okkur með skiltum um ebólu og tilheyrandi læknastússi í kringum það. Við þurftum að fá vottorð á einum stað þar sem við sórum að vera ekki lasin, láta stimpla vottorðið á öðrum stað áður en okkur var hleypt inn. Förinni var heitið á Sheraton hótel við ána þar sem fyrrverandi vinnufélagi Magnusar og konan hans tóku á móti okkur en þau eru á 6 mánaða brúðkaupsferðalagi um heiminn. Bangkok er ótrúlega lifandi og skemmtileg borg og allir voðalega barngóðir. Tuk tuk ferðirnar voru Óskari ofarlega í huga og vildi hann helst ferðast um allt á tuk tuk. Við skoðuðum hofin, borðuðum góðan mat, kíktum á bakpoka geðveikina á Khao San Road, fórum í bátsferðir og borðuðum aðeins meira. Yndisleg borg sem ég mæli með að allir ferðalangar sem fljúga í gegnum Bangkok skoði allavegana í tvær nætur. Það sem mér fannst merkilegast við komuna til Tælands var að sjá hversu þróað Tæland er miðað við Tanzaníu. Hér eru vegir, rennandi vatn og auðveldar samgöngur. Frá Bangkok flugum við svo til Surat Thani þar sem við eyddum tveimur nóttum í Khao Sok þjóðgarðinum. Við gistum við ánna í frumskóginum og vöknuðum á morgnana við apahjörð sem ég get svo svarið fyrir það var að reyna að komast inn til okkar. Óskar hafði fengið góðan fjölnota nestispoka að gjöf um jólin og eitthvað frumskógardýr komst inn til okkar um miðja nótt og borðaði sig í gegnum pokann og át bananann sem var þar tilbúinn fyrir morgunmat daginn eftir. Ekkert við því að gera nema að læra að hafa engan mat nærri í frumskóginum.


Þaðan fórum við svo í “leitina að hinni fullkomnu eyju” en Magnus og Donald eru frægir fyrir að vera kröfuharðir og kalla ekki allt ömmu sína. Fyrsta stoppið var Koh Lanta eyjan, fínn staður en strendurnar þar ekki “nógu hvítar” og sjórinn “ekki nógu grænblár” eins var “allof mikið af svíum þar”.

Þaðan fórum við til Phi Phi bara til að sjá hvort hún kæmist nærri kröfum okkar, fallegur staður en “of mikið af djammandi unglingum með tilheyrandi drasli og sjónmengum” (hefði verið fullkomið fyrir nokkrum hrukkum).

Þaðan fórum við svo til Koh Kradan sem komst ansi nálægt því að vera “fullkomin”, fátt fólk, einstaklega tær sjór og ótrúlegt sjávarlíf. Við gistum í “bungalows” á ströndinni, snorkluðum í tærum sjónum og nutum lífsins með samferðafólki okkar. Á ströndinni hitti Óskar svo Zeno sem er líka tveggja og hálfs árs og urðu þeir vinir á skotstundu sem gerði líf okkar auveldara. Forleldrar Zenno voru líka í “leit að hinni fullkomnu eyju” og eftir dags ferð á Lao Liang eyju var ákveðið að hin fullkomna eyja væri fundin. Því miður héldu Donald og Kataryna áfram leiðar sinnar til Filippseyja og eyddum við síðustu nóttinni í fyrsta skipti “ein” í ferðinni og var ekki frá því að örlítið tómarúm hafði myndast.


Það tómarúm var fljótlega fyllt því Zeno og fjölskylda tóku bát með okkur til Lao Liang eyjunnar en þar eru engin hótel né byggð á svæðinu. Aðeins um 40 tjöld og matur frá eina eldhúsi eyjunnar. Við ætluðum aðeins að gista í tvær nætur en okkur líkaði svo vel að við enduðum á að gista 5 nætur í tjaldinu góða sem innihélt rúmdýnur, rafmagn og viftu. Algjör lúxus miðað við fyrri svefnaðstæður. Maturinn var ýmist grjón, smokkfiskur, kjúklingur, meiri grjón, smokkfiskur og aðeins meiri kjúklingur. Þar sem maturinn var í sterkari kantinum fékk Óskar greyið egg og grjón í flest mál og var hann hinn fegnasti þegar við komum til Ao Nang sex dögum seinna og fengum okkur pizzu.



Ao Nang er lítill strandarstaður tuttugu mínútum frá Krabi með fullt af veitingastöðum og litlum búðum. Eftir eyðieyju-veruna var Ao Nang eins og stórborg og eyddum við tveimur nóttum í “menningunni” og nutum þess að vera með loftkælingu og sjónvarp. Þaðan fórum við svo til Railey þar sem við erum núna en foreldrar vinar okkar eiga hús hérna á ströndinni sem við fengum að eyða tveimur nóttum í. Yndislegt að vera með eigið húsnæði með ísskáp sem þýðir eitt, kaldur bjór fyrir foreldrana og köld kókómjólk fyrir gríslinginn! Sólsetrin hérna eru engu lík og höfum við haft það svo gott. Á morgum förum við svo til Angkor Wat í Kambódíu þar sem við erum búin að panta 4 nætur á lúxushóteli með hótelpunktum mannsefnisins. Held að ég verði bara í heitu baðinu allan tímann…

Afsaka rununa, hef þetta styttra næst.
Hugsa til ykkar heima og þakka lesturinn –knús í hús.

1 ummæli:

Kristín María Birgisdóttir sagði...

Alltaf svo gaman að lesa það sem þú skrifar Ólöf, þetta er greinilega algjör draumur! Maður verður að fara að skipuleggja heimsreisu :) Gangi ykkur áfram vel og góða skemmtun!

kv. Kristín María