föstudagur, janúar 07, 2005

Ég er bóheim sem aðhyllist tilvistarstefnuna

Hafið þið Grindvíkingar góðir spáð í því hvers vegna þessi sérstaki þjóðflokkur okkar tekur upp á því að "sníkja" á þrettándanum? Að því sem ég kemst næst þá þekkist þetta nánast hvergi annars staðar og að því tilefni vil ég efna til áskorendakeppni þar sem farið verður í saumana á þessari hefð okkar hérna í höfuðborg Suðurnesjamanna, Grindavík.

Allt frá því að ég man eftir mér þá hefur eftirvæntingin eftir þrettándanum (sem er í raun sjötti janúar og mér fannst frekar torskilið í æsku) ekki verið síðri en að opna pakkana á aðfangadagskvöld. Kannski það sé vegna þess að ég er ógurlegur sælkeri og þið ykkar sem hafið séð myndina Álfur/Elf skiljið áhyggjur mínar um hvort ég hafi í raun alist upp á Norðurpólnum og aðeins borðað hinar fjórar aðal-fæðutegundirnar, nammi, sælgæti, sykur og sýróp. En að öllu gríni slepptu þá var það að fá að sníkja á þrettándanum miðpunktur alheimsins. Við vinkonurnar létum okkur oft detta eitthvað skemmtilegt í hug og reyndum að vera börn eins lengi og við gátum svo að bæjarbúar gætu stuðlað að fullum samkaupspokum af nammi og sælgætis-þynnkudaga í kjölfarið. Einum búning man ég þá sérstaklega eftir, en okkur Ingibjörgu datt í hug að vera B-2 eftir að hafa lesið þá bók í fimmta bekk minnir mig. Við máluðum pappakassa grænan og gulan, klipptum á hann göt og tróðum okkur inn í hann svo við gátum nú litið út eins og geimveru-síams-tvíburnarnir B-2. Þessi alræmdi búningur vakti mikla lukku bæjarbúa og í stað þess að fá afgangs-makkintos og ónýtar mandarínur fengum við rakettur og heilu súkkulaði stykkin!!

Á þrettándagleðinni í gær sá ég ekki marga krakka uppáklædda eins og var í gamla daga, sem studdi grun minn um að þessi siður sé algjörlega grindvískur. Allt nýja fólkið í bænum vissi ekki hvað væri í gangi, þegar fígúrur á borð við Línu Langsokk, Stubbana, Drakúla, My Little Pony og Arsenal-liðið bankaði upp á og bað um gott í poka og ef fólk var heppið þá fékk það að heyra Gamla Nóa Poppa Popp. Er von mín sú að nýja fólkið í bænum verði upplýst um alls konar siði og venjur okkar Grindvíkinga eins og brennuna á Jóladag, allt fússið í kringum Fótboltaballið og að á þrettándanum er best að sníkja í Efstahrauni 32 þar sem er orðinn siður að gefa Prins Póló.

Ég ætla ekki að hafa þetta neitt lengra, enda föstudagur og margt betra að gera en að pína ykkur með fáránlegum pistlum á borð við þrettánda-sníkjugleði Grindvíkinga.

Lifið heil.

Engin ummæli: