föstudagur, febrúar 25, 2005

Æðisgengin útfríkun með gellunum í veldi danans...
PART III


Eftir lærdómsríkt kvöld var svo reynt af öllum lífs og sálar kröftum að sofa út og gera sig tilbúna í Kaupmannahafnar-ævintýrið sem beið okkar (en fyrir ykkur sem ekki hafið fylgst með fyrri þáttum þessarar framhaldsögu þá vorum við sko staddar í Randers, í þriggja tíma fjarlægð frá Köben...) En eitthvað gekk erfiðlega að festa svefn, enda húsið yfirfullt af Íslendingum sem annað hvort höfðu ekkert sofið eða vöknuðu snemma til að hitta fyrir þá sem enn voru vakandi. Klukkan tíu rifum við okkur því á fætur, fengum okkur morgunmat/drykk og hlustuðum á Weezer eins og í gamla daga...

Svona leið þetta framan af degi, bara setið, spjallað, farið í púl og hlegið af þeim sem voru arfaslakir í púl, Böggz og Maggz við nefnum engin nöfn;) Klukkan um það bil hálf sex var svo kominn tími til að kveðja sveitasæluna og kommúnuna hennar Báru og halda áleiðis til Köben. Í þetta sinn keyptum við okkur sæti og miða í rétta lest, enda allar með tölu orðnar miklu meira en mellufærar í dönskunni. Lestarferðin gekk með eindæmum vel, fyrir utan táfýlu-dauðans sem undirritðu er viss um að hafi komið frá sessunauti sínum, án þess að hún hafi áreiðanlegar heimildir fyrir því :)

Klukkan 22:12 vorum við svo staddar á lestarstöðinni í Köben, sársvangar og áttavilltar. Eftir feitar franskar og ískalt kók á makkdónalds fundum við svo hótelið eftir örlitla örvæntingu klúbbsystra, en það var staðsett á besta stað rétt hjá hinum margumtalaða Striki. Þar fengum við flott herbergi við hliðaná manni sem virtist ekkert nenna að klæða sig og gekk um nakinn, sérstaklega þegar við sáum til. Þegar við loksins vorum farnar að loka augunum á nýþvegnum koddanum heyrum við bankað. "Sjeeet" heyrist í mér.... "hver ætli þetta sé, er þetta til okkar???" og ímyndunaraflið fékk lausan tauminn. Nú skyldum við drepnar á ógurlegan hátt líkt og í Amerikan sækó. "Nei, er þetta ekki til ugly naked guy við hliðiná?" heyrist í Böggu skynsömu. Við ahuguðum málið (það skal tekið fram að á þessum tímapunkti var Maggz flogin í heim draumanna) og heyrðum í tveimur blindfullum konum sem langaði eitthvað að fá gott í kroppinn eða tala við Ugly naked guy. Aftur fékk ímyndunaraflið lausan tauminn og við vorum komnar á það að þær væru vændiskonurnar sem hann hefði pantað og að hann ætlaði að ganga frá þeim að "athöfn" lokinni. Eftir miklar vangaveltur okkar Böggz opnaði loksins Ugly naked guy og hleypti þeim báðum inn. Við pössuðum okkur að slökkva öll ljós og slökkva á viðtækjunum. Eftir dágóða stund fóru þær út, en stuttu seinna kom önnur þeirra aftur og guð má vita hvað gerðist þá...

Með þessari hrollvekju kveð ég í dag og kem að venju með framhald á morgun, eftir saltfiskvinnsluna að sjálfsögðu, en við systur og frænkur ætlum að taka til hendinni og fara að flaka fisk og salta niður allan liðlangan morgundaginn.

Þar til þá, lifið heil og munið að misjöfn eru morgunverkin.

Engin ummæli: